Archive for ágúst, 2008

Tvö gull, eitt brons

Mexíkó nældi sér í tvenn gullverðlaun og eitt brons á Ólympíuleikunum. Bæði gullin komu fyrir afbragðs sparktakta í taekwondo en Mexíkó mun vera eitt fremsta landið í þeirri bardagalist. Bronsið fékkst svo fyrir dýfingar af 10 m palli.

Ég gleðst að sjálfsögðu yfir silfurverðlaunum Íslendinga í handbolta eins og aðrir. Megi þau verða fleiri í framtíðinni í öllum greinum auk hinna málmanna líka.

Þegar bankarnir voru settir í einkarekstur

Alltaf kemur betur í ljós að bankarnir voru aldrei einkavæddir á sinum tíma heldur eingöngu settir í einkarekstur. Nýju „eigendurnir“ fengu að hirða ágóðann meðan vel áraði og eyddu honum í alls kyns vitleysu eins og allir muna eftir. Svo þegar haustar á alþjóðlegum fjármálamarkaði þá er það skyndilega ábyrgð ríkisins að taka risalán til að bjarga hlutunum, allt að sjálfsögðu á kostnað skattgreiðanda.

Illa rekin fyrirtæki eiga ekkert annað skilið en að fara þráðbeint á hausinn. Hvað í ósköpunum kemur það ríkinu við hvort að bankarnir standi illa eða ekki? Er ekki hægt að skera endanlega á bönd ríkisins og bankanna? Hvað á þetta að halda lengi svona áfram? 10 ár? 30 ár?

Hvað varð svo um þessa dularfullu krafta sem voru leystir úr læðingi með meintri einkavæðingu? Menn voru á tímabili óþreytandi að minnast á þessa krafta sem streymdu frá nýeinkavæddum bönkunum og trúðu á þá eins og nýaldarnöttarar á orkuflæðið úr Snæfellsjökli. Kláruðust kraftarnir eða eru þeir bara til þegar nóg framboð er af ódýru lánsfé á alþjóðamörkuðum?

Risinn kvaddur

Fór í gær í kveðjupartý hjá Ragga risa og hérlendri eiginkonu hans Carmen en þau munu víst flytja til Borgarness á sunnudaginn. Þar fengum við m.a. að horfa á upptökur af brúðkaupinu sem fór fram að hætti kaþólskra og veisluna sem fylgdi í kjölfarið. Óhætt er að segja að þetta hafi allt verið mjög ekta. „My big fat mexican wedding“ verður örugglega vinsæl á klakanum þetta haustið.

Ég óska þeim velfarnaðar í framtíðinni með sitt og sína.

Atvinnuleit

Æ, nennir ekki einhver að láta mig fá eitthvað að gera sem ég get sinnt í gegnum netið. Ég er ekkert að fyllast svartsýni, það væri einfaldlega hagstæðara að vera á íslenskum launum heldur en mexíkóskum hér í landi.

Heima

Fyrst að búið er að borga CableVision reikninginn hef ég nú fengið aftur nettenginguna mína og þessa hálfu skrilljón sjónvarpsstöðva sem ég horfi nú lítið á. Von er á því að eitthvað eigi eftir að lifna yfir þessu bloggi sem hefur legið í hitamóki í sumar.

Við erum semsagt komin heim til Mexíkó eftir sumarfrí sem hófst 20. júní þegar foreldrar mínir og systkini komu hingað til lands. Við náðum að gera eitthvað skemmtilegt með þeim, m.a. ferð í póstkortsparadísina Cancún við karabíska hafið. Frá Mexíkó var farið 1. júlí til New York og stoppað þar í tvær nætur áður en haldið var heim á leið til Íslands.

Á Íslandi voru lítil afrek unnin enda Anel kasólétt og leiðinlegt að drösla Ara greyinu út um allar trissur, eins smár og hann er. En við náðum að eyða ágætum tíma með ættingjum og vinum sem er jú mikilvægast fyrir fólk búsett í útlöndum. Af þeim tíma sem við vorum á skerinu var rúmum helming eytt í gamla sveitarfélaginu Kolbeinsstaðahreppi sem heitir eitthvað allt annað í dag, en þar búa foreldrar mínir fyrir þá sem ekki og ekkert vita. Það sem eftir stóð var eytt í borg óttans þar sem Stína systir skaut yfir okkur skjólshúsi.

Þann 8. ágúst flugum við til Toronto og vorum þar í fimm nætur. Toronto kom nokkuð á óvart, mjög skemmtileg borg og fólkið svo indælt að maður gæti hreinlega fengið klígju. Þar fórum við m.a. upp í CN turninn sem einu sinni var hæsta mannvirki heims og skoðuðum hina rómuðu Niagra fossa sem eru hreint út sagt dásamlegir. Þegar maður eins og ég tekur sér orðið „dásamlegur“ í munn þá er nú eitthvað mikið á ferðinni.

Heimkoma til Mexíkóborgar var svo 13. ágúst og gekk það allt vel eftir að frændinn sem sótti okkur uppgötvaði að á flugvellinum eru tvö terminöl (hvað heitir þetta á íslensku?) og að okkar flug var ekki á því sem hann hafði beðið óþreyjufullur á.

Margt hefur gerst hér í millitíðinni, það helsta er að búið er að gera klárt í nýju læknamiðstöðinni og ekkert því til fyrirstöðu að flytja inn tannlæknagræjur og hefja leik. Ný gólfefni, búið að mála, nýjar hurðir, búið að setja upp biðstofu og vantar bara tvo plasmaskjái sem eru víst væntanlegir. Það var notalegt að sjá þetta allt búið og gert, æskudraumar mínir um pelsa og hoppandi glæsikerrur hafa sjaldan verið jafn nálægt manni.

Nú er næst á dagskráinni að finna atvinnu við hæfi hér í stórborginni og ég er nokkuð bjartsýnn á að það hafist af enda nóg af tækifærum í svona ofvöxnum stað. Einnig langar mig mikið til að strauja harða diskinn á tölvunni minni sem aldrei hefur verið gert síðan fest voru kaup á gripnum sumarið 2005. Enda er hún orðin hægfara eins og aldurhnigið letidýr með lömunarveiki og full af alls kyns óáran sem ég ber enga ábyrgð á.

Gaman að geta bloggað aftur, neita því ekki.

Toronto

Er ekki um að gera að blogga frá Kanada fyrst maður getur? Við lentum ekki í bombunni hér í gær ef menn höfðu áhyggjur af því. Skrifa meira við tækifæri.