Archive for mars, 2008

Davíð og Mugabe

Fyrir nokkru las ég um Mugabe að hann kenndi vondum köllum í útlöndum um efnahagsástandið í Zimbabwe. Þótt hann hafði hegðað sér eins og hálfviti við stjórnvölinn síðustu árin og áratugina jafnvel þá virtist það ekki vera vandamálið að hans mati.

Eftir gengisfallið undanfarnar vikur á Íslandi les ég það á Netinu að Davíð Oddson seðlabankastjóri kennir vondum köllum í útlöndum um ófarirnar. Einhver hugrenningartengsl mynduðust við þann lestur, líkt og ég hafði séð eitthvað svipað áður.

Breytt plön

Þegar við vorum loks komin með góð plön þá þarf eitthvað að klikka. Hvað gerist næst er erfitt að sjá fyrir en einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni núna að dvölin hér í Mexíkó verði stytt talsvert og að Evrópudvöl taki við bráðlega. Hvar, hvenær og hvernig eru spurningar sem ég hef ekki svör við.

TOEFL próf

Eitt af því sem ég verð að gera fyrir umsókn mína um doktorsnám er að taka þetta fræga TOEFL próf, sem á víst að sýna færni mína í enskri tungu. Þarf að ná 500 stigum, er mér sagt.

Þarf maður eitthvað að læra fyrir svoleiðis próf eða er þetta erfitt?

Tungubrjótur

Skora á þá sem kunna eitthvað í spænsku að lesa eftirfarandi texta úr kennslubók vorri upphátt. Þetta er einfaldlega ekki hægt.

Sobre la jiba gigante de la jarifa jirafa, Jimena la jacarera, la Gitana jaranera, jubilosa jugueteaba gorjeando la jácara, jamando la jícama, juergueando la jícara, jalando la jáquima; jalaba, gorjeaba, juergueaba, jamaba, jáquima, jícara, jácara y jícama.

Nýi spænskukennarinn er mun eldri en sá fyrri og strangari eftir því en þetta er samt ágætt enn sem komið er. Í nýja hópnum mínum telst mér til að séu þrír Þjóðverjar, tveir Norðmenn, þrír Japanir, tveir Kanar, einn Slóvaki, einn Frakki, einn frá Haíti og ein frá Kanada.

Í fyrri hópnum var ein norsk stúlka, sem er reyndar með mér í hóp núna, en við ræddum alltaf saman á ensku. Um daginn rakst ég á hinn Norðmanninn sem ég hafði ekki rætt við áður, höfðum einungis verið í sama hóp í tvo-þrjá daga þá. Hann byrjaði án málalenginga að ræða við mig á norsku og það sem meira var, ég skildi hann alveg ágætlega. Við kjöftuðum eitthvað saman þannig, hann á norsku og ég á minni slöku sænsku sem hann skildi þó einnig fullkomlega.

Þetta fannst mér magnað, ég sem hef aldrei komið til Noregs. Dálítið heimilislegt að geta talað við aðra Norðurlandabúa hér í Ameríku á okkar eigin máli.

Áfram í Mexíkó

Við Anel höfum verið að velta fyrir okkur hlutunum undanfarið. Niðurstaðan virðist ætla að verða sú að við verðum hér áfram í Mexíkó í einhvern tíma. Anel hefur sótt um sérhæfingarnám í tannréttingum og fær að vita hvort hún fær inngöngu í næsta mánuði.

Sjálfur er ég að hefja langan og strangan undirbúning að umsókn um doktorsnám hér á sama stað og ég lauk meistaranáminu. Ekki kemur í ljós fyrr en í ágúst hvort ég fæ hér inni.

Mér líst vel á þetta, ef allt gengur upp. Við verðum þá bæði við nám í sömu byggingu og í næstu byggingu er leikskóli sem Ari getur verið á.

Hef verið spurður hvort að þessi skóli minn sé ekki eitthvað spaug og hvort menntun frá honum sé einhvers virði. Ég get hér frætt lesendur mína um að UNAM er afar góður skóli og lendir t.d. á þessum lista hér á bilinu 151-200 yfir bestu háskóla heims. Háskóli Íslands nær ekki inn á topp 500, svo dæmi sé tekið.

