Kastró misreiknar sig um eitt ár

Mér finnst það ekki ná nokkurri átt að hætta bara sisvona eftir 49 ár í forsetastólnum, það er ekki góð tala. Nær hefði verið að hætta á næsta ári, fagna fimmtíu ára afmæli byltingarinnar og að auki sitja af sér enn einn Bandaríkjaforsetann, til að bæta í safnið.

Kastró er einræðisherra og harðstjóri af gamla kommúnistaskólanum sem er tegund í útrýmingarhættu, sem betur fer. Hann var þó ekki alslæmur ef marka má stöðu Kúbu í dag.

Eitt sem mér finnst einna athyglisverðast er staðan hvað snertir HIV smit þar í landi. Löndin í karabíska hafinu hafa orðið verst úti í alnæmisfaraldrinum, fyrir utan Afríku sunnan Sahara. Kúba er þarna algjörlega sér á báti því tíðni HIV/AIDS er mjög lágt og er á svipuðu róli og Finnland og Svíþjóð í þessum efnum. Tíðni HIV smitaðra er hærra á Íslandi en á Kúbu. Ástæðan er markvisst forvarnarstarfs sem fór í gang nánast um leið og veiran var uppgötvuð snemma á níunda áratug síðustu aldar.

Þegar Kúba er borin saman við önnur lönd liggur beinast við að skoða stöðuna í öðrum grannríkjum á karabíska hafinu til samanburðar. Ef notaður er þessi frægi HDI listi, sem Ísland toppar þessa stundina, þá sést að Kúba er þriðja besta ríkið á karbabíska hafinu, á eftir Barbados og Bahamaseyjum. Kúba telst vera 51 besta ríki heims, einu sæti fyrir ofan Mexíkó og ég get nú vottað það að Mexíkó er ágætisland þótt margt megi vissulega betur fara.

Mér skilst það líka að í Kúbu séu engin götubörn þar sem þau eru vistuð á stofnunum en ég hef í raun engar traustar heimildir fyrir því.

Við hjónin ætluðum okkur að fara til Kúbu á þessu ári til að sjá með eigin augun hvernig lífið er í þessu fallega landi meðan að Kastró væri enn lafandi við stjórnvölinn. Ekki tókst það en við ætlum samt sem áður reyna að kíkja þangað og skoða okkur um.

Vona að lýðræði og frelsi manna verði aukið á næstunni á Kúbu en það er kannski óhófleg bjartsýni.

3 andsvör við “Kastró misreiknar sig um eitt ár”

  1. Gulli

    Já, fjandans kallinn að hætta svona áður en maður fær tækifæri til að kíkja (eða öllu heldur drullast til að nota tækifærin til að kíkja).

  2. Lalli

    Svona er þetta, hann reyndi þó að bíða eftir þér í fjölmörg ár en þú bara fórst aldrei ;)

  3. Gulli

    Uss – ekki reyna að snúa þessu upp á framkvæmdaleysi í mér – kallinn gat gott og vel beðið þangað til ég var búinn að gefa grænt ljós!