Stöðnun og hamfarir

Ég er álíka staðnaður í minni vinnu og íslenskur húsnæðismarkaður. Á víst að kokka upp einhverja stutta lýsingu á því hvað ég ætli mér að gera í doktorsverkefninu ógurlega en mér dettur fátt í hug því til viðbótar sem áætlað er að gera. Hef verið að berja saman lýsingu undanfarna daga en mér sækist verkið seint og illa.

Kannski er það hitinn hér úti sem hægir á manni en maí er með heitari mánuðum í Mexíkó. Hitamælirinn á bílnum hefur undanfarið sýnt allt upp í 39°C en ég veit ekki hvort honum sé fyllilega treystandi. Skólinn minn er ekki loftkældur þannig að hitinn hér inni getur verið leiðinlega hár.

-—-

Mikið er talað um náttúruhamfarir þessa dagana en mér finnst vanta meiri umfjöllun um enn verri hamfarir sem eru að verða. Miklar verðhækkanir á ýmsum undirstöðumatvælum eru verstu hamfarir sem fátækari hluti heimsins getur lent í. Í löndum þar sem allt snýst um að hafa í sig og á fer meirihluti tekna fólks í mat. Segir sig sjálft að þegar maturinn hækkar svo skyndilega um tugi prósenta þá er hungurvofan komin á kreik.

Eðlilegt viðbragð markaðsins væri að auka framleiðslu en slík viðbrögð geta tekið tíma þar sem fjárfestingar í landbúnaði skila sér ekki fyrr en að einhverjum tíma liðnum. Einnig hefur hækkað olíuverð mikil áhrif þar sem megnið af nútíma matvælaframleiðslu er knúið áfram með þeim orkugjafa.

4 andsvör við “Stöðnun og hamfarir”

 1. Gulli

  Þessar verðhækkanir á matvælum eru að stórum hluta því að kenna að fólki finnst réttlætanlegt að hlaupa upp til handa og fóta að algjörlega vanhugsuðu máli til að „bjarga heiminum“. Ethanol hefur verið ein af töfralausnunum gegn „hnattrænni hlýnun af mannavöldum“. Gríðarlega aukin eftirspurn eftir því hefur sett matvælaframleiðslu algjörlega í annað sætið þar sem talsvert hærra verð færst fyrir ethanol en mat.

  Allt vegna takmarkalausrar þarfar „umhverfisverndarsinna“ fyrir allsherjarlausnir, eina töfralausn sem bjargar öllu. Svo framarlega sem það er ekki olía. Önnur dæmi um svona hysteríur eru t.d. sólarorka, „sparnaðarperur“ og endurvinnsla. Fólk vill bara patentlausnir, eitthvað sem lætur því líða vel – engar raunverulegar lausnir sem gera meira en að leyfa fólki að klappa sér sjálfu á bakið fyrir að hafa nú gert sitt.

  Tilgangurinn helgar ekki alltaf meðalið.

 2. Lalli

  Þetta hefur heyrst mikið í umræðunni að framleiðsla á visthæfu eldsneyti sé orsök hækkaðs matvælaverðs. Ég held að þetta sé einungis hluti útskýringarinnar en hef ekki séð neina haldbæra tölfræði um vandann.

 3. Gulli

  Hvað meinarðu? Heldurðu að gæti verið meira en ein ástæða fyrir þessu?

 4. Lalli

  Ég veit t.d. að tilbúinn áburður hefur tvöfaldast í verði frá því á síðasta ári heima á Íslandi.

  Ekki er öll þessi hækkun á matvælum undanfarið eingöngu því að kenna að hluti hennar fer í lífrænt eldsneyti? Eða hvað?