Archive for júní, 2008

Á ferð og flugi

Komum í gær frá Cancun, förum eldsnemma þann 1. júlí til New York. Ég held að fjölskyldunni finnist gaman að vera hérna þótt að menningarsjokkið sé töluvert. Hef engan tíma í bloggþrugl í bili, sjáumst á Íslandi í júlí.

Takið af ykkur skóna

Hef verið að þrífa heimilið í dag því fjölskyldan lendir víst hér í Mexíkóborg annað kvöld. Tekur oft á að skúra því í Mexíkó fer fólk yfirleitt ekki úr skónum innandyra. Hjá okkur er það þó regla sem tekin var upp þegar ég fluttist hingað. Ég fór reyndar ekki fram á það en tengdamamma er svo hrifin af þessum sið að hún vildi hafa þetta eins og á Norðurlöndunum.

Mér finnst þetta alltaf ákveðið merki um hversu langt siðmenning viðkomandi lands hefur þróast. Ég veit að þetta er siður á Norðurlöndunum en strax þegar komið er til Bretlands eða Þýskalands þá vaða allir inn og út á skónum. Reyndar veit ég ekki hvort að fleiri Evrópulönd hafa þennan sið að fara úr skónum innandyra.

Ég veit að þetta er einnig svona í SA-Asíu, allavega í Tælandi, Japan og Kóreu, þ.e. að fara úr skónum innandyra. Félagar mínir í spænskuskólanum voru hálf-undrandi þegar ég sagði þeim af þessu, þ.e. þeir frá þessum löndum því þeir höfðu ekki heyrt um önnur svæði í heiminum þar sem þetta tíðkaðist. Ég veit einnig að í Kenýa og Tanzaníu vaða menn inn og út á skónum, nema kannski þegar múslimarnir fara í moskurnar.

Sjálfum finnst mér það vera frekar ógeðfellt að vera í sömu skónum allan daginn, vaðandi rykið og hundaskítinn á götunum og fara svo á þeim inn í hús. Velti því fyrir mér hvort að fleiri lönd hafa náð svona langt í siðmenningunni eins og Norðurlandabúar og SA-Asía.

Er ESB lýðræðislegt?

Fyrst að atkvæði um 860 þúsund Íra dugðu til að fella Lissabon-sáttmálann, sem hefði haft áhrif á líf 500 milljóna Evrópusambandsbúa, er þá ESB ekki lýðræðislegt? Ef marka má fagnaðarlæti þeirra sem vilja ESB feigt og kvarta sáran yfir lýðræðishallanum þar þá hefur aldeilis verið bætt úr því vandamáli.

Eða hvað?

Þannig er nú það

Sumir ofurbloggarar biðjast nánast afsökunar ef þeir blogga ekki í tvo daga samfleytt. Ég mun ekki afsaka hálfsmánaðar brotthvarf úr bloggheimum, bloggið mitt er mest fyrir sjálfan mig og ég mun ekki biðja sjálfan mig afsökunar á ritstíflum.

Ótal margt hefur gerst í millitíðinni, m.a. þetta:

 • Tengdamamma gifti sig aftur
 • Ég ákvað að salta doktorsnámið í bili
 • Hætti í vinnunni og er að leita að nýrri
 • Anel var boðið að leika í sjónvarpsauglýsingu fyrir almannatryggingarnar hér í Mexíkó en þurfti að afþakka þar sem við verðum í Cancun þegar tökur fara fram
 • Líklega hefði Ari fengið hlutverk líka
 • Silja kom til Mexíkó og á einhvern ótrúlegan hátt mistókst mér að sækja hana á flugvöllinn og þar af leiðandi hittumst við aldrei (löng saga)
 • Skrifað var undir samninga um leigu og stofnun eignarhaldsfélags um rekstur á nýrri læknamiðstöð í World Trade Center þar sem Anel er ritari félagsins og einn af átta stofnendum
 • Daglega keyri ég framhjá stórum hóp af nöktu fólki sem stígur trylltan mótmæladans vegna hækkandi matarverðs
 • Sumarið er komið í Mexíkó sem þýðir að nú er svalara í veðri og það rignir daglega síðdegis
 • Var notaður sem tilraunadýr konunnar fyrir nýja aðferð sem gerir tennur manna hvítari en nýfallinn snjó á jökli á sólríkum degi, ég þori varla að opna munninn eftir þetta
 • Ari lærði að segja „datt“ hátt og skýrt

Og margt fleira sem ég man ekki eftir.

Foreldrar mínir og systkini koma svo hingað á föstudaginn og við förum saman til New York 1. júlí og áfram til Íslands þann 3. júlí, lendum að morgni hins 4. á Keflavíkurflugvelli. Vonast til að hitta sem flesta í sumar.

Stoltur eiginmaður

Ég er mjög stoltur af konunni eins og fyrri daginn. Um síðustu helgi tók hún þátt í ráðstefnu eða vörukynningu fyrir börn og verðandi mæður í World Trade Center. Þetta fór fram úr björtustu vonum, um 270 börn komu í básinn hennar á þessum fjórum dögum til að fá ókeypis skoðun og óheyrilegur fjöldi nafnspjalda og bæklinga runnu út. Sjálfur var ég að gefa bæklinga og rifjaði það upp að ég hef ekki gert neitt þessu líkt síðan ég og Sverrir dreifðum áróðri gegn Íraksstríðinu fyrir röskum fimm árum síðan.

Síðan ætlum við að opna nýja stofu í World Trade Center sem verður í anddyri þeirrar ofvöxnu byggingar. Þar stika hundruðir manna, ef ekki yfir þúsund, framhjá daglega og við gerum okkur vonir um að einhverjir slysist þar inn. Sú stofa verður hluti af stærri læknamiðstöð og það verða víst einhverjir samningar undirritaðir í þessari viku eða þeirri næstu um leigu á húsnæðinu og fyrirkomulag á rekstrinum.

Mitt framlag í þessu hefur verið að útvega lánsfé frá Íslandi því það er ótrúlegt hvað peningarnir nýtast vel hérna. Nokkrir hundraðþúsund kallar duga hér til að búa til þokkalega stöndugt fyrirtæki sem á vonandi eftir að gefa vel af sér. Er reyndar þegar farið að hala ágætlega inn þótt við verðum ekki rík á næstunni en hver veit hvað gerist í framtíðinni. Við höfum þegar ráðið frænku Anelar sem tannlækni, aðra frænku sem er í námi sem aðstoðarmanneskju og eina til í hlutastarf sem er sérmenntaður barnatannlæknir. Einnig ætlum við að stofna heildsölu með tannlæknavarning þegar flutt verður inn í nýju læknamiðstöðina.

Mér hefur flogið það í hug hvort að einhver grundvöllur væri fyrir pakkaferðum til Mexíkó fyrir Íslendinga þar sem þeir gætu flogið út, fengið alla þá tannlæknaþjónustu sem þeir þyrftu á að halda og færu svo á ströndina að því loknu? Mér skilst að í nýju læknamiðstöðinni verði að auki boðið upp á laser-aðgerðir á auga og kostnaðurinn hér er að mig minnir 1/4 af því sem slíkar aðgerðir kosta heima. Sparnaðurinn væri því nægilegur til að standa undir flugmiðanum til Mexíkó.

Þetta er pæling.