Archive for nóvember, 2008

Engin krónufleyting?

Ég er hálf-svekktur yfir því að krónuræfillinn heima verður ekki settur á flot að fullu, að því að ég best skil. Þetta átti að redda efnahagnum hjá manni og sökkva skuldunum að mestu leyti. Jæja, sjáum hvað setur.

Nýtt lúkk

Síðan mín hefur litið svona út núna nákvæmlega í tvö ár og tvo daga. Mig er farið að langa til að breyta til og gera þetta meira mexíkanskt. Þessi mynd hér í hausnum er einum of kuldaleg og er í litlu samræmi við núverandi umhverfi mitt. En þar sem ég kemst sjaldan á netið þessa dagana þá verður líklega ekki bætt úr þessu fyrr en seint og um síðir.

Of langur tími

Svo virðist sem að nýjasta útspil ESB-andstæðinga sé að segja aðildarviðræður og upptaka evru taki of langan tíma og því megi ekkert vera að spá í svoleiðis rugl núna. Núna séu það skammtímalausnir sem þarf að einbeita sér að en að spá í lengri tíma en þetta kjörtímabil er þeim augljóslega ofviða.

Svo virðist sem að það eigi við um þessa menn sem sagt var um Gerald Ford á sínum tíma; að hann gæti ekki gengið og tuggið tyggjó á sama tíma.

Grýtið rétt hús

Mér finnst að eggjakastarar heima ættu að beina reiði sinni að Stjórnarráðinu, ekki Alþingishúsinu. Hvers eiga VG menn og Frjálslyndir að gjalda? Þeir vinna bara þarna en bera ósköp litla ábyrgð á ástandinu heima.

Stjórnarandstaðan á Íslandi er grútmáttlaust fyrirbæri enda er þingið jú einungis afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið sem er nánast almáttugt á skerinu. Stjórnarandstaðan hefur mikið vægi á hinum Norðurlöndunum þar sem er hefð fyrir minnihlutastjórnum og semja þarf um allt á þingi en á Íslandi er það sko hinn máttugi meirihluti sem fer með völdin og þingið stendur og situr eftir því sem ráðherrunum hentar.

Niðursveiflan heima hefur heldur betur afhjúpað veikleika þessa kerfis og sýnir í raun fram á hversu vanþróað stjórnmálin eru heima, nánast eins og í þriðja heims ríki. Hvaða brandari er það að fyrrum stjórnmálamenn fara á eftirlaun sem seðlabankastjórar eða sendiherrar, allt eftir þeirra hentugleika?

Hvað um það, mér finnst maklegra að þessi laugardagsmótmæli flytji sig yfir að Stjórnarráðinu þar sem hin raunverulegu völd á Íslandi eiga heima og fleygja nokkrum fúleggjum í hjónasæng íhaldsins og kratanna. Ekki eru allir á Alþingi skúrkar og eiga betra skilið.

Fjölskyldulífið

Ég er alls ekki hættur að blogga, hef bara ekki haft tíma til þess að undanförnu. Ef ég gæti þá myndi ég blogga daglega. Mér dettur ótal margt í hug á degi hverjum sem aldrei kemst á bloggið því ég er alltaf að stússast eitthvað.

Þessa dagana fer t.d. mikill tími í að sinna Bessa litla. Okkur Ara tókst að fá hann til að hlæja í fyrsta skiptið í dag með almennum fíflagangi, það var ósköp sætt. Ari er í strangri koppþjálfun um þessar mundir og vonir standa til að hægt verði að hætta með hann á bleyju í kringum tveggja ára afmælið í janúar. Mér finnst það reyndar frekar bjartsýnt en það verður mikill léttir ef það gengur upp.

Anel er farin að vinna á fullu á nýjan leik, byrjaði reyndar strax í byrjun mánaðarins einungis fjórum vikum eftir fæðingu Bessa. Konan mín er hörkutól, það er óhætt að segja.

