Bisnessinn og mexíkanskir tónar

Ég er eiginlega strax farinn að bíða eftir sumarfríinu, hef haft meira en nóg að gera undanfarið og það virðist bara eiga eftir að aukast. Konan mín er orðin svo djúpt sokkin í bisnessinn að við verðum með okkar eigin bás á ráðstefnu hér í bæ frá fimmtudegi til sunnudags. Hef víst látið plata mig út í að vera á staðnum í jakkafötum og dreifa bæklingum. Hvað gerir maður ekki fyrir arðsemi tannlæknastofu konunnar?

Ráðstefnan snýst um börn og verðandi mæður og þangað koma ýmsir framleiðendur með sínar vörur og kynna. Að meðaltali fá svona ráðstefnur um 65 þúsund gesti og við erum eina tannlæknastofan á svæðinu þannig að við gerum okkur vonir um að geta bætt ríflega við kúnnahópinn. En undirbúningur fyrir kynningu af þessari stærðargráðu er töluverður og því erum við frekar lúin þessa dagana.

Þetta kemur á sama tíma og ég er í hraðferð í þriðja spænskuáfanga mínum í CEPE. Hraðferðin þýðir að ég læri spænsku sex tíma á dag frá 9-3 og þarf svo yfirleitt að kíkja eitthvað til málamynda á vinnustaðinn. Því er lítil orka eftir í manni þegar staulast er heim á kvöldin.

Þriðji spænskuáfanginn er annars skemmtilegur, kennararnir betri en í nr. 2. Er með einn fyrir hádegi og annan síðdegis. Sú fyrri hef ég grunaða um að vera yngri en ég. Því finnst mér ég hafa elst mikið þegar ég er í tímum hjá henni. Sú síðari er óhemju áhugasöm um kennsluna, svo mjög að manni finnst nánast nóg um en hún er ágæt engu að síður.

Um daginn horfðum við á þetta tónlistarmyndband í kennslustund og við áttum að lýsa því sem fyrir bar. Lagið heitir „Me voy“ og er með Julieta Venegas. Sú mun vera fyrrverandi rokksöngkona sem fór yfir í poppið og spilar oft á harmónikku í lögum sínum. Einhverjir gætu sagt sem svo að hún væri búin að missa það en þetta eru engu að síður hugljúfir tónar.

Hún hefur einnig átt þennan hittara hér „Eres para mi“, þetta heyrðist mikið á síðasta ári og heyrist reyndar enn enda dúndur stöff hér á ferðinni. Fyrir mér er þetta venjuleg útvarpsmúsík, velti því fyrir mér hvort lesendur kannist eitthvað við hana Julietu eða hvort að hún sé einungis fræg í Ameríku.

Lokað er fyrir andsvör.