Archive for júlí, 2008

Sumar

ariuti.jpg

Íslendingar

Nú þegar maður er orðinn hálfgerður útlendingur þá sé ég Íslendinga í allt öðru ljósi, bæði kosti þeirra og galla. Þótt Íslendingar séu ekki mjög einsleitur hópur þá er allavega hægt að alhæfa örlítið um meirihluta þeirra.

Framkoma Íslendinga er nokkuð sérstök, flestir eru mjög blátt áfram og ekki þvingaðir af kurteisisvenjum. Ég bý í landi þar sem ég er þéraður hægri vinstri og kallaður herra ef svo ber undir. Hinn dæmigerði Íslendingur þérar að sjálfsögðu ekki nokkurn mann og titillinn herra er ekki notaður nema þá helst til gamans og á stundum fyrir forsetann og biskupinn. Ég held að þessi framkoma gæti verið misskilin í útlöndum og jafnvel talin vera dónaleg, ég fæ stundum einmitt það á tilfinninguna hér heima þótt ég viti að fólk sé ekki viljandi ókurteist.

Sláandi munur er á framkomu afgreiðslufólks í búðum hér heima og þar sem ég þekki til. Senda mætti mikið af þessari stétt hér á Íslandi á námskeið þar sem grundvallaratriði í mannlegum samskiptum eru tekin fyrir. Ég geri mér grein fyrir því t.d. að vinna á kassa í Bónus er ekki draumastarf margra en þó þarf það ekki að bitna á viðskiptavinunum. Þetta er þó kannski skiljanlegt að einhverju leiti þar sem hlutmengi í menginu Íslendingar virðast telja afgreiðslufólk einhvers konar óvini sína og nýta hvert tækifæri til að skattyrða þá og hæða. Þar held ég að gamalt fólk sé almennt verra enda tuðar það sér til tómstunda eða svo virðist manni allavega.

Íslendingar eru ekki brosmild þjóð eða kannski versnaði þetta þegar að niðursveiflan skall á ströndum íslensks efnahagslífs. Fólk virðist þjást af almennum leiðindum eða kannski eru þetta aðeins áhyggjur af nýju fínu íbúðinni sem lækkar í verði með hverjum mánuðinum meðan að lánin af henni hækka. Hver veit.

Annars eru Íslendingar fínir, með skemmtilegan húmor og kunna að svara fyrir sig. Kannski kann ég vel við þennan húmor af því að ég hef hann sjálfur en það skiptir ekki öllu máli. Íslendingar eru afar dugleg þjóð sem sést kannski best á höfuðborgarsvæðinu þar sem byggingarkranar eru enn fyrirferðarmiklir og verið er að taka í gegn fjórðu hverju götu. Framkvæmdagleðin er kannski það sem liggur að baki þessum núverandi efnahagsvandræðum en fjárfesting í steinsteypu og malbiki er alltaf góð. Húsin sjálf hrynja ekki til grunna þótt að verðmæti þeirra gerir það.

Flipp ríka mannsins

Ríki maðurinn á Íslandi fór alltaf í 10-11 þegar hann vildi flippa og keypti sér þá kjúklingabringur og Ben & Jerry’s ís.

Reykjavík

Núna erum við stödd í borg óttans eftir að hafa verið í sveitinni frá 4. júlí. Vonumst eftir að hitta eitthvað af góðu fólki meðan við erum hér. Mamma lánaði mér símann sinn sem er víst 849-5625. Mér skilst að hann tapi allri rafhleðslu ef talað er lengur en 30 sekúndur þannig að þeir sem hringja verða að velja orð sín af kostgæfni.