Archive for október, 2008

Stefnubreyting nauðsynleg hjá VG

Og fyrst við erum að tala um VG þá vil ég sjá þann ágæta flokk láta af allri andstöðu við ESB aðild, annars get ég ekki lofað þeim atkvæði mínu í næstu kosningum. Hér áður fyrr var ég Evrópusinnaður vegna þess að ég taldi það gera gott betra að Ísland væri í þeim góða félagsskap, ekki vegna þess að nein nauðsyn væri á því að ganga í klúbbinn. Eftir að efnahagur Íslands og gjaldmiðill hefur bókstaflega hrunið á síðustu misserum þá er þetta ekki orðin nein spurning um að bæta stöðuna heldur erum við að tala um hálfgert neyðarúrræði.

Ég var aldrei einn af þeim sem kölluðu krónuna ónýtan gjaldmiðil og taldi án vafa hægt að halda henni úti til frambúðar án vandræða, rétt eins og tíðkast hafði. Nú hef ég þó skipt um skoðun því eftir að ýmsir fjárglæframenn hafa hreinlega rústað trúverðugleika hennar og stöðu þá er varla hægt að sjá hana sem nothæfan gjaldmiðil lengur. Menn eru nú að spá henni niður í áður óþekktar lægðir þegar að gengið verður sett á flot aftur.

Næstu kosningar, hvenær sem þær verða, munu að mínu mati snúast mikið til um Evrópumálin. Þau eru orðin það mikilvæg núna. Áframhaldandi kreddufull andstaða gegn ESB mun kosta VG mitt atkvæði og ég tel líklegt að svo eigi við um fleiri kjósendur.

Til hamingju Steinunn!

Ég má til með að senda hinum nýkjörna formanni UVG hamingjuóskir og lýsa jafnframt ánægju minni með að embættið skuli haldast innan Kommúnunnar.

Þakkir

Ég þakka fyrir allar kveðjurnar sem okkur hafa borist vegna fæðingu Bessa. Gaman að vita að menn muna enn eftir manni þótt í útlöndum búi.

Netskortur á hinum áhugaverðum tímum

Síðustu vikur hafa verið afar áhugaverðar, sérstaklega fyrir fígúrur eins og mig sem hafa áhuga á pólitík og framþróuninni í heiminum. En því miður hefur þetta mikið til farið fram hjá mér. Ég hef einungis stöku sinnum komist á netið undanfarnar vikur og þá reynt að ná inn sem mestum upplýsingum eins og hægt er en það er öðruvísi en að fylgjast með fréttunum frá degi til dags.

Nú erum við komin aftur heim í Mexíkóborg og vonandi gefst mér aðeins meiri tími núna til að fylgjast með en ég er ekkert alltof bjartsýnn því að við hjónin erum uppteknasta fólk sem ég þekki, jafnvel áður en Bessi fæddist. Ég er t.d. hálfpartinn að stelast á netið, ég þyrfti að gera svo margt annað núna.

Annars var Bessi bólusettur gegn berklum í dag sem honum líkaði afar illa. Líklega er þetta versti dagurinn á hans stuttu ævi sem segir kannski ekki mikið þegar maður er tólf daga gamall.

Þangað til næst, hafið það sæmilegt.

Myndir á Facebook

Þeir sem eru svo vel félagslega settir að vera félagar mínir á Facebook geta nú séð nokkrar myndir af Bessa þar. Myndir verða einnig settar á hina opinberu myndasíðu (sem hægt er að sjá með því að smella á „myndir“ hér að ofan) þegar tækifæri gefst. Miðað við að ég var að klára fyrst í fyrradag að fara í gegnum myndasafnið úr sumarleyfinu og taka þær út sem eiga að enda á netinu þá þori ég ekki að lofa neinu um afköst í þeim efnum.

Mig langar svolítið að tjá mig um niðursveifluna heima en ég nenni eiginlega ekki að bæta meiri texta í það hálslón sem myndast hefur í blogglandi um það fyrirbæri.

