Bættur háskóli

Nú hef ég verið í þremur háskólum við nám og ætti því að hafa smá reynslu af þeim stofnunum. Ég sé að einu sinni sem oftar er verið að kvarta heima yfir HÍ og hvernig hann á eftir að verða æðislegur ef sett verða skólagjöld á nemendur. Að sjálfsögðu er ég ósammála því kjaftæði.

Nú stunda ég nám í besta háskóla í Rómönsku Ameríku sem er settur á topp 200 yfir bestu háskóla heims (sæti 151-200). Þessi skóli er algjörlega ókeypis fyrir nemendur en ströng inntökupróf bíða þó þeirra sem sækja hér um. Fjölmargir einkaskólar eru hér í Mexíkó, sumir yfirgengilega flottir, en samt sem áður hefur enginn þeirra roð við UNAM þegar kemur að gæðunum.

Hvernig á að meta gæði háskóla? Í samanburði við hina háskólana tvo sem ég hef stundað nám við kemur HÍ sæmilega út. Ég held að standardinn sé nokkuð hár allavega í minni gömlu líffræðiskor. Reyndar svo hár að ég átti í mesta basli við B.Sc. gráðuna á sínum tíma en ég fór nokkuð léttilega í gegnum masterinn eftir það þar sem grunnur minn var mjög góður.

Annars er ég með eitt ráð til að hækka HÍ á þessum samanburðarlistum yfir alþjóðlega háskóla sem ég vildi koma að. Fræðimenn þar þurfa að birta meira af ritrýndum fræðigreinum, því mér skilst að það sé eitt af því sem notað er til að bera saman háskóla. Fyrrverandi félagar í líffræðinni geta athugað á PubMed hvernig gamlir kennarar þeirra eru að standa sig í þessum málum. Sumir þeirra eru ekki í góðum málum, eru kannski að birta að meðaltali eina grein á ári eða minna. Ég held að þeir gætu gert mun betur þar, vantar kannski eitthvað hvetjandi kerfi til að efla menn til dáða.

Vandi HÍ er reyndar margþættur og mun fleira þarf til en þetta gæti kannski verið eitt skref til bóta.

Lokað er fyrir andsvör.