Archive for september, 2008

Fimm dagar án Netsins

Tók augun af Netinu í fimm daga og allt fer í tóma vitleysu heima. Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin glyrnum þegar ég renndi yfir fréttir síðustu daga. Glitnir ríkisvæddur eða var þetta bankarán eins og Jón Ásgeir kallar það? Krónan og hlutabréfamarkaðurinn hrunin niður fyrir öll velsæmismörk. Rifjast upp fyrir manni þegar Gulli hélt upp á jólin þegar evran fór í 118 krónur, ég veit ekki hvað hann gerir nú af sér með evruna í 149 krónum.

Annars afhjúpar atburðarás síðustu daga eðli auðvaldsins. Þegar eitthvað bjátar á þá er seilst í vasa skattgreiðenda og þeir látnir borga brúsann meðan að svínin halda áfram að drekka mjólkina í þágu allra á búgarðinum. Fréttir frá Bandaríkjunum undanfarna daga sýnir þetta hvað skýrast.

Ef þetta krónuhrun heldur svona áfram þá styttist nú í það að við höfum efni á fasteignakaupum á skerinu. Spurning samt hvort að það sé þess virði að flytja heim meðan að ástandið er svona.

Fyndið

Þetta fyndið, þið smella.

Gróðrarstía öfgatrúar

Einhverjir halda því fram að moskur séu gróðrarstíur fyrir öfgatrú og því sé rétt að leyfa ekki slíkar byggingar á Íslandi. Til að allrar sanngirni sé gætt þá legg ég til að Moggabloggið verði einnig sett í bann.

Bíóblogg

Í gær gerðumst við hjónin menningarleg og fórum á norræna kvikmyndahátíð. Þarna voru mættir sendiherrar Finnlands, Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar. Hér vantar sárlega íslenskan sendiherra og ég vil nota tækifærið til að bjóða mig fram í starfið.

Eftir ræðu frá norska sendiherranum hófst undurfurðuleg stuttmynd sem ég held að hafi verið norsk og svo var opnunarmyndin sýnd, Den Brysomme Mannen frá Noregi. Reyndar hefst myndin á hálendinu á Íslandi þar sem rúta frá Sæmundi spilar stórt hlutverk. Frá íslensku hálendi keyrir aðalsögupersónan til Noregs þar sem undarlegir atburðir gerast.

Verð að viðurkenna að það var hressandi að sjá eitthvað annað en hollívúdd mynd þar sem maður veit nánast hvað á eftir að gerast eftir fyrstu mínúturnar. En þessi mynd var heldur súr fyrir minn smekk en nokkuð góð engu að síður.

- – - – -

Betri en sú síðasta sem við fórum á, Journey to the Center of the Earth. Að vísu var gaman að sjá dálítið af Íslandi í þrívídd en myndin er svo léleg að ég hef sjaldan séð annað eins í bíó. Sem betur fer kostar miðinn hér einungis um 300 krónur, vorkenni þeim sem eyða þrefaldri þessari upphæð á Klakanum.

Hvað var með þessa stúlku; Hannah Ásgeirsson? Gat Anita ekki sagt leikstjóranum frá íslenskri nafnahefð? Og hvað var með þetta hús sem hún bjó í? Ég hef aldrei séð svona mikið hreysi á Íslandi og er þó úr sveit. Og hvar var frikkin Snæfellsjökull? Afhverju var verið að taka upp á Íslandi ef jöklinum var svo algjörlega sleppt? Meira bullið.

- – - – -

Þar áður fórum við í bíó á Íslandi og sáum eina þá skemmtilegustu mynd sem ég hef séð lengi, The Dark Knight. Mikið var ég ánægður með þá mynd og langar í raun til að sjá hana aftur. Eftir að hafa séð nýju Batman myndirnar verða þær gömlu svo hallærislegar að þær lenda á bekk með gömlu sjónvarpsþáttunum. Sérstaklega ruslið sem Joel Schumacher gerði, það voru svo sannarlega vondar vondar bíómyndir.

Heath Ledger fær örugglega óskar fyrir þetta, sjaldan sem ég hef séð leikara fara svona algjörlega á kostum. Jókerinn verður eitt mesta illmenni kvikmyndasögunnar í hans túlkun. Reyndar eru allir leikararnir góðir í þessari mynd. Fregnir herma svo að Mörgæsin og Gátumaðurinn eiga eftir að mæta til leiks í þeirri næstu. Ég vona innilega að sagan á bakvið Mörgæsina verði eitthvað endurskoðuð frá Batman Returns, gengur eiginlega ekki að hafa mann sem er alinn upp af mörgæsahóp í þessum nýju myndum.

Sagan á bak við Gátumanninn verður þó einföld í nútíma samfélagi. Ég sting upp á að hann verði maður sem tekur þátt í raunveruleikasjónvarpi þar sem leysa á ýmsar þrautir, klikkar á lokaþrautinni og vinnur ekki milljón dollara. Verður eftir það með mikla þráhyggju fyrir gátum og byrjar á endanum að drepa framleiðendur þessara þátta. Áhorfendur eiga eftir að halda stíft með honum, jafnvel meir en Blaka sjálfum. Hver vill ekki fækka framleiðendum reality tv?

