Archive for nóvember, 2007

Hækkandi hressleikastuðull

Fékk einhverja bölvaða pest á föstudaginn og fyrst í dag er ég að skána aftur. Alltaf góð tilfinning þegar þessar pestir eru á förum. Veikindi kenna manni að meta það að vera heilbrigður.

Zacango dýragarðurinn

Setti inn nokkrar myndir úr dýragarði hér nálægt Mexíkóborg.

Yfirmaður

Mér dettur í hug að skipta „ráðherra“ út fyrir „yfirmaður“. Þá verði til yfirmaður dómsmála, yfirmaður heilbrigðismála, yfirmaður samgöngumála o.s.frv. Það væri líka í samhljómi við orðið „þingmaður“. Eina vandamálið sem ég sé við þetta er forsætisráðherra, ég veit ekki hvernig ætti að ávarpa hann.

Ef það byrjar eitthvað bull um að konur séu ekki menn þá vísa ég því á bug. Maður á íslensku er ekki það sama og orðið „man“ á ensku, bölvuð enskuáhrif að hrella okkur þar. Menn skiptast í tvö kyn, karla og konur.

Jæja, þá er ég búinn að leysa þetta mál. Afhverju er ég ekki álitsgjafi á einhverjum fjölmiðli?

Vinstrimenn og múslimar

Oft sér maður á misvitrum bloggsíðum að vinstrimenn séu alltaf að sleikja sig upp við múslima, jafnvel hina svokölluðu „íslamista“ í nafni fjölmenningar og sameiginlegrar andúðar á vestrænum gildum. Mér finnst að mér vegið sem nokkurs konar vinstrimanni. Fátt finnst mér jafnt aumkunarvert og fólk sem heltekið er af trúarkreddum fornaldar, hvort sem um er að ræða hindúa, kristna eða múslima. En kannski vegna þess að vinstrimenn hafa betri skilning á umheiminum þá gera þeir sér grein fyrir því að hann er ekki svart-hvítur. Því forðast þeir alhæfingar um illa „íslamista“ sem ætla sér það eitt að nauðga konum á Vesturlöndum og ná þar völdum með því að eignast svo mörg börn að öll lönd gangi að lokum íslam á hönd.

Múslimar eru u.þ.b. milljarður manna. Sumir aðhyllast einhverja útgáfu af þjóðkirkju-íslam, þ.e. er nokkurn veginn sama um trúna, þetta er bara ákveðin hefð. Aðrir eru kolklikkaðir talibanar sem er ekki viðbjargandi. Flestir eru líklega þarna á milli.

Sá múslimi sem ég þekki best er mikill áhugamaður um þungarokk og fagurt kvenfólk. Ég efast um að hann hafi nokkurn áhuga á því að troða íslam upp á Vesturlönd. Hann gafst t.d. upp á því að halda Ramadan hátíðlegt, var of mikið vesen. En hann borðar ekki skinku, kannski finnst einstaka þjóðernissinna að sér vegið vegna þess framandi siðar.

Þetta blogg er komið út í rugl. Ég er allavega orðinn þreyttur á þessu röfli um að vinstrimenn séu bestu vinir „íslamistanna“. Kannski liggur vandinn í því að þeir taka múslimum sem jafningjum sem fer í taugarnar á kristilegum rasistum. Ég veit það ekki.

Hvað á best við þig?

Sá netpróf á Púkablogginu sem mér fannst athyglisvert. Það greinir á hávísindalegan hátt viðhorf til trúar með prósentureikningi. Prófið má taka hér og þetta var mín niðurstaða.

