Archive for febrúar, 2009

Gjafmildi Guðlaugs Þórs

Þessar upplýsingar í boði Steinunnar um hvernig fyrrverandi heilbrigðisráðherra jós peningum í vini sína eru allrar athygli verðar. Gott dæmi um spillinguna sem hefur grasserað í íslenskum stjórnmálum undir stjórn íhaldsins. Auðvitað verður þessu svo sópað undir teppið og alger óþarfi að biðjast afsökunar á svona smá tæknilegum mistökum.

Þegar kemur að spillingarmálum spila íslenskir stjórnmálamenn ekki í sömu deild og kollegar þeirra í Evrópu. Í mörgum löndum þætti svona athæfi alvarlegt og jafnvel ætti þingmaðurinn að íhuga afsögn. En ekki á Fróni, þar verða svona upplýsingar persónulegar árásir og menn harma það og barma hvernig farið er með þá í fjölmiðlum og íhuga að setja lög um þá svo slíkt geti ekki hent sig aftur. Íslenskir stjórnmálamenn virðast spila í afrísku deildinni í þessum málum.

Mikið er ég feginn að Ögmundur ræður nú ríkjum í heilbrigðisráðuneytinu í staðinn fyrir þennan pólitíska ógæfumann.

Já og ef útsendarar grínvefsins amx.is líta hér við þá er ég ekki í liði með Illuga og Bjarna svo að það sé á hreinu.

Tags: , , , ,

Góð hagfræði?

Ég veit skammarlega lítið um hagfræði en einhvern veginn efast ég um þessar miklu aðgerðir sem stjórnvöld víða um heim standa í þessa dagana. Mér skilst að reynt sé að gera öfugt við það sem gert var í heimskreppunni á millistríðsárunum, þ.e. að draga úr fjármagni í umferð vegna aðhaldsaðgerða þess opinbera. Þess í stað á nú svoleiðis að dæla peningum úr ríkiskössunum og seðlabönkunum inn í kerfið og þá á allt að fara á fullt á nýjan leik.

Innspýtingarnar í Bandaríkjunum eru nú samanlagt komnar í upphæðir sem mældar eru í trilljónum dollara og önnur ríki eru einnig að setja umtalsverðar fjárhæðir í alls kyns lífgunartilraunir. Nema kannski Ísland sem á enga peninga í svona tilraunir.

Ég hreinlega veit það ekki, einhvern veginn held ég að þetta eigi ekki eftir að virka þótt ég sé yfirleitt frekar bjartsýnn maður. Bankar um heim allan komu sér sjálfir í þessi vandræði og þetta ætti að vera þeirra vandamál, ekki skattborgara. Illa reknir bankar hefðu frekar átt að fara beina leið á hausinn, vera teknir til gjaldþrotaskipta og leystir upp.

Á vald.org segir í nýlegri grein um aðgerðir ríkisstjórnar Obama:

Tölfræðilega er dæmið alveg út í hött. Ef öll hlutabréf Citigroup, JP Morgan Chase og Bank og America hefðu verið seld núna í byrjun vikunnar þá hefði samanlagt verð þeirra verið $158 milljarðar. Á sama tíma er ríkið að styðja þessa þrjá banka með lánum og skuldbindingum upp á $250 milljarða og sú tala fer upp í $500 milljarða ef staða þeirra versnar. Og nú eru enn meiri peningar á leiðinni!

Það liggur í augum uppi að aðilar sem hafa fjárfest í hlutabréfum þessara banka eru í raunveruleikanum búnir að tapa svo til öllu. Án skattgreiðenda væri fjárfestingin löngu glötuð. Þannig ganga hlutirnir fyrir sig á frjálsum mörkuðum, menn græða á sumum fjárfestingum og tapa á öðrum. Þegar svona staða kemur upp þá á ríkið að þjóðnýta bankana strax og gera útistandandi hlutabréf verðlaus. Þetta er sænska leiðin. Næsta skerf er svo að taka alla vandræðapappíra út úr þessum bönkum og mjatla þeim út á markaðinn á einhverju verði. Þegar bankarnir eru lausir við allt ruslið þá braggast þeir fljótt aftur og ríkið selur þá á frjálsum markaði.

Þótt þetta sé vissulega dýrt í framkvæmd þá er þessi leið ekki aðeins ódýrara en sú sem nú er í gangi, heldur flýtir hún líka gífurlega fyrir nýjum uppgangstímum í hagkerfinu. Með því að ausa peningum árum saman í hálfdauða banka þá er hins vegar verið að tryggja þráláta efnahagslægð. Japanir gengu þessa píslagöngu eftir 1990 og kalla það týnda áratuginn. #

Þetta hljómar ekki ósennilega fyrir mér. Ég held að það hafi verið nær fyrir ríkisstjórnir að sjá til þess að fólkið geti þraukað kreppuna með t.d. atvinnuleysisbótum og niðurgreiddri félagslegri þjónustu. Að prenta peninga og dæla þeim svo út um allt, eins og úr góðri haugsugu, er örugglega ekki það skynsamlegasta í stöðunni.

