Archive for janúar, 2008

Kárahnjúkavirkjun nær að standa undir kostnaði við Þjóðkirkjuna

Athyglisverður pistill birtist á Vantrú í dag í kjölfar tilkynningar um aukna arðsemi af Kárahnjúkavirkjun. Vegna hækkunar á álverði er árleg arðsemi virkjunarinnar nú metin á 4,2 milljarða sem er mjög nálægt því sem eitt stykki ríkiskirkja kostar árlega.

Semsagt, það kostar eina Kárahnjúkavirkjun að reka þjóðkirkju á Íslandi.

Mogginn vegur að geðheilsu minni og annarra

Sú spurning hlýtur að vakna eftir að hafa fylgst með pólitískum skrifum Moggans undanfarið hvort að verið sé að gera menn geðveika með vitleysisgangi og ýmis konar rugli? Ef svo er þá er um grafalvarlegt mál að ræða þar sem að Íslendingar eru mjög stressuð þjóð sem vinnur langan vinnudag og má ekki við svona áreitni. Vill Mogginn koma öllum í veikindafrí?

Davíð þarf vinnu

Svo virðist sem að ein helsta hindrunin í vegi evrópusambandssinna á Íslandi sé Davíð Oddson. Ef Ísland fer í ESB og tekur upp evru þá verður karlgreyið atvinnulaust því Seðlabankinn fer þá á ruslahauga sögunnar. Ekki má minnast heldur á þann möguleika að taka upp evru einhliða því það hefur sömu áhrif á starfsferil Davíðs.

Að heyra Seðlabankann predika um ágæti krónunnar er nefnilega dálítið eins og að heyra Dominos segja að í pizzum séu þeir bestir.

Í stjórnarsáttmála Þingvallastjórnarinnar var sagt að hvetja ætti til opinskárrar umræðu um Evrópumálin, eða eitthvað þar um bil. Hefur einhver orðið var við aukna umræðu eftir stjórnarskiptin? Samfylkingin er stillt sem fyrr.

Reyndar ef út í það er farið, hvers vegna vill Mogginn sjá VG og íhaldið ná saman bæði í borg og landsstjórn? Eru það ekki vegna sameiginlegrar andúðar á ESB? Ekki dettur mér í hug önnur ástæða því að málefnaáherslur þessara flokka eru eins og svart og hvítt í öllum öðrum málum.

Nýi meirihlutinn í Reykjavík er frábær

Til lengri tíma litið er nýi meirhlutinn í Reykjavík frábær lending. Fyrri meirihluti var frekar vandræðaleg lausn á erfiðri stöðu, fjórir flokkar eða flokksbrot í tilgerðarlegu samkrulli sem gátu ekki einu sinni komið sér saman um málefnasamning.

Núna hinsvegar er borgin laus við Binga og hið ómögulega hefur gerst, enn verri meirihluti verið myndaður. Ef þessi nýja borgarstjórn verður jafn vond og ætla mætti þá standa vinstrimenn með pálmann í höndunum við næstu sveitarstjórnarkosningar. Mikil hætta er á því að frjálslyndir og framsókn þurrkist út 2010 og augljóst er að VG og Samfó verða mun stærri samanlagt heldur en íhaldið.

Þótt að í augnablikinu sé staðan ferleg þá er þetta það besta sem gat hent vinstrimenn í Reykjavík. Þeir þurfa bara að þrauka þolinmóðir fram að kosningum. Ég hef litla trú á samsæriskenningum þess efnis að íhaldið ætli á ný að mynda meirihluta og núverandi meirihluti sé einungis millilending og nauðsynlegt skref í átt að nýrri borgarstjórn með annað hvort Samfó eða VG innanborðs. Þvílíkur afleikur væri það hjá vinstri flokkunum að samþykkja nokkuð slíkt eftir það sem á undan er gengið.

Hvað eru peningar?

Kreppan vekur upp margar heimspekilegar spurningar. Mikið er talað um að margir skriljónkallar hafi fokið út um gluggann í hlutabréfalækkuninni undanfarið. Hvert fóru þeir eiginlega? Þegar ég tapa peningum er það yfirleitt vegna þess að ég hef eytt þeim í vitleysu. En þegar hlutabréf lækka í verði þá gufa peningarnir upp. Voru þá þessir peningar í raun og veru aldrei til? Áttu þeir sér einungis samastað í tilverunni í hugum braskara?

