Archive for maí, 2008

Með leyniþjónustunni í tíma

Þessa dagana eru níu manns í hópnum mínum í spænskuskólanum, þrír frá S-Kóreu, ein frá Kína, einn Breti, Frakki, Ástrali og ein stúlka frá Japan. Mér fannst það nokkuð magnað þegar kom á daginn að í hópnum eru tveir leyniþjónustumenn. Bretinn er reyndar fyrrverandi starfsmaður bresku leyniþjónustunnar í útibúi þess í Þýskalandi en einn þeirra frá Kóreu er í fullu starfi hjá leyniþjónustu hersins í S-Kóreu. Spurðum hann um daginn hvort að þeir hefðu einhverja útsendara í N-Kóreu og hann játti því en við kunnum ekki við að fara með samtalið lengra. Maður hefði kannski endað í skottinu á svörtum Hyundai.

Ekki er þó hægt að segja annað en að maður sé ágætlega tengdur hér í Mexíkó.

Sjálfhverfni?

Einhvern daginn mun ég einnig skrifa minn eigin snepil og gefa út. Gæta mun ég þess eins og Magnús Þór(pdf) að mynd af mér sé nú örugglega á hverri einustu síðu, svona til að ekkert fari á milli mála hver sé aðalmaðurinn.

Bisnessinn og mexíkanskir tónar

Ég er eiginlega strax farinn að bíða eftir sumarfríinu, hef haft meira en nóg að gera undanfarið og það virðist bara eiga eftir að aukast. Konan mín er orðin svo djúpt sokkin í bisnessinn að við verðum með okkar eigin bás á ráðstefnu hér í bæ frá fimmtudegi til sunnudags. Hef víst látið plata mig út í að vera á staðnum í jakkafötum og dreifa bæklingum. Hvað gerir maður ekki fyrir arðsemi tannlæknastofu konunnar?

Ráðstefnan snýst um börn og verðandi mæður og þangað koma ýmsir framleiðendur með sínar vörur og kynna. Að meðaltali fá svona ráðstefnur um 65 þúsund gesti og við erum eina tannlæknastofan á svæðinu þannig að við gerum okkur vonir um að geta bætt ríflega við kúnnahópinn. En undirbúningur fyrir kynningu af þessari stærðargráðu er töluverður og því erum við frekar lúin þessa dagana.

Þetta kemur á sama tíma og ég er í hraðferð í þriðja spænskuáfanga mínum í CEPE. Hraðferðin þýðir að ég læri spænsku sex tíma á dag frá 9-3 og þarf svo yfirleitt að kíkja eitthvað til málamynda á vinnustaðinn. Því er lítil orka eftir í manni þegar staulast er heim á kvöldin.

Þriðji spænskuáfanginn er annars skemmtilegur, kennararnir betri en í nr. 2. Er með einn fyrir hádegi og annan síðdegis. Sú fyrri hef ég grunaða um að vera yngri en ég. Því finnst mér ég hafa elst mikið þegar ég er í tímum hjá henni. Sú síðari er óhemju áhugasöm um kennsluna, svo mjög að manni finnst nánast nóg um en hún er ágæt engu að síður.

Um daginn horfðum við á þetta tónlistarmyndband í kennslustund og við áttum að lýsa því sem fyrir bar. Lagið heitir „Me voy“ og er með Julieta Venegas. Sú mun vera fyrrverandi rokksöngkona sem fór yfir í poppið og spilar oft á harmónikku í lögum sínum. Einhverjir gætu sagt sem svo að hún væri búin að missa það en þetta eru engu að síður hugljúfir tónar.

Hún hefur einnig átt þennan hittara hér „Eres para mi“, þetta heyrðist mikið á síðasta ári og heyrist reyndar enn enda dúndur stöff hér á ferðinni. Fyrir mér er þetta venjuleg útvarpsmúsík, velti því fyrir mér hvort lesendur kannist eitthvað við hana Julietu eða hvort að hún sé einungis fræg í Ameríku.

Trúfrjáls hægrimaður stingur niður penna

Ef þið viljið lesa eitthvað uppbyggilegt í dag þá er fátt betur til þess fallið en þessi pistill hér.

Vondu útlendingarnir

Þjóðernishyggja er einhver sú versta plága sem herjað hefur á mannskepnuna. Sú skoðun að einhver sé betri en aðrir vegna þess að hann fæddist á ákveðnum stað af ákveðnu fólki er út í hött. Inn í þetta spilar einnig forlagahyggjan sem er annað böl. Engin tilviljun er að þeir sem aðhyllast mest þjóðernishyggju eru yfirleitt illa menntaðir eða einfaldlega vitgrannir. Heimskt er heimaalið barn. Þið þekkið þetta fólk, sífellt röflandi um yfirburði Íslendinga (eða hvítra) og mikilvægi þess að halda í íslenska menningu meðan það getur ekki komið frá sér texta skammlaust á íslensku.

