Archive for desember, 2007

Gyllti áttavitinn

Fór að sjá kvikmyndina Gyllta Áttavitann með konunni fyrir nokkrum dögum. Svo sem ágæt mynd þótt að Harry Potter heilkennið sé dálítið áberandi, þ.e. verið er að segja frá of mörgu á of stuttum tíma. Sverrir hefur örugglega gaman að þessari mynd, ekki oft sem að góður hluti kvikmyndar gerist á Svalbarða.

Fylgst með pakkanum

Við sendum pakka til Íslands með jólagjöfum nú á þriðjudaginn með UPS en það fyrirtæki býður upp á þá þjónustu að sendandinn getur fylgst með ferðum pakkans á Netinu. Þessi pakki er búinn að fara víða. Fyrst fór hann héðan til Louisville í Kentucky ríki, Bandaríkjunum. Það tók reyndar tvo daga fyrir pakkann að ná þangað, var þar kominn á fimmtudeginum. Eftir það tók hann góðan sprett til Köln* í Þýskalandi og þaðan til Keflavíkur, náði þangað núna í morgun.

Ég hef því ágæta von um að hann nái út á Snæfellsnes fyrir eða á 24. desember. Við sjáum hvað gerist.

*Á maður að skrifa Kölnar?

Lazy-Boy frjálshyggjumenn

Stundum heyrir maður talað á óvirðulegan hátt um svokallaða sófakomma. Ekki veit ég nákvæmlega hvernig þeir eru skilgreindir nákvæmlega en líklega er átt við vinstri menn sem rausa stöðugt um pólitík en nenna ekki að standa í byltingarstússi.

Hvernig ætli sé þá best að uppnefna þá frjálshyggjumenn sem virðast ekki geta unnið fyrir sér og eru á ríkisspenanum alla sína hundstíð? Lazy-Boy frjálshyggjumenn?

Er það í alvöru ekkert mál fyrir þessa kalla að láta hugsjónirnar lönd og leið þegar feit embætti á vegum ríkisins eru í boði? Kannski ekki skrítið þegar haft er í huga að þetta eru mennirnir sem upphefja græðgina sem gott og gilt þjóðfélagsafl.

PS. Hægt er að setja inn athugasemdir á ný, þökk sé Óla.is.

Snillingar

Víða er pottur brotinn í Mexíkó en þeir mega eiga það að þeir kunna að taka jólafrí. Ég er semsagt kominn í jólafrí frá og með deginum í dag og fer ekki aftur í vinnuna fyrr en 7. janúar. Mér finnst það bara ágætt.

Á morgun ætlum við Anel að halda dálítið hóf í tilefni þess að nýja tannlæknastofan hennar er nokkurn veginn tilbúinn. Það verður haldið í World Trade Center á 36 hæð, þar sem stofan er staðsett og eftir það verður haldið á Skybar sem staðsettur er á topp byggingarinnar. Líklega er það 46 hæð, ég er ekki alveg klár á því.

Meistari Lárus

Í gær fékk ég póst frá Högskolan Skövde, þykkt pappaumslag sem innihélt prófskírteinið mitt eða „Examensbevis“. Þar kemur fram að ég: >

uppfyller kraven för följande examen i enlighet med högskoleförordningen (1993:100)

FILOSOFIE MAGISTEREXAMEN
med huvudämnet molekylärbiologi

Ég hef því formlega lokið meistaranáminu. Á þessu ári hef ég því eignast barn og meistaragráðu. Því ríkir endalaus gleði á mínu heimili þessa dagana.

Sprautur og spilling

Ari fékk flensusprautu í gær og grenjaði ekki yfir því. Þar áður þegar hann fékk bólusetningarsprautu grét hann heldur ekki neitt. Ég held að þetta barn sé í óvenju góðu jafnvægi.

Það nýjasta er að hann kann að veifa fólki núna. Reyndar finnst honum það svo skemmtilegt að hann veifar ókunnugu fólki út á götu. Hann er einnig næstum kominn með það á hreint hvernig á að skríða en kýs þó heldur að mjaka sér um á maganum enn um sinn.

Í dag er drengurinn 11 mánaða sem þýðir að ég hef ekki sofið í 11 mánuði. Hvenær læra þessi börn að sofa á næturnar?

