Nýi síminn

Hann er kannski ekki svo nýr, minnir að ég hafi fengið hann rétt áður en Axel fæddist. Ég nota gemsa annars sáralítið hérna, helst að Anel nenni að hringja í mig stöku sinnum.

Frá því að ég kom hingað notaði ég LG síma frá Iusacell en sá var ekki með neitt kort. Konunni varð svo eitthvað uppsigað við það símafyrirtæki og við skiptum yfir í Telcel. Vegna þess að ekkert kort var í gömlu símunum þurftum við því að fá okkur síma með korti. Þá voru góð ráð dýr því við vorum ansi blönk þarna síðastliðið haust (ástandið hefur skánað mikið síðan). Við splæstum í ágætan síma handa Anel, Nokia 6500 ef ég man rétt. Ég nýtti mér hinsvegar gæðatilboð sem var í gangi og fékk ókeypis síma gegn þvi að ég keypti mér 200 pesóa inneign (u.þ.b. 2000 ISK).

Sá kallast Nokia 1112 og er afar retró. Ekkert óþarfa dót eins og myndavél eða litaskjár. Þó er hann með pólífónískum hringingum sem ég man að þóttu mjög nýmóðins um aldamótin síðustu. Mér finnst þessi sími vera nokkuð töff þrátt fyrir allt, svona eins og það er svolítið töff að eiga Trabant í dag.

Umfjöllunin á Wikipedia fannst mér af einhverjum ástæðum bráðfyndin. Þar segir meðal annars um þennan ágæta síma

With graphical icons and large font sizes the Nokia 1112 is an easy to use mobile phone that aims at first-time mobile phone users in developing countries. #

Ég er kannski ekki alveg í þessum markhóp en er þó sæmilega sáttur. Þó erum við hjónin ásátt um að næstu símar sem verða keyptir á þessu heimili verða iPhone. Eftir að hafa fiktað í svoleiðis furðutæki líkjast aðrir símar helst gömlum mors-tækjum.

Tags: , ,

Lokað er fyrir andsvör.