Síðustu nótt dreymdi mig að Sverrir væri kominn til Mexíkó og hann var ánægður með að pizzur með lakkrís kostuðu hér aðeins fimmtán pesóa. Rétt er að taka fram að lakkrís er óþekkt góðgæti hér í landi, hvað þá þar til gerðar lakkríspizzur, svo ég veit ekki alveg hvernig túlka skal þennan draum.

Annars erum við alveg eldhress, öll fjögur.

Bessi

Sökum netskorts og tímaleysis hefur það dregist fram úr hófi að tilkynna fæðingu sonar okkar sem kom í heiminn fyrir viku síðan, þann áttunda október. Honum og Anel heilsast mjög vel og allt gekk þetta eins og í sögu. Við forum aftur á spítalann sem Ari fæddist á sem er staðsettur í bænum Cuautla í Morelos ríki. Frændi okkar þar er læknir og hann sá um allt við fæðinguna ásamt sínu teymi sem var eins skipað og þegar Ari kom í heiminn, en þetta var einnig keisaraskurður.

Drengurinn hefur fengið nafnið Bessi en seinna nafnið er enn á huldu. Þetta er heljar hlunkur, 4,3 kíló og 56 cm mældist hann við fæðingu. Svona stór börn eru sjaldséð hér í Cuautla. Frændi okkar sem tók á móti honum hefur ekki séð stærra barn hér og reyndar aðeins einu sinni tekið á móti stærra barni á sínum starfsferli.

Bessi líkist einna helst bróðir sínum, skiljanlega, og þar á eftir finnst mér hann einna líkastur afa sínum á Íslandi en svipurinn er mjög sterkur. Hann virðist ætla að verða ljóshærður og bláeygður sem þykir mikið undur hér um slóðir. Svo sjaldgæft er það að við fengum sérstaka heimsókn daginn eftir að hann kom í heiminn frá einhverjum yfirmönnum á spítalanum en spurst hafði út að ljóshært barn hafði fæðst þar.

Við verðum hér í Cuautla í góðu yfirlæti í einhverja daga í viðbót en höldum svo heim á leið fljótlega, líklega á sunnudaginn.

Andleg tengsl við íslenska niðursveiflu

Rétt eins og íslenskt efnahagslíf þá siglum við hjónin í gegnum okkar erfiðasta tímabil fjárhagslega hingað til. Munurinn á okkur og ástandinu uppi á Fróni er þó mikill, við höfum verið að leggja nánast allt okkar fé í traustan rekstur (að ég vona). Það getur nú varla farið mjög illa þegar maður leggur pening í læknamiðstöð og tannlæknastofur, þá eru allar fjárfestingar vondar ef svo er. Íslendingar hafa hinsvegar offjárfest í alltof dýrum bílum, ofmetnu húsnæði og útúrbólgnum hlutabréfum. Þegar loftið sígur úr þessu stendur lítið eftir.

Einhverjir bloggarar kvarta yfir því að kommarnir séu í einhverri Þórðargleði þessa dagana yfir því að hafa haft rétt fyrir sér um hina dimmu hlið kapítalismans. Ég hef ekki rekist á þetta kátu komma sjálfur og þætti vænt um hlekki á þá. Staðreyndin er sú að það er ekkert gaman að spá óförum og hafa svo rétt fyrir sér, það er frekar þreytandi og svekkjandi til lengdar.

Einnig munar því á okkar niðursveiflu og þeirri íslensku að við sjáum fyrir endann á okkar vandræðum strax í þessum mánuði. Eftir þessar hamfarir heima þá er erfitt að sjá nokkra glætu fyrr en að löngum tíma liðnum. Margumræddar greiningardeildir bankanna eru þegar farnar að binda vonir við að 2010 verði nú gott ár, ég held að það sé full mikil bjartsýni.

Ég er eiginlega dauðfeginn að vera fjarri Rokurlandi þessa dagana.

Annars opnar nýja stofan vonandi í næstu viku, mér skilst að mesta pappírsvinnan sé að baki og hægt er að fara græða loksins eitthvað á þessu stússi. Ég lofa að senda peninga heim ef reksturinn gengur vel. „Íslendingar háðir neyðaraðstoð frá Mexíkó“ verður fjármálafrétt ársins 2009.

Nei, það er ljótt að grínast með svona grafalvarlega hluti, sorrí.