Doktorsnám hér tekur einungis tvo ár að loknu meistaranámi. Jafnvel gæti ég farið í gegnum námið á styttri tíma því ég get nýtt allt það sem ég gerði fyrir M.Sc. verkefnið, þar sem það var tekið við annan háskóla. Sérhæfingarnám í tannréttingum tekur þó þrjú ár en þegar að Anel klárar það munum við líklega reyna að flytja til Svíþjóðar eða þarna einhvers staðar til Norðurlandanna. Ísland er jafnvel möguleiki ef ástandið þar hefur skánað eitthvað árið 2011.

Þegar kreppir að er líklega best að koma sér þægilega fyrir í einhverjum skólanum og þreyja þorrann þar. Skondið er að ef ég fæ inni sem doktorsnemi munu launin mín stórhækka og þau verða töluvert langt yfir meðallaginu hér í landi. Töluvert ólíkt mörgum öðrum löndum þar sem laun doktorsnema eru sjaldnast eitthvað til að hrópa húrra yfir.

Svo er ég að spá í því að sækja um mexíkóskan ríkisborgararétt, það verður svalt að geta flaggað tvöföldu ríkisfangi. Einnig gerir það allt auðveldara fyrir okkur varðandi skrifræðið hér.

Þetta er planið í grófum dráttum eins og það er í dag.

ESB minnkar í áliti

Mér sýnist að þessi Lissabon-bókun sé skref í ranga átt hjá ESB. Ég er t.d. ekki hrifinn af því að fá forseta Evrópu, Evrópuher eða ESB löndin séu gerð skyldug til að vígvæðast.

Félagi Vésteinn á góða samantekt um málið hér.

Horton, Cholula og heil. Homobono

Í gær keyrðum við yfir til Puebla til bæjarins Cholula sem á sér merkilega sögu. Fyrir nýlendutímann var þetta mikill helgistaður og þarna stóðu 365 pýramídar á sínum tíma. Enginn þeirra er eftirstandandi í dag fyrir utan þann stærsta sem var líklega byggður til heiðurs guðsins Quetzalcoatl. Þegar Spánverjarnir komu hingað til Mexíkó á 16. öld létu þeir brjóta niður alla pýramídana og settu sér það markmið að kirkja skyldi rísa fyrir hvern pýramída sem var eyðilagður.

Sá stærsti stendur ekki í upphaflegri mynd heldur er hann hulinn að mestu með jarðvegi. Ekki er ljóst hvort að Spánverjarnir hafi mokað yfir þennan pýramída sjálfir því líklega var það of stór biti að brjóta hann niður. Ein sagan segir að fólkið hér hafi gert það áður en þeir spænsku ráku augun í pýramídann til að bjarga honum. Ekki veit ég hvort er satt en þessi pýramídi er að mestu hulinn í dag og lítur í raun út eins og stór hóll. Spánverjarnir settu þar eina kirkju á toppinn ásamt fjöldamörgum öðrum í kring. Þeir náðu þó ekki upphaflega markmiðinu að byggja 365 kirkjur á staðnum en margar eru þær, líklega nálægt 100.

Þessi pýramídi er sá stærsti í heimi að rúmmáli, nánast þriðjungi stærri en sá stóri í Egyptalandi sem mun þó vera hærri. Mér fannst mjög áhugavert að sjá þennan bæ og pýramídann, ég minntist einmitt á þetta nýverið á Vantrú en hafði ekki komið þangað áður.

Í kirkjunni á toppi fannst mér merkilegast að rekast á dýrling klæðskera og fatahönnuða, heil. Homobono. Líkneski hans var með málband um hálsinn og hann hélt á skærum. Við fætur hans stóðu saumavél og straujárn. Staðfastir dýrkendur hans höfðu svo fórnað til hans tveimur málböndum sem lágu fyrir framan hann. Margt er skrítið í útlöndum.

