Aftur á skólabekk

Ætla mætti að eftir nokkurra ára háskólanám hefði ég fengið mig fullsaddan af lærdómnum, sem er í sjálfu sér rétt. Þrátt fyrir það settist ég á ný á hinn margrómaða skólabekk í dag og hóf spænskunám hér í UNAM í Centro de Enseñanza para Extranjeros. Ég er fegin að hafa loksins haft þetta af, hef stefnt á þetta lengi en hafði engan tíma á síðasta ári með nýfætt barn og meistaraverkefni til að missa svefn yfir.

Til að komast í þennan skóla þurfti ég að taka stöðupróf. Fyrst var munnlegt próf sem gekk glimrandi vel og ég átti að sleppa við fyrsta kúrsinn, bàsico 1, í ljósi kunnáttu minnar. En ég þurfti líka að taka skriflegt próf sem gekk víst hörmulega því eftir að kennarinn sá niðurstöðurnar var ég snarlega felldur niður í byrjunarkúrsinn með skömm. Ég kann nefnilega ekki að skrifa neitt á spænsku og ruglaði meira að segja frönskunni úr fjölbraut saman við spænskuna. Einnig veit ég ekkert um spænska málfræði. Samt sem áður er það kannski fyrir bestu að byrja frá byrjun, enda tek ég þetta með vinnu þannig að ég hef ekki tíma til að leggja mjög mikið á mig.

Í þessum kúrsi eru 14 manneskjur og byrjað er algjörlega frá byrjun. Við vorum láta kynna okkur og segja hvaðan við erum. Soy de Islandia. Fyrsti Íslendingurinn sem lærir þarna svo vitað sé og vakti það vitaskuld gamalkunnug viðbrögð sem landar mínir í útlöndum kannast við. Ef ég man rétt er þarna einnig Norðmaður, Skoti, Pólverji, tveir Þjóðverjar, Ítali, tveir frá Haíti, þrír frá S-Kóreu, Kínverji og Egypti.

Þessir tímar eru nokkuð skondnir. Kennarinn, eldhress mexíkönsk kona, leikur með leikrænum tilþrifum flest orðin og það sem gerist í tímanum. Við þurfum að tala við sessunauta okkar á spænsku og vorum t.d. tekin upp að töflu í dag til að teikna þjóðfána okkar og túlka litina í þeim.

Þannig að nú byrja ég alla virka daga fram til 27. febrúar á því að læra spænsku frá 9 til 12. Eftir það tek ég líklega næsta kúrs og svo koll af kolli þar til ég verð orðinn frambærilegur í spænsku.

3 andsvör við “Aftur á skólabekk”

 1. Elías Jón

  Miðstöð vonar fyrir útlendinga. Það er ekkert smá nafn

  Gangi þér vel!

 2. Lalli

  Ertu ekki að rugla saman „esperanza“ við „enseñanza“. Það fyrra þýðir von, hið síðara kennsla. Allavega er vitrænna að tala um kennslumiðstöð fyrir útlendinga heldur en miðstöð vonar. :þ

 3. Elías Jón

  Ég las þetta sem „esperanza“.

  Þetta er ekki eins flott og þegar ég er búinn að sjá að þarna stendur „ensenanza“.