Archive for desember, 2008

Þjóðaratkvæði um NATO?

Ef Íslendingar eiga nú að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu á næsta ári um hvort að ræða eigi við ESB um mögulega aðild er þá ekki rétt að slá tvær flugur í einu höggi? Setja má annað deilumál í þjóðaratkvæði þ.e. um aðild Íslands að NATO en þjóðin var aldrei spurð álits á inngöngunni á sínum tíma.

Ég væri til í að vera fluga á vegg hjá dómsmálaráðherra daginn sem Ísland gengi úr NATO og færi í ESB. Með myndavél.

Jólin

Þá eru jólin að mestu gengin yfir. Við höfðum það gott þótt að Anel tæki sér ekki mikið frí þessi jólin, einungis 25. des var hún ekki að vinna. Konan mín er mikill dugnaðarforkur enda veitir okkur ekki af pesóunum á þessum síðustu og langverstu tímum.

Á aðfangadagskvöld fórum við til frænku okkar hér og fengum saltfisk sem er einn helsti hátíðarmaturinn hér. Þessi saltfiskur líkist þó lítið þeim sem tíðkast heima, þetta er einhvers konar kássa með ýmsu góðgæti í. Ýmislegt meðlæti var einnig og svo var ávaxtasalat í eftirrétt. Ég hlýt því að hafa sparað helling í kalóríum miðað við allar steikurnar og rjómaísinn sem maður var vanur að snæða heima á þessum tíma ársins.

Fengum svo kalkún í mandarínusósu í gær hjá tengdamömmu. Einnig ávaxtasalat í eftirrétt þá, allt frekar heilsusamlegt.

Pakkar bárust okkur að heiman og við þökkum vel fyrir þá sem og íslenskt konfekt og lakkrís sem bjargaði þessum jólum. Einnig komu einhverjar gjafir héðan, flestar fyrir drengina eins og það á að vera. Við ákváðum að sleppa öllum jólagjöfum að þessu sinni og fara frekar á janúar-útsölurnar og fata okkur upp þá fyrir slikk.

Við sendum jóla og nýárskveðjur til allra sem við þekkjum. Árið 2008 var erfitt ár og ég held að fáir Íslendingar sjá eftir því í aldanna skaut. Megi það næsta vera skárra fyrir okkur öll.

Drengirnir

Fékk sendar myndir í tölvupósti áðan af Ara og litla bróðir hans. Fannst því tilvalið að skella þeim hér inn. Ég hef ekki haft neinn tíma til að vasast í okkar eigin myndum auk þess sem eitthvað skrítið gengur að myndasíðunni minni. Hef sent formlega kvörtun á Óla.is, vona að hann reddi þessu einn daginn.

Setti reyndar inn um daginn myndir frá sumarfríinu mikla, líklega er meira en tveir mánuðir síðan það var gert en ég gat ekki klárað það alveg vegna tæknilegra örðugleika. Í síðasta albúminu frá Toronto á aðeins eftir að lagfæra uppsetninguna en fólk getur nú skoðað myndirnar fyrir því.

Svona líta drengirnir út í dag, Ari var reyndar þreyttur þegar myndin var tekin og hefur einnig verið slappur undanfarna daga. Ekki besta myndin af honum en jæja. axelI.JPG axelII.JPG ariI.JPG Efstu tvær eru af þeim yngri og sú neðsta er af Ara Snæ. Ég held að kommentakerfið sé í lamasessi og því geta lesendur ekki tjáð hrifningu sína sem skyldi. Í þeim efnum bind ég einnig vonir mínar við að Óli reddi því einn góðan veðurdag.

Fangabúðunum í Guantánamo lokað

Minn maður Obama vann kosningarnar en satt best að segja býst ég ekki við miklu frá honum, helst að hann geti orðið skárri en Bush. Væri nú erfitt að gera verr en sá skunkur.

Byrjunin lofar þó góðu. Hann er það stórhuga að hann hræðist ekki að ráða fyrrum keppinauta sína í valdamiklar stöður og svo virðist hann ætla að gera alvöru úr því að loka pyntingabúðunum í Guantánamo á Kúbu. Heimur batnandi fer.

Þakklæti

Á svona dögum er ég afar þakklátur fyrir allt gultennta ríka fólkið hér í Mexíkó sem er að draga okkur í gegnum niðursveifluna hratt og vel.

VG kjósandi á ný

Jájá, þessi slökunarstefna VG nægir mér alveg. Tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla og læti, ég er hvort sem er afar hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslum og öðrum kosningum. Megi slíkt verða sem oftast.