-—-

Í kvöld fórum við í bíó með Ara í fyrsta sinn. Sáum teiknimyndina Horton Hears a Who! Ágætis mynd en ég náði ekki alveg öllu því sem fram fór þar sem herlegheitin voru á spænsku. Ari virtist ekkert sérstaklega áhugasamur um myndina en því meiri áhuga hafði hann á poppinu og fólkinu sem sat fyrir aftan okkur. Ég held að ég hafi verið 12 ára þegar ég fór fyrst í bíó og sá þá Bodyguard sællar minningar með bekknum mínum í Laugargerðisskóla. Ari er 14 mánaða, svona breytast tímarnir líklega.

Bingó!

Fyrir landa mína sem staddir eru á Íslandi þá vil ég minna á Bingó Vantrúar á Austurvelli á föstudaginn langa sem hefst klukkan eitt. Boðið verður upp á heitt kakó og kleinur, ekkert rukkað fyrir spjöldin en veglegir vinningar verða í boði.

Þessu bingói er teflt fram gegn hinni mjög svo fornaldarlegri helgidagalöggjöf ríkiskirkjunnar sem bannar allt óguðlegt bingóspil á þessum degi.

Útlendingurinn á fjósbitanum

Fyrir okkur útlendinga er áhugavert að fylgjast með gengisþróuninni síðustu vikurnar. Krónan lækkar daglega um einhver prósent um þessar mundir. Einungis frá áramótum nemur lækkunin um 17%. Fyrir mig eru þetta ágætar fréttir, ef ég reikna launin mín í íslenskar krónur þá fæ ég litla launahækkun á hverjum degi. Einnig á ég einhverjar skuldir heima, draumur okkar Gulla um almennilegt hrun krónunnar til að grynnka á skuldunum virðist óðum að rætast.

Líklega hef ég farið út á nákvæmlega réttum tíma. Haustið 2005, þegar ég fluttist til Svíþjóðar, var krónan há og hélst þannig meira og minna þangað til að ég kláraði námið hér úti í fyrrahaust og fékk síðustu sendinguna frá LÍN.

Nú man ég ekki nákvæmlega hvað gengi sænsku krónunnar var þegar ég bjó í Skövde. Minnir að á tímabili hafi ein sænsk farið undir 9 krónur íslenskar. Kíkti á gengið í dag og hún stendur í tæpum 11,8 núna!

Um daginn fannst mér það mikið að evran var komin í hundrað kallinn. Núna stendur hún í 111 krónum. Pesóinn var um daginn eitthvað í kringum 5,8 ISK en er núna 6,6 þrátt fyrir að gengi hans hafi einnig sigið slatta undanfarið.

Með þessu áframhaldi þarf ég að fjárfesta í stærri íbúð hér í Mexíkó til að taka við flóttamönnunum þegar þeir byrja að flýja skerið.

Móttaka með forseta Íslands

Við Anel og Ari fórum í móttöku með forseta Íslands á þriðjudaginn. Sendiherra Íslands hér í Mexíkó, sem reyndar hefur aðsetur í Washington, bauð öllum Íslendingunum á svæðinu og þarna mætti líka eitthvað af föruneyti þjóðhöfðingjans. Þeir sem eru nútímavæddir geta séð nokkrar myndir á Facebook.

Mér leið hálf undarlega að vera staddur þarna, veit ekki hvernig maður á að hegða sér í svona jakkafata-diplómata-kokteils-boðum. Hjálpaði þó mikið að hafa Ara meðferðis, allir vildu tala við hann. Góður ísbrjótur við svona aðstæður.

Dorrit kom sérstaklega til okkar til að sjá drenginn og fékk aðeins að halda á honum. Skiptumst líka á nokkrum orðum við forsetann sjálfan. Menntamálaráðherra var líka á svæðinu en við höfðum engin formleg samskipti þarna. Skondnast var að hitta Magnús Scheving og Ari á nú áritaða mynd af Íþróttaálfinum sem heitir víst Sportacus núorðið.

Einnig hitti ég marga Íslendinga sem eru búsettir hér í Mexíkó. Síðan ég kom hingað hef ég ekkert lagt mig fram um að hitta landa mína þannig að ágætt var að hitta á svona marga í einu. Vonast eftir því að geta hitt þá aftur við tækifæri.