Landafræðin þyngist

Hrun Sovétríkjanna og sundrun Júgóslavíu var mikið fagnaðarefni fyrir landafræðinörda en fyrir okkur hin var þetta mikil ógæfa. Ríkjum heimsins fjölgaði mikið við þessa atburði og einhverra hluta vegna enda nöfn margra þeirra á -stan.

Nú hefur enn eitt ríkið bæst við sem heitir víst Kosovo. Skondið er að fylgjast með viðbrögðum heimsins við þessu nýja ríki og margir segja að ekki eigi að styðja svona sjálfstæðisbrölt því það gefur slæmt fordæmi! Líklega vilja þeir ekki að landafræðin þyngist um of. Skiljanlega vill t.d. Spánn ekki styðja svona því það gæti hvatt Baskana og ETA til dáða.

Ég man eftir því þegar ég fylgdist með Fróða og félögum í sjónvarpinu í „Sú kemur tíð“, framtíðarþættir þar sem sagt var frá því þegar „loksins“ á 21. öldinni var skipuð ein heimsstjórn til að koma skikki á hlutina. Síðan þá hef ég af þessum sökum, heilaþveginn af frönskum sósíalistum í æsku, verið hlynntur öllu alþjóðasamstarfi því það miðar að lokatakmarkinu, alheimsstjórninni. Til að vera sjálfum mér samkvæmur ætti ég því líklega að fordæma allt svona sjálfstæðisstúss því það hægir á þessari þróun.

En hvað um það, ég lýsi samt sem áður yfir formlegum stuðningi við sjálfstæði Kosovo. Það virðist vera í tísku þessa dagana þannig að ég vil líka vera með í fjörinu.

2 andsvör við “Landafræðin þyngist”

 1. Sindri Guðjónsson

  Það er náttúrulega alls ekki gott ef of mörg lönd heita eitthvað sem endar á „stan“.

  Það er eitthvað svo austurevrópskt, og ég er ekki viss um hvort „stan“ sé einu sinni kristilegt orð = „S(a)tan“

  Þetta er tákn. Endirinn er í nánd. Spádómarnir rætast.

  Nóg af bulli…

  Það er rétt hjá þér að „sú kemur tíð“ og reyndar líka „einu sinni var“ eru sósíalískir þættir. (hef verið að horfa á þetta með dóttur minni, og það fer margt í taugarnar á kapítalistanum í mér í þessum þáttum) :-)

 2. Lalli

  Hehe, Fróði og félagar sjá um að breiða út byltinguna.