Hátækni og nýsköpun

Margir pólitíkusar reyna ósjaldan að skora stig hjá skrílnum með því að segjast vilja leggja áherslu á hátækni og nýsköpun í þjóðfélaginu. Þrátt fyrir að þetta hljómi klisjukennt þá er þetta samt laukréttar áherslur.

Ég hef ekki farið mjög víða en þó haft það af að þvælast til fjögurra heimsálfa. Oft hefur sú spurning leitað á mann, kannski sérstaklega þegar maður sá blómlegar ræktarlendur Tanzaníu þar sem allt var hægt að rækta, hversvegna fólk í þriðja heiminum hefur það svo skítt? Sömu sögu er reyndar hægt að segja um Kenýa, Tæland og Mexíkó, hin þróunarlöndin sem ég þekki til, þar sem hunang og smjör drjúpa af hverju strái. Meðan t.d. Norðurlandaþjóðir lengst norður á hnettinum þar sem er vetur hálft árið hafa nóg að bíta og brenna.

Svarið er þó frekar einfalt. Ég er nú að segja það sama og margir mér fremri menn hafa sagt mun betur en hvað um það. Frumframleiðsla er í dag frekar lítils virði. Námagröftur, kaffiræktun og fiskveiðar eru handahófskennd dæmi sem fyrst koma í hugann. Arðsemi af þessu basli er lítill miðað við þá miklu vinnu sem fer í þessa atvinnuvegi. Þetta er mannfrekt og oft orkufrekt batterí en þeir sem leggja mest á sig í þessu standa yfirleitt slyppir og snauðir eftir, sbr. vinnuafl á plantekrum eða í námum.

Verðmætasköpun í hátækni- og þekkingariðnaði er mun meiri. Nokkrir tölvunördar sem stofna fyrirtæki í bílskúr eða kjallara um að gera tölvuleik á netinu geta á nokkrum árum halað mun meira inn en stór kaffiplantekra. Maður sem stofnar fyrirtæki um að framleiða hátækni-gerfiútlimi getur náð ótrúlegum árangri eins og Íslendingar þekkja.

Rétt er að taka fram að ég tel ekki að braskarar sem hafa lært að selja pappíra með alls kyns hundakúnstum á heimsmarkaði falli undir svona iðnað, ekki frekar en þeir sem á árum áður lærðu að drýgja gull með ódýrari málmum. Þótt að vissulega þurfi þekkingu til þá þarf líka að vera til staðar einhver metnaður til jákvæðrar uppbyggingar, ekki bara viljinn til að græða.

Vegna ofangreindra ástæðna hefur það verið pirrandi að sjá íslensk stjórnvöld leggja litla áherslu á menntun og nýsköpun á síðustu áratugum en þeim mun meiri á landbúnaðarstyrki og að hygla frumframleiðslu í stóriðju. Að bræða ál er jú skrefi ofar en að grafa báxít úr jörðu en skrefið er ekki stórt. Þess á milli voru stjórnvöld svo sjálfskipaðar klappstýrur braskvæðingarinnar og þeirrar hagfræði að græða peninga með því að einn aulinn seldi öðrum aula pappíra.

Reyndar verð ég að segja að líklega er núverandi ríkisstjórn örlítið meðvitaðri um mikilvægi þekkingar enda er krataflokkurinn mun skárri en bændaflokkurinn. Íhaldið ræður samt enn förinni.

Ég óska þess að kosningar verði haldnar bráðlega á Íslandi þar sem framsækin ríkisstjórn fengi tækifæri til að spreyta sig. Þar sem áhersla yrði lögð á þekkingu og nýsköpun en sovéskri þungaiðnaðarstefnu lögð á hilluna um alla framtíð. Eins og staðan er í dag þá finnst mér samt líklegast að stjórnin lafi fram til 2011 eins skítt og það nú er.

Fólkið heima

Undanfarna mánuði hef ég ósköp lítið verið í sambandi við fósturjörðina nema helst að ég les yfir fréttir á Netinu fyrir svefninn. Ég hef ekki haft tíma til að hringja mikið heim og þegar það gerist þá er það nánast eingöngu heim til foreldra minna. Í kvöld fór ég þó inn á MSN sem ég held að ekki hafi gerst síðan í september, fyrir bankahrunið. Þar hitti ég fjóra aðila sem skulu nefndir svo því ekki vil ég að Persónuvernd loki síðunni minni.

