Archive for apríl, 2008

Um verðbólgu

Þeir sem botna ekkert í hagfræði, eins og ég t.d., geta haft gott að því að lesa þennan pistil á Púkablogginu um verðbólguna.

Mér hefur annars lengi fundist vanta almenna fræðslu um efnahagsmál í grunn- og framhaldsnámi heima. Mér finnst það lítið vit að ég fékk stúdentspróf án þess að hafa hugmynd um hvað verðbólga eða hlutabréfavísitölur eru. Ég kunni þó að beygja franskar sagnir í fimm tíðum, þótti víst nægjanlegt.

Lánið leikur við Framsókn

Framsóknarflokkurinn settist í ríkisstjórn eftir þingkosningar 1995 á þeim tímum þegar mikið alheims-góðæri var í uppsiglingu. Góðærið hélst meira og minna fram til 2007, reyndar með smá niðursveiflu í kringum dot.com hrunið. Þá var þeim sparkað úr stjórninni. Nokkrum mánuðum síðar hófst núverandi niðursveifla.

Ekki er hægt að segja annað en að Framsókn megi vel við una. Óneitanlega hefur tími þeirra í ríkisstjórn verið góður, þótt að ég telji hana hafa minnst með það að gera.

Fjölgun

Erla er kominn yfir á Kommúnuna, sjá hér. Hún er að sjálfsögðu boðin velkomin.

Eitthvað hefur verið vælt yfir kommentakerfinu okkar en því var víst lokað vegna yfirgengilegs kommentaspams. Mér skilst að það hafi verið opnað aftur og tæknimaðurinn okkar er að skoða varanlega lausn á þessu máli.

Sumarfrí

Foreldrar mínir og systkini ætla að koma hér til Mexíkó þann 20. júní og verða hér fram til 1. júlí. Þá ætlum við okkur að fara öll saman til New York og vera þar í tvær nætur og koma svo til Íslands. Við lendum eldsnemma að morgni 4. júlí í Keflavík, tökum kvöldflugið frá JFK.

Þegar fjölskyldan verður hér í Mexíkó ætlum við m.a. að fara með þau á ströndina í Cancún sem er á Yucatán skaganum við Karabíska hafið. Verðum þar víst á þessu gistiheimili hér, lítur alveg sæmilega út.

Við verðum svo á Íslandi fram til 14. ágúst. Vonast til að geta hitt sem flesta á þessum tíma, verðum vonandi betur skipulögð heldur en síðast.

Þá vitið þið það.

ESB vs. NATO

Skrítið að margir þeir sem eru hvað harðastir á móti aðild Íslands að ESB eru líka harðir NATO menn. Ef þessi tvö fjölþjóðasamtök eru skoðuð þá er ekki vafi á því að NATO er frekar ömurlegur klúbbur meðan að ESB er alveg sæmilegt partý.

Hiti og sviti

Fyrir um 3-4 vikum síðan tók hitastigið góðan kipp upp á við.

Hér í Mexíkóborg er nefnilega ekki svækjuhiti alla daga eins og margir gætu haldið því við erum í um 2400 metra hæð yfir sjávarmáli. Á veturnar er loftslagið þægilegt og mátulega passlegt. Yfirleitt þarf maður ekki peysu og yfirhafnir, bolaveður alla daga. Vorin eru hér heitasti árstíminn, á sumrin rignir duglega daglega sem kælir aftur loftslagið niður.

Nú er semsagt vor í lofti, hitinn fer vel yfir 30°C á hverjum degi sem aftur þýðir það að ég hef fengið að svitna daglega í nokkrar vikur. Samt sem áður verður lítil breyting á klæðaburði borgarbúa. Þar sem ég vil ekki líta út eins og áttavilltur túristi þá geri ég slíkt hið sama með þeim afleiðingum sem að ofan er lýst.

Kannski ég ætti að gera eins og gringóarnir í spænskuskólanum, finna mér hvítar stuttbuxur, hlýrabol og sólhatt. Þótt það væri kannski þægilegra þá vill enginn líta út eins og gringó, það segir sig sjálft.

NATO: peningasóun og firring

Fyrst að þrír Kommúnuistar taka til máls í þessu myndbandi þá er ekki annað hægt en að smella því hér inn.


Nokkrar myndir

Eitthvað hefur bæst við myndasíðuna undanfarið.

Don Kíkótar á vörubílum

Hef aldrei náð þessu almennilega með trukkamótmælin heima. Jú, jú olía og bensín hafa hækkað mikið undanfarið en hvað á að gera í því? Hækkunin á sér eðlilegar orsakir, olíubirgðir heimsins minnka stöðugt meðan að eftirspurnin eykst og jafnvel er talið að hinum fræga olíutindi hafi þegar verið náð. Dollarinn hefur einnig sigið að verðgildi undanfarið og svo hefur gjaldmiðill Íslendinga fallið hressilega á þessu ári. Bein afleiðing þessa er að olía og hennar afurðir hækka mikið í verði.

Þeir eru því hálfgerðir Don Kíkótar þessir menn sem nota vörubílana sem mótmælatæki. Þeirra vindmyllur eru verðhækkanir sem enginn getur stöðvað þegar um eðlileg markaðsviðskipti er að ræða.

Ég er algjörlega mótfallinn því að lækka álögur ríkisins af olíu og bensíni, sérstaklega nú þegar strandsiglingar heyra sögunni til og vörubílarnir spæna upp þjóðvegina sem aldrei fyrr. Það þarf mikið fé til viðhalds vegakerfisins og að sjálfsögðu á þeim að blæða mest sem slíta vegunum hvað ákafast.

Hrokkið hár

Sonur minn er hrokkinhærður, hver hefði getað trúað því? Ari hefur annars lært að ganga nú nýverið og er byrjaður að príla í sófunum heima, móður sinni til skelfingar. Einnig hefur hann lært að segja „ma“ sem við teljum vera styttingu á mas sem þýðir meira á spænsku. Þetta orð er notað mikið við matarborðið heima.