Pólitísk pólskipti

Áhugavert er að fylgjast með breytingum sem eru að verða í kjölfar efnahagskreppunnar, kannski sérstaklega á Íslandi. Margt það sem var sagt og skrifað fyrir hrunið og þótti ekkert athugavert þá verður nú aðhlátursefni um alla framtíð. Margtuggnar klisjur um dásemdir útrásarinnar, einkavæðingarinnar og einkaframtaksins, sem voru endurteknar svo oft að jafnvel ég var farinn að taka hluta þeirra sem viðteknum sannindum, hljóma nú eins og lélegar skrýtlur.

Að fletta upp í gömlum greinum eftir helstu hugsuði íslenska efnahagsundursins er nú eins og að lesa gamlar fræðigreinar um hið dularfulla efni flogiston. Allt það sem sagt var um kraft íslenska hagkerfisins reyndist vera hálfsannleikur eða lygi. Tal um þessa ógurlegu dulrænu krafta sem voru víst leystir úr læðingi við einkavæðinguna virkar jafn gáfulega í dag og þeir sem tala um óefnislega krafta í blómadropum.

Allt landslag í efnahagslegri umræðu er gjörbreytt eftir hamfarir síðustu mánuða. Þeir sem áður voru hafðir af spotti og spéi hafa nú fengið uppreist æru en gömlu meistarnir eru nú komnir í gapastokkinn.

Það er að verða einhvers konar pólitísk pólskipti, ekki bara á Íslandi heldur allstaðar. Allt bendir til að hnattræn vinstrisveifla sé í burðarliðnum og hún er reyndar þegar hafin í Bandaríkjunum þaðan sem tískan í póltík kemur. Orðræðan er að breytast og líklega erum við á leið út úr þessu frjálshyggjutímabili sem staðið hefur yfir í um 30 ár.

Mér sýnist því að þrátt fyrir allt séu betri tímar framundan. Vonandi markar þessi kreppa dauða kreddupólitíkusanna og að hugsandi fólk komi í þeirra stað. Fátt er leiðinlegra en bókstafstrúarmenn, sama á hvaða bókstaf þeir trúa.

Tags:

8 andsvör við “Pólitísk pólskipti”

 1. Gulli

  Innilega sammála með kreddupólitíkusana – vonandi að hugsandi fólk allra flokka drattist nú bara til að fara að vinna fyrir fólkið sem kýs það, ekki bara skara eld að eigin köku.

 2. Sindri Guðjónsson

  „Allt bendir til að hnattræn vinstrisveifla sé í burðarliðnum og hún er reyndar þegar hafin … Mér sýnist því að þrátt fyrir allt séu betri tímar framundan.“ – Lalli

  Það er rétt hjá þér að hnattræn vinstrisveifla sé hafin. Af þeim sökum sagði ég við bróður minn um daginn, að ég voni innilega að ég hafi haft rangt fyrir mér öll þessi ár um vangetu vinstri manna. Það myndi gleðja mig ef vinstri stjórnir framtíðinnar myndu reynast vel.

  Ég tel ennþá að höfuð markmið stjórnmálanna eiga að vera að tryggja frelsi einstaklingsins til orða og athafna. Það er þannig samfélag sem ég vil. Hins vegar verða hægrimenn að endurskoða hugmyndir sínar, líkt og vísindamenn betrumbæta vísindatilgátur í ljósi nýrra gagna eða óvæntrar niðurstöðu í rannsókn.

  Og úr því að rætt var um kreddur, þá tel ég að nokkrir af kreddufyllstu stjórnmálamönnum landsins séu í Vinstrihreyfingunni grænu framboði, og nefni þar Ögmund og Steingrím Joð. Ef að menn telja að við höfum farið offari til hægri, þá er einnig hætt á að menn bregðist við, með offari til vinstri. Það er hættan í augnablikinu.

 3. Sindri Guðjónsson

  það er smá sem ég verð að leiðrétta. Ég vona að ég hafi haft rangt fyrir mér um vangetu HUGMYNDAFRÆÐI vinstri manna. Ég hef aldrei talið að fólkið sjálft sem sé til vinstri, sé haldið einhverri vangetu.

 4. Lalli

  Ég veit það ekki, er ekki búið að tryggja þetta frelsi einstaklinganna endanlega? Er sá kafli í stjórnmálum ekki liðinn á Vesturlöndum?

  Mér finnst Steingrímur og Ögmundur ekki vera kreddufullir. Þeir voru með þeim fáu sem stóðu á móti einkavæðingarfárinu sem felldi að lokum efnahag Íslands. Voru á móti álfylleríinu sem hefur haft afar slæm áhrif á atvinnulífið heima. Svona mætti lengi telja. Tvennt ólíkt að vera kreddufullur eða staðfastur.

 5. Sindri Guðjónsson

  „er ekki búið að tryggja þetta frelsi einstaklinganna endanlega? „

  Nei, þeir sigrar sem hafa unnist í því geta glastast hratt. Kunningi minn, sem er í VG, er t.d. algjörlega á móti því að fólk sem hefði efni á því, eigi að fá að kaupa sér (einkarekna) heilbrigðisþjónustu. Þá gæti nefnilega sú staða komið upp að þeir ríku hafi aðgang að betri þjónustu en aðrir. Af þeim sökum myndi hann t.d. vilja banna lækni að vera með sjálfstæða starfsemi einkarekna starfsemi.

 6. Sindri Guðjónsson

  Auk þess er bara einfaldur hlutur eins og skattheimta frelsis skerðing. Þess vegna þarf að stilla henni í hóf. Menn geta ætlað að gera svo rosalega mikið af góðverkum, að skattgreiðendur verða á endanum bara þrælar „almannahagsmuna“.

 7. Sindri Guðjónsson

  Sem er reyndar ekkert verra en að vera þrælar skuldbindinga hinna 30 útrásarvíkinga.

 8. Lalli

  Hér í Mexíkó er margfalt heilbrigðiskerfi. Hægt er að finna allt frá rándýrum lúxusspítölum niður í eymdarlega ríkisrekna spítala fyrir þá fátæku. Ef fólk hefur kost á því þá fer það ekki í þá síðarnefndu. Ekki er hægt annað en að velta því fyrir sér hverjir njóta góðs af svona kerfi.

  Oft er talað um frelsi til að gera hitt og þetta en hvað með frelsi frá t.d. fátækt? Peningar skipta upp stéttum hér eins og á Íslandi nema hvað stéttaskiptingin gengur mun lengra hér. Ríka fólkið sendir sín börn í rándýra einkaskóla meðan þau fátæku fara í niðurnídda ríkisskóla. Hverjum er skipað á sinn bás eftir efnahag.

  Reyndar er þetta staðan í langflestum löndum heims. Aðeins í velferðarríkjum hefur tekist að brjóta upp þetta mynstur elítuþjóðfélagsins.

  Mér finnst það vera ásættanlegur fórnarkostnaður að setja læknum (og fleirum) skorður í sinni atvinnustarfssemi og hafa jöfnuð að markmiði í heilbrigðis- og menntamálum. Hin leiðin er einfaldlega mér ekki að skapi.