Archive for janúar, 2009

Tvítyngt barn

Að ala upp tvítyngt barn er nokkuð sérstök lífsreynsla. Líklega hef ég staðið mig með sóma í að tala við Ara Snæ þar sem hann virðist skilja allt sem ég segi á íslensku. Hann er farinn að tala meira með hverjum deginum og hann segir flest á spænsku en þó leynast innan um íslensk orð eins og „meira“, „núna“, „já“ o.s.frv.

Ég held að það verði tvímælalaust mikill kostur fyrir hann og Axel í framtíðinni að hafa tvö móðurmál, sama hvar við búum. Við hjónin ræðumst enn mikið við á ensku og svo virðist sem hann skilji einnig eitthvað úr því máli því stundum bregst hann við því sem við erum að tala um. Þrátt fyrir að hafa gætt okkur á því að ræða einungis við hann á okkar máli.

Kannski er því hægt að tala um þrítyngt barn!

Á sambýlinu sem ég bjó á í Skövde var þar stúlka að nafni Aline. Hún átti finnska mömmu og úrúgvæskan pabba, alin upp í Svíþjóð og talaði að sjálfsögðu reiprennandi ensku eins og Norðurlandabúum er títt. Hún var því fullfær í finnsku, spænsku, sænsku og ensku. Mér fannst það aðdáunarvert því fátt er líkt með þessum tungumálum nema helst þeim tveimur síðastnefndu.

Mínir synir verða e.t.v. eitthvað á þessa leið þegar þeir komast til manns. Þá verð ég nú stoltur.

Tags: , , ,

Móðu-Haardindum lokið?

Ekki bregst það þegar ég bregð mér frá og sé ekki Netið í smátíma þá verður allt vitlaust á klakanum. Stjórnin fallin!

Ég hef verið á móti Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn síðan að ég var fimmtán ára. Hef því eytt fjórtán árum í stjórnarandstöðu, held að það sé löngu tímabært að skipta um hlutverk við sjallana.

Þessi vika hefur verið sú besta á minni ævi hvað varðar pólitíkina. Fyrst fór Bush á þriðjudaginn og nú er Þingvallastjórnin farin frá völdum. Hvað er hægt að biðja um meira?

Tags: ,

WordPress-væðing Kommúnunnar

Hér hafa nú orðið mestu breytingar í sögu Kommúnunnar en við erum að flytja okkur frá Movable Type yfir í WordPress. Svo drastísk eru þessi umskipti að Sverrir hefur meir að segja hafið bloggskrif á ný, öllum að óvörum.

Næstu dagana verður þessi síða líklega dálítið í hönk en með tíð og tíma hlýtur að komast sæmilegt skikk á hlutina.

Þessar breytingar leggjast vel í mig. Margar af gömlu síðunum lúkkuðu mjög 2006 og þörf var á endurnýjun. Við fyrstu sýn virðist sem að kerfið sé einnig notendavænna en MT er.

Ég ætla að nýta tækifærið við þessi tímamót og hefja notkun á svonefndum efnisorðum en ég hef séð það á ýmsum síðum að þau eru góð til að halda utan um vitleysuna sem vellur upp úr manni.

Ætli það sé ekki hægt að segja að hér séu hafnir nýir tímar á traustum grunni?

Tags: ,

Löggunni skipað að gasa myndatökumenn?

Mikið gengur á heima sé ég þegar ég renni yfir fréttir dagsins sem nú er reyndar orðinn gærdagurinn. Þetta vekur vonir um að eitthvað eigi eftir að breytast og jafnvel að valdastéttin „leyfi“ nú kosningar.

Annars virðist rauði þráðurinn í frásögnum mótmælenda vera sá að myndatökumenn séu teknir fyrir og gasaðir miskunnarlaust. Gneistinn fékk fyrirvaralaust gusu á sig fyrir að filma lögregluofbeldi, Örvitinn segir frá ljósmyndara sem varð fyrir aðkasti lögreglunnar og jafnvel myndatökumenn mbl.is voru teknir fyrir og úðað beint í augu þeirra. Hef séð fleiri dæmi á netrápinu.

Jæja, nú er allt orðið endanlega vitlaust á skerinu. Þetta eru þessir áhugaverðu tímar sem fólk er alltaf að tala um.

Nýr Bandaríkjaforseti

Horfði á athöfnina í dag á BBC þegar Obama tók við af W. Kom mér leiðinlega á óvart hversu trúartengd þessi athöfn var, þurfti tvo klerka til að fara með sitt hvora bænina. Heldur hafði ég viljað hlýða á meiri tónlist eða ljóðalestur.

