Spænskukennsla í þrívídd

Í spænskutímanum í dag fórum við í aðra byggingu hér í UNAM til að æfa framburðinn. Þar sem háskólasvæðið er ógnarstórt þá tók það 10 mínútur í einkarútu tungumálaskólans. Þar var okkur boðið inn í bíósal og við fengum svokölluð þrívíddargleraugu í hendurnar. Síðan voru ljósið deyfð, við setjum upp gleraugun og á hvíta tjaldinu birtist kona nokkur tölvugerð. Hún byrjaði á því að rymja einhver hljóð sem við áttum svo að endurtaka. Síðan byrjaði hún að segja nokkur orð á spænsku og við fengum greinargóða mynd í þrívídd af því hvernig munnhreyfingar hennar voru.

Þar næst hreyfði hún höfuðið aðeins til hliðar og vangi hennar varð gagnsær. Áfram hélt æfingin og nú sáum við stöðu tungunnar og kjálka þegar hún sagði nokkra vel valda spænska tungubrjóta. Aldeilis hátæknilegur spænskutími.

Svo á milli þess sem tölvugerða konan mælti á spænsku þurftum við að endurtaka undir ströngu eftirliti kennarans. Ég er enn að hlæja að því þegar Kínverjinn þurfti að segja „ferrocarril“. Svona er maður illa innrættur.

3 andsvör við “Spænskukennsla í þrívídd”

  1. Snorri

    Vá! Ég verð að komast í UNAM þegar ég flyt til Mexíkó. Mí espanol es muy malo. Jajaja.

  2. Snorri

    Vá, ég fer pottþétt í UNAM þegar ég flyt til Mexíkó. Hlakka bara til að láta af spænskulærdóminum verða. Gó PUMAS!!!

  3. Lalli

    Ég get alveg mælt með þessum skóla, færð líka 50% afslátt ef þú ert giftur Mexíkana.