Annars er ég belja á hálum ís í svona umræðum og segi ekki meira að sinni.

Tags: , ,

Hversu marga guðfræðinga…

.. þarf til að skrifa góða blaðagrein?

Svar: Þeir mega ekki vera færri en níu.

Tags:

Tækifærisblogg

Mér hálfleiðast pólítíkusar sem byrja að blogga af miklum móð kortéri fyrir kosningar og hætta því síðan að þeim liðnum. Gott dæmi er þessi hérna.

Finnst þetta vera nánast óheiðarlegt en kemur kannski ekki á óvart þegar að stjórnmálamenn eiga í hlut.

Annars virðist kosningabaráttan í ár fara fram á Facebook. Sé að félagar mínir þar þyrpast í hina ýmsu hópa og stuðningsmannalista þar.

Tags: , ,

Málfræði Ara

Ari bað mig um vatn fyrir svefninn með eftirfarandi orðum í kvöld.

Pabbi, aqua please.

Fólk er að segja mér að með tímanum læri hann að greina á milli tungumála. Ég vona að það hafi rétt fyrir sér. Dálítið mikið að slá saman þremur tungumálum í þriggja orða málsgrein.

Tags: ,

Pólitísk pólskipti

Áhugavert er að fylgjast með breytingum sem eru að verða í kjölfar efnahagskreppunnar, kannski sérstaklega á Íslandi. Margt það sem var sagt og skrifað fyrir hrunið og þótti ekkert athugavert þá verður nú aðhlátursefni um alla framtíð. Margtuggnar klisjur um dásemdir útrásarinnar, einkavæðingarinnar og einkaframtaksins, sem voru endurteknar svo oft að jafnvel ég var farinn að taka hluta þeirra sem viðteknum sannindum, hljóma nú eins og lélegar skrýtlur.

Að fletta upp í gömlum greinum eftir helstu hugsuði íslenska efnahagsundursins er nú eins og að lesa gamlar fræðigreinar um hið dularfulla efni flogiston. Allt það sem sagt var um kraft íslenska hagkerfisins reyndist vera hálfsannleikur eða lygi. Tal um þessa ógurlegu dulrænu krafta sem voru víst leystir úr læðingi við einkavæðinguna virkar jafn gáfulega í dag og þeir sem tala um óefnislega krafta í blómadropum.

Allt landslag í efnahagslegri umræðu er gjörbreytt eftir hamfarir síðustu mánuða. Þeir sem áður voru hafðir af spotti og spéi hafa nú fengið uppreist æru en gömlu meistarnir eru nú komnir í gapastokkinn.

Það er að verða einhvers konar pólitísk pólskipti, ekki bara á Íslandi heldur allstaðar. Allt bendir til að hnattræn vinstrisveifla sé í burðarliðnum og hún er reyndar þegar hafin í Bandaríkjunum þaðan sem tískan í póltík kemur. Orðræðan er að breytast og líklega erum við á leið út úr þessu frjálshyggjutímabili sem staðið hefur yfir í um 30 ár.

Mér sýnist því að þrátt fyrir allt séu betri tímar framundan. Vonandi markar þessi kreppa dauða kreddupólitíkusanna og að hugsandi fólk komi í þeirra stað. Fátt er leiðinlegra en bókstafstrúarmenn, sama á hvaða bókstaf þeir trúa.

Tags:

Gengissvindl

Ég er í þeirri aðstöðu núna að ég kaupi íslenskar krónur mánaðarlega til að borga fyrir gamlar syndir í heimalandinu. Líklega má ég þakka fyrir hagstætt gengi þessi misserin þar sem að krónan var um tvöfalt verðmætari þegar ég tók hana að láni á sínum tíma.

Samt sem áður finnst manni að ekki sé allt með felldu í þessum málum þegar evran er sögð verða um 145 krónu virði heima en Seðlabanki Evrópu metur málin svo að ein evra er um 290 krónu virði. Er kannski verið að svindla á mér?

Tags: ,

Nýi síminn

Hann er kannski ekki svo nýr, minnir að ég hafi fengið hann rétt áður en Axel fæddist. Ég nota gemsa annars sáralítið hérna, helst að Anel nenni að hringja í mig stöku sinnum.

