Archive for febrúar, 2008

Meiri veiðar auka stofnstærð

Einhvern veginn þannig virðast fjölmargir heima á Íslandi hugsa varðandi þorskveiðar, því meira sem veitt er því betra. Þorskurinn er horaður, vannærður og stofnstærð hans er bara brot af því sem hún var fyrir nokkrum áratugum.

Lausnin? Veiða meiri þorsk!

Ég hef tjáð mig um þetta áður, ótrúlegastu menn verða skyndilega fiskifræðingar þegar þessi mál eru rædd. Víla jafnvel ekki fyrir sér að skrifa blaðagreinar um málið. Ég er ekki hlynntur því að fræðimenn einoki umræður en í þessu tilfelli sé ég sjaldnast eitthvað frá fræðimönnunum sjálfum.

Einar K. Guðfinnsson fær sjaldgæft hrós fyrir að standa upp á móti LÍÚ mafíunni og skera niður þorsk- og loðnuveiðar eins og þörf var á. Frjáls sókn í þessar auðlindir hefði endað eins og hver annar námugröftur, mokað út meðan eitthvað er upp úr því að hafa og svo ekki söguna meir.

Landafræðin þyngist

Hrun Sovétríkjanna og sundrun Júgóslavíu var mikið fagnaðarefni fyrir landafræðinörda en fyrir okkur hin var þetta mikil ógæfa. Ríkjum heimsins fjölgaði mikið við þessa atburði og einhverra hluta vegna enda nöfn margra þeirra á -stan.

Nú hefur enn eitt ríkið bæst við sem heitir víst Kosovo. Skondið er að fylgjast með viðbrögðum heimsins við þessu nýja ríki og margir segja að ekki eigi að styðja svona sjálfstæðisbrölt því það gefur slæmt fordæmi! Líklega vilja þeir ekki að landafræðin þyngist um of. Skiljanlega vill t.d. Spánn ekki styðja svona því það gæti hvatt Baskana og ETA til dáða.

Ég man eftir því þegar ég fylgdist með Fróða og félögum í sjónvarpinu í „Sú kemur tíð“, framtíðarþættir þar sem sagt var frá því þegar „loksins“ á 21. öldinni var skipuð ein heimsstjórn til að koma skikki á hlutina. Síðan þá hef ég af þessum sökum, heilaþveginn af frönskum sósíalistum í æsku, verið hlynntur öllu alþjóðasamstarfi því það miðar að lokatakmarkinu, alheimsstjórninni. Til að vera sjálfum mér samkvæmur ætti ég því líklega að fordæma allt svona sjálfstæðisstúss því það hægir á þessari þróun.

En hvað um það, ég lýsi samt sem áður yfir formlegum stuðningi við sjálfstæði Kosovo. Það virðist vera í tísku þessa dagana þannig að ég vil líka vera með í fjörinu.

Kastró misreiknar sig um eitt ár

Mér finnst það ekki ná nokkurri átt að hætta bara sisvona eftir 49 ár í forsetastólnum, það er ekki góð tala. Nær hefði verið að hætta á næsta ári, fagna fimmtíu ára afmæli byltingarinnar og að auki sitja af sér enn einn Bandaríkjaforsetann, til að bæta í safnið.

Kastró er einræðisherra og harðstjóri af gamla kommúnistaskólanum sem er tegund í útrýmingarhættu, sem betur fer. Hann var þó ekki alslæmur ef marka má stöðu Kúbu í dag.

Eitt sem mér finnst einna athyglisverðast er staðan hvað snertir HIV smit þar í landi. Löndin í karabíska hafinu hafa orðið verst úti í alnæmisfaraldrinum, fyrir utan Afríku sunnan Sahara. Kúba er þarna algjörlega sér á báti því tíðni HIV/AIDS er mjög lágt og er á svipuðu róli og Finnland og Svíþjóð í þessum efnum. Tíðni HIV smitaðra er hærra á Íslandi en á Kúbu. Ástæðan er markvisst forvarnarstarfs sem fór í gang nánast um leið og veiran var uppgötvuð snemma á níunda áratug síðustu aldar.

Þegar Kúba er borin saman við önnur lönd liggur beinast við að skoða stöðuna í öðrum grannríkjum á karabíska hafinu til samanburðar. Ef notaður er þessi frægi HDI listi, sem Ísland toppar þessa stundina, þá sést að Kúba er þriðja besta ríkið á karbabíska hafinu, á eftir Barbados og Bahamaseyjum. Kúba telst vera 51 besta ríki heims, einu sæti fyrir ofan Mexíkó og ég get nú vottað það að Mexíkó er ágætisland þótt margt megi vissulega betur fara.

Mér skilst það líka að í Kúbu séu engin götubörn þar sem þau eru vistuð á stofnunum en ég hef í raun engar traustar heimildir fyrir því.

Við hjónin ætluðum okkur að fara til Kúbu á þessu ári til að sjá með eigin augun hvernig lífið er í þessu fallega landi meðan að Kastró væri enn lafandi við stjórnvölinn. Ekki tókst það en við ætlum samt sem áður reyna að kíkja þangað og skoða okkur um.

Vona að lýðræði og frelsi manna verði aukið á næstunni á Kúbu en það er kannski óhófleg bjartsýni.