Bleikt og blátt

Til að vera pólitískt kórréttur í dag þá ætla ég að segja frá því að mér finnst það ósköp kjánalegt að gera athugasemdir við hvernig nýfædd börn eru klædd á fæðingardeild. Hvað þá að taka málið upp á Alþingi.

Síðustu geirfuglarnir

Tveir þjóðfélagshópar á Íslandi virðast undanþegnir almennum kurteisisreglum þegar um þá er rætt opinberlega. Þetta eru trúleysingjar annars vegar og jafnréttissinnar hins vegar, oft nefndir femínistar. Svo virðist sem að „everything goes“ þegar um þetta fólk er rætt og heiftin er oft hrikaleg. Jafnvel Agli Helga, sem hefur átt sinn skammt af gífuryrðum í garð trúleysingja, ofbýður hvernig rætt er um femínista. Svarhalinn í bloggi hans sýnir vel við hvað er að eiga. Þar birtast mannvitsbrekkurnar hver á eftir annarri og tala um „femínasista“ sem virðast vera að leggja líf þeirra í rúst ef marka má þessi heiftúðlegu viðbrögð.

Undanfarið hefur Siðmennt, samtök siðrænna húmanista, verið harðlega gagnrýnd af ríkiskirkjunni fyrir að vera „hatrömm samtök“ sem vilja eyðileggja jólin fyrir börnunum o.s.frv. Það má segja að hálfgerð rógsherferð hafi verið í gangi gegn þessum samtökum, byggð á helberum og ófyrirleitnum lygum. Ef þetta væri ekki svona ógeðfellt þá væri þetta að sjálfsögðu bráðfyndið. Húmanistar eru eitthvað það besta og meinlausasta fólk sem þessi jarðarkringla hefur getið af sér á meðan saga Kirkjunnar er ekki einungis blóði drifin heldur gjörsamlega á floti í líkamsvessum og innyflum fórnarlamba sinna. Glæpur húmanista er að fara fram á jafnræði í skólastarfi og frið frá trúboði í opinberum skólum.

Svo virðist sem að ekkert fari meir í taugarnar á íhaldspungunum heldur en skýrar kröfur um jafnrétti, hvort sem það kemur frá húmanistum eða femínistum. Jafnrétti er eitur í beinum þeirra sem vilja halda í sín forréttindi og bregðast ókvæða við öllum tilraunum til að minnka misréttið. Þetta eru sömu týpurnar og hér áður fyrr börðust á móti ákvæðum um trúfrelsi í stjórnarskránni, (þar sem að sjálfsögðu er einungis til ein rétt trú sem allir ættu að hafa) og skildu ekki afhverju konur og fátækt fólk ættu að fá kosningarétt.

Sem betur fer er trúfrelsi og kvenfrelsi að sækja í sig veðrið og andstæðingum þess fækkar stöðugt, einfaldlega vegna þess að þeir geispa golunni og yngri kynslóðir eru yfirleitt umburðarlyndari og víðsýnni en þær eldri. Slagurinn er því fyrirfram tapaður fyrir afturhaldið og líklega vita þeir það best sjálfir. Gæti útskýrt orðaval þeirra og heiftina sem af þeim drýpur, þetta er dauðastríð þeirra og úreltra lífsskoðana. Þá er yfirleitt öllu til tjaldað áður en yfir lýkur.

Reynir Traustason – Ósnotur maður með hatt

Ef ég hef einhvern tímann verið í vafa um að DV sé frekar ómerkilegur pappír, sóun á trjám og prentsvertu, þá hvarf sá vafi í dag þegar ég sá þennan leiðara eftir Reyni Traustason. Þar eru trúleysingjar kallaðir siðblindingjar, rugludallar haldnir hættulegum órum og þeir vilja einnig nauðga lýðveldinu.

Margt fleira kemur þarna fram í þessum stutta leiðara, uppáhaldið mitt er að trúin sé það lím í samfélaginu sem skilur Íslendinga frá því að vera villimenn. Það er ekkert annað.

Ætli Reynir hafi rekið nefið í smyglvarninginn sinn?

Félagar!

Ágætu kommúnufélagar. Hunskist til að hreinsa spamið í kommentakerfi ykkar. Þetta á sérstaklega við um Jakob. Kerfið þolir illa svona mikið af rusli.