Það var svo eins og þungu fargi væri létt af mér þegar að Bush sveif á burt úr stjórnmálum í þyrlunni. Hef eytt fullorðinsárunum í að pirra mig á þessum durgi og nú er hann loks horfinn á braut. Kaninn má eiga það að hann var forsjáll á sínum tíma að hafa þessa forseta sína ekki lengur á valdastóli en átta ár. Tryggir nauðsynlega endurnýjun.

Held að ég eigi eftir að vera nokkra stund að átta mig á því að Bush sé orðinn valdalaus bóndi í Texas.

Ég hef ekki svo miklar væntingar til Obama en tel þó að hann verði alveg sæmilegur.

Heimurinn batnaði í dag, þrátt fyrir allt.

Þegar fólk er notað sem skildir

Segir sig sjálft að það er óverjanlegt að nota konur og börn sem skildi. En er það þá í lagi að skjóta og sprengja þessi skildi?

Les svo mikið af moggabloggi um brjálaða Hamas liða sem fela sig bakvið konur og börn. Aldrei hreyfa þó þessir ágætu menn andmælum við því að Ísraelsher sprengi téðar konur og börn í litla búta.

Óskalisti fyrir nýja lýðveldið

Eitthvað er rætt um það heima að stofna nýtt lýðveldi á rústum hins gamla, annað lýðveldið yrði það þá víst. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið og því vil ég koma hér á framfæri nokkrum óskum sem snerta þennan möguleika.

 1. Aðskilja þarf að fullu ríki og kirkju. Ríkiskirkjan verði lögð niður. Hætt verði öllu messugauli fyrir setningu Alþingis. Tekið verður fyrir lútherskt trúboð í leik- og grunnskólum landsins. Allt sem snýr að ríkinu og starfsemi þess verði á veraldlegum forsendum óháð trúarbrögðum.

 2. Öll heilsugæsla og menntun verður kostuð af ríkinu. Lögð verði sérstök áhersla á styrkingu HÍ. Einkaskólar skulu ekki njóta neins framlags frá ríkinu sbr. forskeytið „einka“ við nafn þeirra.

 3. Komið verði á lestakerfi sem nær hringinn í kringum landið auk sporvagnakerfis á höfuðborgarsvæðinu.

 4. Allt sem eftir er af hálendinu verði friðað.

 5. Ísland segi sig úr NATO.

 6. Franska leiðin verði tekin upp í kosningum, þ.e. forsætisráðherra verði kosinn beinni kosningu og hann velur sér síðan ráðherra. Þessar kosningar skulu ekki fara fram samhliða Alþingiskosningum svo að þær falli ekki í skuggann.

 7. Við Alþingiskosningar verður notað hið byltingakennda d’Larus kerfi.

 8. Vald forseta lýðveldisins verður ekki aukið frá því sem nú er en þó gert ráð fyrir því að hann megi beita því, ólíkt því sem nú er.

 9. Dómarar verði skipaðir af nefnd skipuð af Alþingi.

 10. Ísland gangi í ESB og taki upp evru. Seðlabankinn heyrir sögunni til.

 11. Listaháskólanum verði úthlutað húsi Seðlabankans. Ekki fleiri steinsteypuslys í miðbænum.

 12. Kvótakerfinu verði breytt og gert réttlátara.

 13. Allar eignir útrásarvíkinganna gerðar upptækar, ég meina til hvers að gera bara skuldirnar upptækar?

 14. Útrásarvíkingum úthlutað sæmilegum blokkaríbúðum í Neðra-Breiðholti. Þar verða þeir í reglulegri umsjá geðlækna og annarra fagmanna til að þeir geti sigrast á peningafíkn sinni og orðið nýtir borgarar einn daginn.

 15. Ísland endurskipuleggi þróunaraðstoð sína þannig að hún fari mest öll til Grænlands.

Lesendum er boðið að bæta við punktum.

Álið gæti brugðist eins og bankarnir

Fyrirsjáanlegt er að Íslendingar þurfa nú um langa hríð að sitja af sér afleiðingar glórulausrar efnahagstjórnunar íhaldsins. Þetta gæti enn versnað ef áliðnaðurinn færi sömu leið og bankarnir, lóðrétt á hausinn, nema munurinn er að bankarnir geta hjarnað við meðan að órekstarhæfu álveri verður einfaldlega lokað.

Heimsmarkaðverð á áli hefur lækkað mikið undanfarið vegna efnahagsástandsins en það er ekkert sem segir til um að það eigi eftir að hækka aftur. Nýjar lausnir og önnur efni sem geta komið í stað áls eru við sjóndeildarhringinn, svo sem koltrefjar. Efnahagskreppan á einungis eftir að flýta fyrir þessari þróun og vægi áls mun að öllum líkindum minnka mikið í framtíðinni.