Margir þjóðernissinnar virðast halda að Ísland sé einhvers konar gósenland sem vondir útlendingar ágirnast. Skiptir litlu hvort um er að ræða ESB, innflytjendur, múslima….. allir vilja þeir taka frá okkur það sem við „eigum“. Útlendingar eru óvinir okkar samkvæmt þessu liði, lögreglan má berja þá en ekki samlanda sína. Þeir hvetja til „skynsamlegrar umræðu“ og „hófsemdar í innflytjandamálum“ en það þýðir í raun að landið eigi að vera lokað um ókomna tíð. Ef innflytjendur dirfast að stíga fæti á klakann þá er eins gott að þeir séu hvítir og kristnir (rasistar á Íslandi eru nær undantekningarlaust varðhundar kristninnar). Geysihár kostnaður við að halda úti ríkiskirkju vex þeim aldrei í augum en nokkrar kúlur í neyðarhjálp handa flóttamönnum er gífurleg blóðtaka að þeirra (vitlausa) mati.

Ef ég væri skeggjaður þá rifi í það yfir því fasíska þrugli sem nú veður um íslenska bloggheima vegna þess að nokkrir tugir flóttamanna eru (vonandi) á leið til Íslands. Ég leyfi mér að hlekkja í blogg míns gamla skólafélaga hér sem dregur saman málið á þann hátt að ekki neinu þar við að bæta.

Narnía II

Þegar ég sá fyrstu myndina um Narníu í desember 2005 var ég að drepa tímann í snjókomunni og frostinu í Gautaborg. Ég beið þar eftir fluginu mínu sem endaði að lokum í Afríku en ég sé núna að ég minntist ekki á þessa bíóferð þá enda margt annað búið að gerast í millitíðinni í Svartálfu sem var áhugaverðara en nýjasta hollívúdd túlkunin á bókmenntum. Reyndar minnir mig að ég hafi ekki verið sérstaklega ánægður með fyrstu myndina, var frekar stirðbusaleg og óáhugaverð ef mig minnir rétt.

Þrátt fyrir þessa fyrri reynslu fórum við Anel að sjá Kaspían prins sem er nr. 2 í röðinni í Narníusögunum. Kannski var það betri félagsskapur í þetta skiptið, en ég fór í fyrsta og eina skiptið á ævinni einn í bíó á fyrstu myndina, en þessi mynd féll í betri jarðveg hjá mér en sú fyrri.

Þessar sögur eru í raun mjög absúrd. Krökkunum er kippt aftur til Narníu og þau finna þar rústirnar af staðnum sem þau bjuggu 1300 árum fyrr þegar þau voru fullorðin kóngar og drottningar en eru samt nú börn á nýjan leik. Kannski merki um styrk sagnanna að manni finnst þetta ekki svo fáránlegt þegar horft er á þetta. Hvað um það, mynd nr. 2 er mun betri en sú fyrri. Sagan flæðir betur og er áhugaverðari að mér finnst.

Eitt sem mér fannst athyglisvert. Í myndinni finna þau taflmann úr gulli, sem eitt þeirra átti áður, í þeim hallarrústum þar sem þau áttu áður dvalarstað. Þetta minnti mig óneitanlega á lok Völuspáar þegar ástandinu eftir Ragnarök er lýst.

Þar munu eftir
undursamlegar
gullnar töflur
í grasi finnast,
þær er í árdaga
áttar höfðu.

Velti því fyrir mér hvort að um einhverja bókmenntavísun var að ræða hjá C. S. Lewis eða hvort að um tilviljun sé að ræða.

Horfin framtíð

Gaman er að sjá gamlar sci-fi bíómyndir þar sem menn hafa komist upp á lagið með að flakka um geiminn en tölvurnar þeirra eru enn með grænum skjá, taka heilt herbergi og virðast keyrðar á MS-DOS. Ég verð þó að viðurkenna að þessi framtíðarsýn er mun meira spennandi en það sem við enduðum með, engar geimferðir en við höfum tölvur með grafísk notandaviðmót og Netið.

Ef ég mætti velja þá tæki ég aftur við tölvunum með grænum skjáum þar sem allar skipanir eru hamraðar inn á lyklaborðið, ef ég bara kæmist út í geim.

Karlmannlegur matseðill

Á horninu er veitingastaður sem býður upp á þann karlmannlegasta matseðil sem ég hef séð. Gróflega áætlað er um 95% af honum helgaður áfengi eða kjöti. Ég tek ofan fyrir svona karlmennsku.

Bestu rökin

Stundum er ágætt að sjá hverjir eru á móti til að ákveða hvort maður eigi að vera með. Ef þeir sem eru á móti eru samansafn andlegra ógæfumanna er það ákveðin vísbending um hvert maður eigi að stefna.

Ofbeldi eða ofeldi?

Þegar ég var í grunnskóla kunni ég svohljóðandi orðatiltæki: „Sjaldan launar kálfur ofbeldið“. Skilningur sveitadrengsins á þessu var að sjálfsögðu sá að kálfur getur ekki svarað fyrir sig þótt hann sé laminn hressilega. Seinna kom það í ljós í íslenskutíma hjá Höllu í Dalsmynni að ég hafði bætt inn einu bé og kálfurinn launaði ekki ofbeldi heldur ofeldi.

Orðatiltækið „sjaldan launar kálfur ofeldið“ var eilítið erfiðara að skilja en hafðist þó fyrir rest. Menn eiga ekki að gefa of mikið því þeir græða ekkert aukalega fyrir. Mætti kannski segja að það sé einhver hagfræðileg hugsun þarna að baki.