Nýja læknamiðstöðin okkar opnaði svo fyrir um þremur vikum og einn nýr tannlæknastóll kominn á nýja staðinn. Annar stóll verður svo fluttur eftir u.þ.b. tvær vikur og svo er það spurning um þann þriðja hvenær honum verður komið fyrir. Geri nú ekki ráð fyrir því að það verði svo brjálað að gera hjá okkur strax að Anel þurfi þrjá stóla en hugmyndir eru uppi um að leigja þriðja stólinn einfaldlega út. Við sjáum til hvað verður úr þessu.

Annars er það þægileg tilfinning að hafa byrjað okkar eigin atvinnurekstur, mér finnst eins og við höfum skotið mjög gildri stoð undir framtíð okkar með þessu framtaki. Kaldhæðnislegt að sósíalistinn ég endaði í því að opna einkarekna læknamiðstöð, geri ekki ráð fyrir því að geta gengið í VG úr þessu.

Skopmynd ársins klárlega

Ég sé að Þórður hefur framkvæmt það sem ég ætlaði mér að gera við tækifæri, finna þessa kosingamynd af Hr. Haarde og hlægja svolítið að honum. Jæja, svona er að vera seinn og tímalaus.

Bloggið í rénum?

Einu sinni blogguðu nánast öll sem ég þekkti, sum meira en önnur. Þetta var trendið, öll þurftu að eiga blogg vildu þau teljast fólk með fólki. Nú er þessi tíska að mestu fyrir bí, að minnsta kosti hvað minn vinahóp snertir. Mjög margir virkir bloggarar virðast hafa yfirgefið bloggheima. Ég nenni ekki að telja þá alla upp, þeir eru einfaldlega of margir.

Á meðan þessi þróun hefur átt sér stað hafa öðruvísi blogg skotið upp kollinum, einhvers konar atvinnublogg. Líklega eru þar fremstir nú um stundir Silfur-Egill og Bingi sem nota bloggið sem einhvers konar viðbót við sjónvarpsþætti þeirra, ég spái því að fleiri svona blogg eigi eftir að skjóta upp kollinum líkt og hefur gerst erlendis.

Mér finnst þó skemmtilegra að lesa blogg fólks sem ég þekki heldur en atvinnumanna og álitsgjafa. Ég veit lítið hvað gengur á í lífi margra og önnur samskipti eins og MSN eru mér erfið á þessu tímabelti sem ég er staddur á. Einhvern veginn veit ég þó að þessir tímar þegar allir voru að blogga eiga ekki eftir að koma aftur, æðið er liðið hjá.

Ég gleðst þó ætíð yfir því að sjá einhver lífsmörk á gömlum bloggum sbr. þetta eða þetta og vona að lifni yfir aðeins fleiri bloggsíðum svo maður hafi eitthvað til að skoða á síðkvöldum hér í Mexíkó.

Bessi Sær

Við hjónin höfum komist að þeirri niðurstöðu að yngri sonurinn skuli heita Bessi Sær. Að finna nafn á strákinn hefur líklega tekið okkur lengur en hálft ár því það er ekki einfalt að finna nafn sem gengur upp á spænsku og íslensku. Nóg er reyndar til af biblíunöfnum en hvorugt okkar er hrifið af þeim.

Bessi Sær ætlar sér ekki að vera lengi lítill. Hann fór í mánaðarskoðun á laugardaginn og var kominn upp í heil sex kíló sem þykir nokkuð gott. Enda hefur hann sig allan við að drekka og sofa.

Ég er að skrifa þetta í Makkanum og hann hefur ákveðið að rugla íslensku stöfunum, laga það seinna við tækifæri.

Vinnur minn maður?

Nú á víst að kjósa í Bandaríkjunum og ég held að sjálfsögðu með blámanninum Obama þar. Ef hann vinnur þá verður það í fyrsta skiptið í langan tíma sem mínir menn í pólitík vinna eitthvað. Yfirleitt er ég í einhverjum bölvuðum minnihlutahópum í flestum pólitískum málum og mínir menn vinna hreinlega aldrei neinar kosningar. Ég vona að Obama eigi eftir að breyta þessu eitthvað síðar í dag.