Því gæti farið svo að Reyðarfjörður endi eins og Ingólfsfjörður einhvern daginn, draugafjörður með stórri yfirgefinni verksmiðju sem var byggð á forsendum sem síðar brustu.

Tveggja ára

Ari Snær varð tveggja ára í dag og við héldum dálitla afmælisveislu af því tilefni. Hún var haldin heima hjá Yuly frænku sem býr í rúmgóðu einbýlishúsi og hentar því betur undir partýstand heldur en íbúðin okkar. Reyndar hélt Ari upp á eins árs afmælið sitt þar líka.

Hann er alveg með það á hreinu núna að hann er „dos“ ára gamall og réttir upp tvo fingur ef hann er spurður.

Afmælistertan var ekki af verri endanum, fimm kílóa terta með stórri mynd af sjálfum Lightning McQueen úr kvikmyndinni Cars en sú ræma er í miklu uppáhaldi þessa dagana enda er Ari mikill bílaáhugamaður. Bílar nefnast hjá honum brúmm-brúmm og oft er beðið um að brúmm-brúmm myndin sé sett í imbann.

Hægt er að segja að þetta hafi verið þemapartý þar sem hann fékk eingöngu bíla í afmælisgjöf. Fékk slatta af leikfangabílum, bílaþvottastöð sem notar alvöru sápu og vatn, fjarstýrðan bíl sem mun eflaust vekja mikla lukku þegar tími gefst til að kaupa rafhlöður og svo loks Súpermann-bíl.

Reyndar staldraði ég aðeins við síðustu gjöfina, síðan hvenær hefur Súpermann átt bíl? Gengur engan veginn upp að maður sem getur flogið hraðar en ljósið sé að rúnta í einhverri druslu.

Við eigum enn eftir að kaupa eitthvað handa drengnum en ég geri ráð fyrir því að það verði mjúkur pakki. Ég markaði þá stefnu strax frá fæðingu að við Anel ættum að halda öllum leikfangakaupum í lágmarki því að þau eiga hvort eð er að hlaðast upp stjórnlaust og það hefur gengið eftir. Eins gott við förum að flytja bráðum til að bæta við plássi fyrir leikföng tveggja drengja.

Undarlegir blórabögglar

Ímyndum okkur að ég tæki bíl á leigu, keyrði svo á honum út um allt dauðadrukkinn og svefnlaus með allt í botni þangað til að mér tækist að að vefja honum utan um ljósastaur. Gæti ég kennt bílaleigusamningnum um hvernig fór?

Að sjálfsögðu ekki, það væri í hæsta máta fáranlegt þótt að kannski væri hægt að segja ef ég hefði ekki skrifað undir bílaleigusamninginn þá hefði ég aldrei klesst bílinn.

Sumum finnst þó þetta vera boðleg rök í umræðum um bankahrunið á Íslandi. Hannes Hólmsteinn er einn þeirra sem vill kenna EES samningnum um hvernig þetta fór allt saman. Ef ekki hafði verið skrifað undir hann þá hefðu bankarnir ekki getað starfað með þeim hætti sem þeir gerðu erlendis og hefðu aldrei farið á hausinn með sinni bjánalegu hegðun. Kannski er hægt að segja að þetta gangi upp en þá eingöngu eins og bílaleigusamningurinn gerði mér það kleift að klessa áðurnefnda bifreið.

Og fyrst að ég er að röfla hér um undarlega blóraböggla þá langar mig til þess að minnast á þá sem Vefþjóðviljinn fann um daginn, breska sparifjáreigendur.

Margt af því fólki sem lagði fé inn á Icesave og aðra netreikninga íslenskra banka hefur komið fram opinberlega og barmað sér. Þetta fólk lét erlendan banka, sem það þekkir lítt eða ekkert, fá peningana sína í gegnum netið til að ná sér í 0,3% ávöxtun umfram það sem það fengi í banka sem það þekkir. Það væri galið ef áhættufíklar af þessu tagi ættu einhverja kröfu á skattgreiðendur sem höfðu nákvæmlega ekkert um málið að segja. Þeir forsvarsmenn breskra líknarfélaga sem koma fram opinberlega og heimta ábyrgð íslenskra eða breskra skattgreiðenda á eigin bíræfni ættu að skammast sín. Almennt þarf að fara að kenna fólki að það getur tapað peningum sem það leggur í banka. #

Auðvaldsseggirnir eru í erfiðri aðstöðu þessa dagana og í botnlausri afneitun. Allt var þetta öðrum að kenna, jafnvel þeim sem lögðu peninga inn á íslenska bankareikninga. Það er vandlifað.