Mér finnst það há mér mikið hvað ég er fáfróður um hagfræði. Eitt sem ég skil alls ekki, afhverju er gull svona verðmætt? Hvað gerir maður við gull? Ekki er hægt að borða gull eða gera neitt gagnlegt úr því, það er einungis nýtanlegt í eitthvað skart og glingur. Er verðmætahugsun mannsins ekki þroskaðri en þetta? Skart er semsagt ávallt verðmætt og jafnvel verðmætara í kreppum, ef marka má stighækkandi gullverð undanfarið.

Einu sinni voru peningar á gullfæti þannig að X peningur jafngilti Y gulli. Að vissu leiti kjánalegt kerfi en þó skiljanlegra en fótalausir peningar en verðgildi þeirra byggist einungis á trausti manna á því að ríkið og seðlabanki þess hagi sér skynsamlega.

Ég rakst á mjög áhugaverða grein eftir Ron Paul, forsetaframbjóðenda repúblikana en hann virðist hafa nokkuð betri skilning á þessum málum en ég. Hann rekur þarna m.a. fall Rómarveldis og mögulegt fall Bandaríkjanna til sömu rótar eða gjaldmiðilsvandræða. Rómarveldi var háð gullinu og sífelldri ásókn þess í meira og meira gull til að standa undir „brauði og leikum“ leiddi til hruns þess þegar ekki var hægt að ná meira gulli út úr nálægum þjóðum. Sama gildir um Bandaríkin og dollarann, sterk staða dollarans sem alþjóðagjaldmiðils er meginstoð bandarísks efnahags. Að hans mati er allt stríðsbrask Bandaríkjanna á síðastliðnum áratugum rökrétt afleiðing þess að bandaríska ríkið er sífellt að verja dollarann og styrkja hann m.a. með því að ýta undir notkun hans í olíuviðskiptum. Höfuðglæpur „óvinarins“ á borð við Írak, Íran og Venesúela var sá að vilja nota evrur í olíuviðskiptum í stað dollara sem aftur ógnar veldi þess síðarnefnda.

Á dögum Aztekanna hér í Mexíkó versluðu þeir sínar nauðsynjar á stórum mörkuðum og gjaldmiðilinn var kakóbaunir. Ég held að fullkomnari gjaldmiðill sé vandfundinn, bæði nothæfur til verslunar og þegar þrengdi að á mörkuðunum þá var einfaldlega hægt að malla sér heitt kakó úr peningunum. Ekki gufuðu kakóbaunirnar upp í hallæri eins og okkar peningar.

Annars er ég ekki hress yfir því að stór kreppa virðist vera í uppsiglingu. Kreppur eru leiðinlegt fyrirbæri og geta staðið yfir árum saman með tilheyrandi atvinnuleysi, tekjuleysi, uppgangi öfgahópa og alls konar rugli. Sjæse.

Spænskukennsla í þrívídd

Í spænskutímanum í dag fórum við í aðra byggingu hér í UNAM til að æfa framburðinn. Þar sem háskólasvæðið er ógnarstórt þá tók það 10 mínútur í einkarútu tungumálaskólans. Þar var okkur boðið inn í bíósal og við fengum svokölluð þrívíddargleraugu í hendurnar. Síðan voru ljósið deyfð, við setjum upp gleraugun og á hvíta tjaldinu birtist kona nokkur tölvugerð. Hún byrjaði á því að rymja einhver hljóð sem við áttum svo að endurtaka. Síðan byrjaði hún að segja nokkur orð á spænsku og við fengum greinargóða mynd í þrívídd af því hvernig munnhreyfingar hennar voru.

Þar næst hreyfði hún höfuðið aðeins til hliðar og vangi hennar varð gagnsær. Áfram hélt æfingin og nú sáum við stöðu tungunnar og kjálka þegar hún sagði nokkra vel valda spænska tungubrjóta. Aldeilis hátæknilegur spænskutími.

Svo á milli þess sem tölvugerða konan mælti á spænsku þurftum við að endurtaka undir ströngu eftirliti kennarans. Ég er enn að hlæja að því þegar Kínverjinn þurfti að segja „ferrocarril“. Svona er maður illa innrættur.

Sviftingar í íslenskri pólitík

Flott fyrirsögn, eða hvað?

Mér skilst að það hafi aldrei gerst áður að meirihlutasamstarfi í Reykjavík sé slitið, nú hefur það gerst tvisvar á þessu kjörtímabili! Sorglegt að sjá Ólaf F. Magnússon sem hraktist úr Sjálfstæðisflokknum á sínum tíma og var kallaður talibani fyrir rangar skoðanir í umhverfismálum nú stökkva í náðarfaðminn á ný. Vinstri meirihlutinn var ekki traustur en þessi nýi verður líklega enn ótraustari.

