Archive for febrúar, 2008

Spænskupróf

Í tilefni þess að Español básico 1 er hálfnaður var skriflegt próf í dag og munnlegt próf í gær. Held að munnlega prófið hafi verið þokkalegt en skriflega prófið kom dálítið á óvart. Níðþungt og mjög snúið, líklega er gert ráð fyrir því að við höfum lært eitthvað á undanförnum vikum.

Fimmtán ára afmæli mexíkanskra stúlkna

Hér í Mexíkó höfum við stundum séð eða keyrt framhjá prúðbúnum unglingstúlkum sem eru að fagna fimmtán ára afmæli sínu. Oft sjást þær keyrðar um í glæsibifreiðum, skreyttum með blómum og borðum. Ég hugsaði samt aldrei sérstaklega út í það afhverju þetta afmæli er svona merkilegt og hversvegna einungis stúlkurnar fagna þessum tímamótum.

Þetta var allt útskýrt í spænskutíma í gær og skýringin var í raun sáraeinföld. Í gamla daga voru fimmtán ára stúlkur formlega komnar á giftingaraldurinn og því voru þær klæddar upp á afmælisdaginn og ungum mönnum boðið í veislu svo þeir gætu skoðað hvað var í boði. Þessi hefð lifir enn góðu lífi þrátt fyrir að giftingaraldurinn hafi færst töluvert ofar nú á dögum.

Staksteinar blogga

Þetta finnst mér fyndið.

„Febrúar tvenna fjórtán ber…

…frekar einn þá hlaupár er.“

Ég held að fólk almennt geri sér ekki grein fyrir því hvað 2000 var merkilegt ár. Það ár var hlaupár en aldamótaár eru almennt ekki hlaupár nema að talan 400 gangi upp í ártalinu. Þannig verður 2100, 2200 og 2300 ekki hlaupár en 2400 verður eitt slíkt. Þessi sérstaka hlaupársregla gildir í gregoríanska tímatalinu sem var tekið upp í kaþólskum löndum árið 1582 og því hefur það einungis gerst tvisvar síðan þá að aldamótaár hafi verið hlaupár, 1600 og 2000.

Eldra tímatalið sem stuðst var við í Evrópu, júlíanska tímatalið sem sjálfur Sesar kom á, hafði alltaf fjórða hvert ár sem hlaupár en það tímatal er síður nákvæmara og skekkjan í því nemur einum degi á u.þ.b. 134 ára fresti. Því þurftu menn að hlaupa yfir 11-12 daga þegar skipt var um tímatal því á 16-17 öldum hafði skekkjan hlaðið utan á sig. Skekkjan í gregoríanska tímatalinu nemur hins vegar einungis um 1 degi á u.þ.b. 3000 ára fresti.

Þess má svo geta að tímatal Mayanna hefur líklega verið nákvæmara en okkar, almanaksárið hjá þeim er talið hafa verið 365,242036 dagar að meðaltali meðan að almanaksárið í hinu gregoríanska tímatali er 365,2425 dagar. Hvarfárið hinsvegar er um 365,2422 sólarhringar sem er örlítið nær tímatali Mayanna. Menn hér í Mexíkó voru semsagt komnir með þetta á hreint fyrir löngu síðan.

Datt þetta svona í hug í tilefni þess að hlaupársdagur er væntanlegur í lok mánaðarins.