Guarnavaca y Cuautla

Skruppum um helgina til nálægrar borgar sem heitir Guarnavaca en þar var okkur boðið í svokallaða barnasturtu. Eftir það heimsóttum við ættingja Anelar í nálægum bæ sem heitir Cuautla, þeir sömu og við bjuggum hjá þegar að Ari Snær fæddist í fyrra. Við höfum ekki farið þangað síðan í fyrra þannig að það var komin tími til. Við gistum þar eina nótt og komum heim í gær.

Hér í Mexíkó dugar manni að keyra í einn til tvo klukkutíma og þá er loftslagið og umhverfið gjörbreytt. Enda er hér að finna í þessu landi regnskóga og eyðimerkur sem og allt þar á milli.

Ari greyið kunni þó illa við sig í Cuautla þar sem hitinn var í kringum 30 gráðurnar og rakt var í veðri. Endaði með því að hann fékk sjálfur hita en hann hefur smitast af einhverju í ferðinni. Er skárri í dag, reikna með að þetta verði ekki alvarlegt.

Valentínusardagur

Rómantíkin var í hámarki í gær hjá okkur hjónunum. Eftir skóla og vinnu fórum við í bólusetningu gegn lifrarbólgu B auk þess sem að Ari fékk dropa til bólusetningar gegn mænusótt. Anel þarf starfs síns vegna að vera bólusett gegn lifrarbólgu og hún vildi endilega gefa mér líka þar sem ég vinn á rannsóknarstofu.

Eftir þetta sóttum við um nýtt ökuskírteini handa Anel þannig að ekki skánaði það.

En að öllu þessu loknu fórum við þó loks á skemmtilegan gamlan veitingastað í fallegu hverfi þannig að þessi margumrædda rómantík fannst að lokum.

Tek það fram að ég er í kaþólsku landi þannig að þessi siður er rótgróinn hér. Finnst það hálf-leitt að sjá Íslendinga ætla að lepja þetta upp eftir bandarískum bíómyndum og sjónvarpsþáttum. Hvað varð um konudaginn eða bændadaginn?

Ekkert athugavert við það að taka upp nýja siði, spurningin er af hvaða hvötum það er gert og hvers vegna.

Aldur?

Var að horfa á heimildamynd um sögu R&B tónlistar þar sem spiluð voru mörg myndbönd sem þóttu móðins þegar ég var í fjölbrautaskóla. Ég hef sjaldan verið jafn gamall og í dag.

Efst á baugi

Ari fékk svona göngugrind (eða hvað sem þetta dót heitir nú) í gær frá frænku sinni. Reyndar er það kannski dálítið með seinni skipunum þar sem hann er næstum því farinn að ganga. Anel vildi ekki kaupa svona dót fyrr en drengurinn var farinn að skríða almennilega. Hér í Mexíkó er sagt að þeir sem læra ekki að skríða séu þeir sem keyra illa í umferðinni þar sem þá skortir nauðsynlega samhæfingu hugar og handar. Samkvæmt minni reynslu skríður því einungis annar hver mexíkani í barnæsku.

-—-

Útlit er fyrir að við komum í heimsókn til Íslands næsta sumar en þetta er allt í vinnslu ennþá.

-—-

Í gær kom ein stúlka, ítölsk að uppruna, úr spænskuskólanum til mín og spurði hvort ég gæti ekki vísað henni á góðan kvensjúkdómalækni. Í dag mætti ég í skólann og afhenti henni nafnspjald frá einum góðum. Fátt sem vefst fyrir manni hér í Mexíkó.

-—-

Ég gleðst yfir lækkun krónunnar undanfarið þar sem skuldirnar hafa eitthvað rýrnað í hamaganginum. Þið sem heima sitjið og þurfið núna að punga út 100 kalli fyrir evruna, góðar stundir.

Reagan

Greinilegt er að nógu langt er liðið frá tíð Reagans í bandarískum stjórnmálum. Frambjóðendur þar nyðra virðast vera óhræddir við að taka hann sér til fyrirmyndar nú, jafnvel Bush eldri einnig. Held að þeir ættu að finna sér betri fyrirmyndir, mætti ég mæla með Jefferson.

Svekkt maestra

Spænskukennarinn var svekkt í morgun vegna bágrar frammistöðu hópsins míns í spænskuprófinu. Niðurstöður berast þó ekki fyrr en á morgun.

Í tímanum í dag var rætt um mat, spurt var hvaða matur er einkennandi fyrir hin og þessi lönd. Einfalt var að finna svör fyrir lönd eins og Japan, Bandaríkin og Ítalía. Málið vandaðist nokkuð þegar röðin kom að Norðmanninum en hann bjargaði sér fyrir horn með saltfiskinum en norskur saltfiskur er vinsæll hér.

Íslendingurinn sagðist hinsvegar éta hvalket með bestu lyst. Ég er hér með orðinn óvinsælasti nemandinn í hópnum mínum.

Ráðandi söguskoðun

Ef þú drepst úr sulti og seyru í kommúnistaríki þá er það stjórnvöldum undantekningarlaust að kenna.

Ef þú drepst úr sulti og seyru í kapítalistaríki þá er það sjálfum þér að kenna, aumingi.