Var þetta allt til að halda í bölvaðan flugvöllinn?

Reyndar verður manni fyrst hugsað til Samfylkingarinnar á svona dögum. Fyrst láta þeir það viðgangast að félagar þeirra í ríkisstjórn settu son Foringjans í dómarasæti, óháð því hvort að hann var hæfari en aðrir umsækjendur, nú er svo skorið undan þeim í höfuðborginni. Ætla þeir að láta sem ekkert sé eins og dyggðugir framsóknarmenn eða er einhver töggur eftir í þeim?

Svíar eru bestir

Fékk póst núna áðan frá Högskolan Skövde. Kennarinn minn var að velta því fyrir sér hvenær ég ætlaði að klára kúrsinn sem ég hætti í á haustönn 2005. Svíar eru yndislegir.

Aftur á skólabekk

Ætla mætti að eftir nokkurra ára háskólanám hefði ég fengið mig fullsaddan af lærdómnum, sem er í sjálfu sér rétt. Þrátt fyrir það settist ég á ný á hinn margrómaða skólabekk í dag og hóf spænskunám hér í UNAM í Centro de Enseñanza para Extranjeros. Ég er fegin að hafa loksins haft þetta af, hef stefnt á þetta lengi en hafði engan tíma á síðasta ári með nýfætt barn og meistaraverkefni til að missa svefn yfir.

Til að komast í þennan skóla þurfti ég að taka stöðupróf. Fyrst var munnlegt próf sem gekk glimrandi vel og ég átti að sleppa við fyrsta kúrsinn, bàsico 1, í ljósi kunnáttu minnar. En ég þurfti líka að taka skriflegt próf sem gekk víst hörmulega því eftir að kennarinn sá niðurstöðurnar var ég snarlega felldur niður í byrjunarkúrsinn með skömm. Ég kann nefnilega ekki að skrifa neitt á spænsku og ruglaði meira að segja frönskunni úr fjölbraut saman við spænskuna. Einnig veit ég ekkert um spænska málfræði. Samt sem áður er það kannski fyrir bestu að byrja frá byrjun, enda tek ég þetta með vinnu þannig að ég hef ekki tíma til að leggja mjög mikið á mig.

Í þessum kúrsi eru 14 manneskjur og byrjað er algjörlega frá byrjun. Við vorum láta kynna okkur og segja hvaðan við erum. Soy de Islandia. Fyrsti Íslendingurinn sem lærir þarna svo vitað sé og vakti það vitaskuld gamalkunnug viðbrögð sem landar mínir í útlöndum kannast við. Ef ég man rétt er þarna einnig Norðmaður, Skoti, Pólverji, tveir Þjóðverjar, Ítali, tveir frá Haíti, þrír frá S-Kóreu, Kínverji og Egypti.

Þessir tímar eru nokkuð skondnir. Kennarinn, eldhress mexíkönsk kona, leikur með leikrænum tilþrifum flest orðin og það sem gerist í tímanum. Við þurfum að tala við sessunauta okkar á spænsku og vorum t.d. tekin upp að töflu í dag til að teikna þjóðfána okkar og túlka litina í þeim.

Þannig að nú byrja ég alla virka daga fram til 27. febrúar á því að læra spænsku frá 9 til 12. Eftir það tek ég líklega næsta kúrs og svo koll af kolli þar til ég verð orðinn frambærilegur í spænsku.

1. árs

Ari Snær fagnaði sínum fyrsta afmælisdegi í gær. Við héldum upp á það heima hjá einni ömmusystur hans þar sem hún býr í rúmgóðu húsi og það kom töluvert mikið af fólki. Fyrsti afmælisdagurinn er mjög mikilvægur hér í Mexíkó þar sem hefðin er einnig að skíra börnin á þessum degi. Því fékk Ari þó nokkuð af gestum og marga pakka.

Reyndar held ég að honum hafi verið nokk sama um pakkana en hann sýndi blöðrunum sem hengdar voru upp um allt meiri áhuga. Benti á þær áhugasamur og sagði iieemh.

Margir segja við svona tímamót, „æ hvað tíminn er fljótur að líða o.s.frv.“. Ég er ekki einn af þeim, ég man varla eftir því hvernig lífið var áður en ég Ari kom í heiminn. Svo langt er síðan finnst mér, hálf eilífð. Ekki heil, það væru ýkjur.