Staðan hjá tveimur þeirra var ekkert sérstök. Fyrsta aðilanum og maka hans hefur báðum verið sagt upp störfum frá og með febrúar. Maka aðila nr. 2 hefur einnig verið sagt upp störfum og sjálfur er hann ekki allt of öruggur með sína atvinnu. Nr. 3 vinnur nokkurn veginn hjá sjálfum sér og hefur enn ekki sagt sér upp. Sá fjórði er í námi og sleppur því í bili við áhyggjur af uppsögnum.

Einnig hef ég stundum haft símasamband við fimmta aðila sem missti vinnuna í nóvember en það var 50% starf stundað samhliða námi.

Nokkrir í Kommúnunni unnu hjá 24 Stundum en það blað endaði ævina með sviplegum hætti í október.

Ekki blæs byrlega fyrir félögum mínum heima á Fróni þessa dagana. Við Anel vorum að velta því fyrir okkur að setjast að á Íslandi fyrir tveimur árum. Ég get ekki sagt að ég harmi það mikið að við völdum Mexíkó í bili. Þótt að í augnablikinu gæti staðan verið betri þá höfum við tröllatrú á framtíðinni hér. Ef við værum heima á Íslandi þá væri staðan eflaust öðruvísi í dag.

Einn aðilinn reiknar með mörg þúsund manna fólksflótta frá klakanum á næsta ári, svipað og Færeyjar lentu í hér um árið. Eins og staðan er í dag þá býst ég einnig fastlega við miklum flóttamannastraumi. Eins gott að við ætlum að flytja snemma á næsta ári í stærri íbúð.

Einhliða upptaka á öðrum gjaldmiðli

Svo virðist af fréttum heima sem að kreddupólitíkusar í röðum íhaldsmanna séu að bíta það í sig að næsta skítaredding í hinni glæsilegu íslensku efnahagstjórn sé að taka upp einhliða einhvern gjaldmiðil sem er gjaldgengur í útlöndum. Einhvern veginn virðist skína í gegn að þeir séu í þeim pælingum að taka upp evru án þess að spyrja kóng né prest í Seðlabanka Evrópu. Þetta er þó svo vond hugmynd að maður gæti trúað því að þetta sé einhvers konar skemmdarstarfsemi til að koma í veg fyrir inngöngu Íslands í ESB í framtíðinni.

Þegar hefur verið gefið út af ESB að þeir vilji ekki einhliða upptöku Íslands á evrunni. Án góðs samstarfs við þann seðlabanka sem gefur út gjaldmiðilinn sem nota á þá er útilokað að það sé hægt með góðu móti að taka hann upp. Sjá nánar um þetta hér á vald.org.

Menn verða því að spá í aðra gjaldmiðla ef þessi redding eigi að skila einhverju öðru en auknum hörmungum. Samt finnst mér þó að kenna krónunni um allar ófarir Íslendinga og vilja losa sig við hana sem fyrst minna dálítið á mann sem fær hausverk og ætlar sér að lækna hann sem fyrst með fallexi. Þetta fall krónunnar er afleiðing slæmrar efnahagstjórnunar síðustu ára með slatta af heimsku og græðgi í bland. Fallið er einkenni sjúkdómsins en ekki orsök hans.

Taka verður á orsökunum en ekki sífellt að eltast við afleiðingarnar. Vandamálið á Íslandi er helst það að þessar orsakir eru enn við völd og kannast ekkert við að eitthvað slæmt geti verið þeim að kenna.

90 ár

Nú eru Íslendingar búnir að vera fullvalda í 90 ár og þrátt fyrir allt megum við vel við una. Jú, jú það er allt í botnlausu fokki í augnablikinu en svona þegar Ísland er borið saman við heiminn eins og hann leggur sig þá er þetta í sæmilegu gengi.

Annars flaug mér það í hug um daginn hvar Ísland eigi eftir að enda á þessum HDI lista Sameinuðu Þjóðanna eftir að bankahrunið og önnur hrun hafa verið færð þar til bókar. Man þegar að Geir Haarde vætti brækurnar á Alþingi yfir því að Ísland náði fyrsta sætinu af Noregi í fyrra. Sá listi var byggður á gögnum frá 2005 og næsti listi er væntanlegur á næsta ári og mun þá líklega byggjast á árinu 2007.

Árið 2007 var aðeins byrjað að halla undan fæti og líklega hefur Ísland þá færst úr fyrsta sæti. Svo er bara spurning hvar í ósköpunum gamla Frón endar þegar 2008 verður gert upp því að GDP í dollurum talið vegur 1/3 í skorinu. Ég giska á fall um 25 sæti, er það kannski full bjartsýnt?