¡Viva Mexico!

Þjóðhátíðardagurinn hér í Mexíkó, Dia de la Independencia, er svo sannarlega tekinn alvarlega. Í raun eru þetta tveir dagar, 15. og 16. september. Í gærkvöldi fórum við á mannfagnað við Coyoacán torg þar sem ógurleg stuðhljómsveit spilaði þangað til klukkan var næstum orðin ellefu. Þá hófst mikil seremónía í einni byggingunni þar sem yfirmaður Coyoacán-hverfis tók við mexíkanska fánanum frá hópi knárra kvenna sem virtust koma frá hernum ef marka mátti taktfastan fótaburð þeirra. Hægt var að fylgjast með þessari athöfn á risaskjám sem hafði verið komið fyrir við torgið.

Klukkan ellefu kom svo yfirmaðurinn út á svalir við torgið, hringdi bjöllu sem minnti helst á kirkjuklukku og sveiflaði fánanum yfir mannfjöldanum. Tók svo til við að hrópa slagorð eins og „Lifi sjálfstæðið“, „Lifi frelsið“ og nöfn byltingarmanna frá frelsisstríðinu gegn Spáni voru einnig kölluð og svo endað á „Lifi Mexíkó“ þrisvar sinnum. Fólkið tók undir með þessu öllu með því að hrópa ¡Viva! eftir hverja upphrópun.

Svona fer þetta víst fram með svipuðu sniði um borgina alla og landið. Þessi athöfn er í minningu „Herópsins frá Dolores“ eða Grito de Dolores sem markaði upphaf sjálfstæðisbaráttu Mexíkó. Klerkurinn Miguel Hidalgo hringdi þá að sögn kirkjuklukkum að morgni dags þann 16. september 1810 og hvatti fólkið til uppreisnar gegn spænskum kúgurum.

Í dag var svo gríðarleg herskrúðganga á aðaltorginu Zócalo þar sem mátti sjá ótrúlegan fjölda hermanna auk mikils úrvals ýmissa drápstóla. Mér finnst slíkar göngur reyndar alltaf frekar óhuggulegar og lítið varið í þær í sjálfu sér. Forsetinn Calderón var þar úti á svölum og þegar hermennirnir marseruðu fram hjá honum litu þeir til hans eitt augnablik í virðingarskyni. Ég hugsaði þá með sjálfum mér hversu Íslendingar eru lánsamir að eiga ekki her, þetta er einfaldlega of hallærislegt einhvern veginn.

Mexíkó umturnast

September er sérstakur mánuður hér í Mexíkó því þann 15. er þjóðhátíðardagur þeirra haldinn hátíðlegur. Hér er því allt mjög þjóðlegt um þessar stundir, fáninn er bókstaflega allstaðar og fólk er klætt í hina ýmsu þjóðbúninga. Þrátt fyrir allt eru Mexíkanar mjög stoltir af landinu sínu og þessa dagana fá þeir góða útrás fyrir það.

Árið 1810 að morgni dags þann 16. september hófst frelsisbarátta Mexíkó fyrir sjálfstæði frá Spáni og því styttist í 200 ára stórafmælið hér. Baráttan tók 11 ár en hafðist af fyrir rest.

Árið 1910 hófst Mexíkanska Byltingin þar sem þekkir byltingarmenn á borð við Pancho Villa og Emiliano Zapata voru í aðalhlutverkum. Ástandið hér í landi fær mann til að velta því fyrir sér hvort að ný bylting sé á leiðinni 2010, svona til að halda í hefðina.

Lengri sólarhring takk

Mikið væri gott ef hægt væri að lengja sólarhringinn aðeins svo ég gæti kannski bloggað og gert annað óvitrænt af og til.

Góðu ævistarfi lokið

Sigurbjörn Einarson var góður biskup í þeim skilningi að hann leiddi fjölmörgum það fyrir sjónir að þeir eiga enga samleið með kristinni trú né ríkiskirkjunni. Sonur hans og arftaki á biskupstól virðist ætla að halda minningu föðurs síns á lofti með verkum sínum. Saman hafa þeir feðgar flýtt fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju hraðar en nokkur annar maður. Fyrir þetta eitt er rétt að minnast fyrrverandi biskups með hlýhug.

Upptekinn

Þeir sem hafa áhyggjur af því að ég sitji heima í volæði og éti nachos gónandi á mexíkóskar sápuóperur geta hætt því strax. Við höfum haft svo mikið að gera undanfarið að ég get ekki einu sinni bloggað eins og alvöru iðjuleysingi. Annars er svosem lítið að frétta, nýi bisnessinn er að komast á skrið og annar er á hugmyndastiginu en það kemur allt betur í ljós síðar.

Ég er að fara á nokkurs konar framadaga í næstu viku í háskólanum til að redda einhverri atvinnu. Þá verða nú jakkafötin dregin fram og CV-ið prentað út í lit. Hér munu tíðkast breiðu spjótin þangað til að ég fæ eitthvað arðbært að gera.