Frá því að ég kom hingað notaði ég LG síma frá Iusacell en sá var ekki með neitt kort. Konunni varð svo eitthvað uppsigað við það símafyrirtæki og við skiptum yfir í Telcel. Vegna þess að ekkert kort var í gömlu símunum þurftum við því að fá okkur síma með korti. Þá voru góð ráð dýr því við vorum ansi blönk þarna síðastliðið haust (ástandið hefur skánað mikið síðan). Við splæstum í ágætan síma handa Anel, Nokia 6500 ef ég man rétt. Ég nýtti mér hinsvegar gæðatilboð sem var í gangi og fékk ókeypis síma gegn þvi að ég keypti mér 200 pesóa inneign (u.þ.b. 2000 ISK).

Sá kallast Nokia 1112 og er afar retró. Ekkert óþarfa dót eins og myndavél eða litaskjár. Þó er hann með pólífónískum hringingum sem ég man að þóttu mjög nýmóðins um aldamótin síðustu. Mér finnst þessi sími vera nokkuð töff þrátt fyrir allt, svona eins og það er svolítið töff að eiga Trabant í dag.

Umfjöllunin á Wikipedia fannst mér af einhverjum ástæðum bráðfyndin. Þar segir meðal annars um þennan ágæta síma

With graphical icons and large font sizes the Nokia 1112 is an easy to use mobile phone that aims at first-time mobile phone users in developing countries. #

Ég er kannski ekki alveg í þessum markhóp en er þó sæmilega sáttur. Þó erum við hjónin ásátt um að næstu símar sem verða keyptir á þessu heimili verða iPhone. Eftir að hafa fiktað í svoleiðis furðutæki líkjast aðrir símar helst gömlum mors-tækjum.

Tags: , ,

Framtíðarhorfur

Væri nú ekki ónýtt að halda upp á þrítugsafmælið á okkar eigin veitingastað.

Tags:

Óttinn er það versta

So, first of all, let me assert my firm belief that the only thing we have to fear is fear itself — nameless, unreasoning, unjustified terror which paralyzes needed efforts to convert retreat into advance. # Franklin D. Roosevelt

Á tímum niðursveiflu og samdráttar kemur yfir marga óöryggi og menn fyllast svartsýni á framtíðina. Ég óttast engan veginn þessa efnahagslægð því ég tel að sagan sanni að allar kreppur endi einhvern daginn. Hins vegar óttast ég hvernig sumt fólk notfærir sér ótta annarra í eiginhagsmunaskyni.

Hér á ég sérstaklega við hina ýmsu trúarsöfnuði sem notfæra sér ástandið og versandi kjör alþýðunnar. Strax er látið í það skína að nú séu hörmungar allra hörmunga að renna upp, dómsdagur gæti verið handan við hornið. Iðrist synda yðar og gefið oss peninga yðar. Það er nú eða aldrei!

Ríkiskirkja Íslands tekur einnig þátt í þessu því hún veit sem er að fátt selur eins vel og óttinn. Búið er að koma upp sérstakri „Krepputíð“ valmöguleika á trú.is svo að fagnaðarerindið fari nú ekki framhjá neinum. Óneitanlega læðist að manni sá grunur að nú sé gósentíð kirkjunnar því erfitt er að selja forneskjulegan boðskap himnafeðganna í landi góðæris og allsnægta. Kreppan gefur því sölumönnum hindurvitnanna ný kærkomin tækifæri til þess að sækja fram.

Fjölskylda konunnar er því miður nokkuð innvinkluð í Votta Jehóva og þar eru nú ekki spöruð stóru orðin, frekar en fyrri daginn. Margir þar boða nú að þetta séu endalokin sjálf og brátt fer Jesú kallinn að skella sér í eitt stykki Harmageddon, svona þegar búið er að hræra nógu mikið upp í hlutunum. Já, þetta á allt eftir að versna, segja þeir. Nánast fullir tilhlökkunar sýnist manni. Ógæfufólk sem lendir í þessum félagsskap. Ef ekki fyrir inngöngu þá eftir hana.

Já ég óttast ekki fall á hlutabréfum eða lækkandi gengi en ástæða er til að varast afleiðingarnar. Óttaslegið fólk getur gert ótrúlegustu hluti. Fyrir nokkrum árum tókst manni nokkrum að sannfæra hóp fólks um að fremja með sér fjöldasjálfsmorð. Ástæðan var sú að halastjarna nokkur sem á þeim tíma var nálægt jörðu átti að hafa á bak við sig geimfar og þeir sem frömdu sjálfsmorð áttu þannig að komast um borð.

Ef að halastjarna getur haft þessi áhrif á fólk þá er augljóst að jarðbundnari hlutir eins og að missa húsnæðið og/eða atvinnuna getur haft jafnvel enn meiri áhrif á fólk. Við verðum öll að vera á varðbergi gagnvart þeim sem notfæra sér þessar aðstæður. Óttinn hefur lamandi áhrif á dómgreind fólks og það verður móttækilegra fyrir alls kyns vitleysu. Það er engin tilviljun að uppgangur fasismans var á kreppuárunum. Óttinn er það versta í núverandi ástandi.

Tags: , , , , ,