1. Secular Humanism (100%) 2. Unitarian Universalism (92%) 3. Nontheist (84%) 4. Liberal Quakers (74%) 5. Theravada Buddhism (70%) 6. Neo-Pagan (59%) 7. Mainline to Liberal Christian Protestants (58%) 8. Taoism (53%) 9. New Age (44%) 10. Orthodox Quaker (40%) 11. Reform Judaism (40%) 12. Mahayana Buddhism (39%) 13. Jainism (32%) 14. Bahá’í Faith (29%) 15. Scientology (25%) 16. Sikhism (24%) 17. Mainline to Conservative Christian/Protestant (24%) 18. Seventh Day Adventist (23%) 19. Islam (23%) 20. Orthodox Judaism (23%) 21. Church of Jesus Christ of Latter-Day Saints (Mormons) (22%) 22. New Thought (22%) 23. Christian Science (Church of Christ, Scientist) (17%) 24. Hinduism (14%) 25. Eastern Orthodox (13%) 26. Roman Catholic (13%) 27. Jehovah’s Witness (5%)

Kom mér á óvart að ég skuli frekar teljast húmanisti frekar en trúlaus. Greinilegt að ég þarf að sækja um aðgöngu að Siðmennt þegar ég flyt aftur á klakann. Annars botna ég lítið í þessu tölum, ég er t.d. 14% hindúi. Hvað af hindúisma á ég samleið með? Og 44% nýaldarsinni! Guð hjálpi mér.

Fór og las mér aðeins til um Unitarian Universalism fyrst að ég að heita 92% þannig, skoraði mun hærra en guðleysið sem fékk einungis 84%. Ég hugsa að íslenska þjóðkirkjan gæti endað svona einn góðan veðurdag. Þarna er trúin orðin svo útþynnt og persónuleg að þeir bjóða upp á námskeið, „búðu til þína eigin guðfræði“. Einnig skiptir litlu á hvað þú trúir, bara að það sé eitthvað.

Jæja, líklega er það betra en að umskera börn og boða að trúvillingar séu óvinurinn. Það væri kannski reynandi að stofna svona trúfélag á Íslandi sem væri laust við allar kreddur.

Hreinsað til

Líklega telst ég frekar ófélagslyndur maður, mér er hálfilla við alla félagastarfsemi. Ég er með sterka fóbíu fyrir stjórnmálaflokkum t.d. og get varla hugsað mér að skrá mig í slíkt fyrirbæri. Þetta ófélagslyndi birtist einnig á Netinu þar sem ég vil helst ekki skrá mig á svona vefi þar sem menn safna vinum og kynna sig fyrir heiminum. Reyndar lét ég plata mig til þess að skrá mig á hi5.com og wayn.com en ég sá strax eftir því.

Það fylgja þessu bara leiðindi. Endalausir tölvupóstar um að vinur vinar vinar þíns hafi verið að blogga og viðra hundinn sinn, um að eitthvað fólk frá Cleveland er að koma í heimsókn til Mexíkóborgar og að eitthvað hyski hafi verið að skoða síðuna þína og litist alveg ljómandi vel á. Hverjum er ekki sama?

Í dag tók ég mig til og eyddi þessum skráningum auk þess að riddarinn minn á knightfight.co.uk fékk að fjúka líka. Hann varð til við skýrslugerðir einhvern tímann í Skövde þegar þýskur félagi minn vildi endilega skrá mig svo að hann fengi 300 gullpeninga í bónus.

Það kemur ekki til greina af minni hálfu að skrá mig á mæspeisið en ég verð að viðurkenna að feisbúkk lítur dálítið skemmtilega út. Konan mín er þegar skráð, bætið henni við þeir sem hana þekkja. Kannski læt ég undan gríðarlegum félagslegum þrýstingi bráðum þar sem ég er alltaf að fá tölvupósta frá fólki sem vill verða vinur minn ef ég skrái mig. Hver vill ekki eiga vini?

Bænaganga

Varðandi þessa furðulegu semi-fasísku bænagöngu sem haldin var síðustu helgi á Klakanum langar mig að benda á Gambrann, Hnakkus og Matta þar sem einnig má finna myndir. Einnig er áhugavert að skoða þetta blogg hjá Margréti Hafsteinsdóttir þar sem nú eru yfir 250 athugasemdir. Ég hef engu við þetta að bæta.

Það er vægast sagt grátlegt að ákveðnir guðfræðinemar skuli sjá þetta sem merki þess að Ísland sé helgað Jesú Kristi um aldir alda, amen. En hugarlendur þess trúaða eru ávallt mikill frumskógur sem erfitt er að rata um.

Sorglegt að íslensk trúfélög virðast hafa loksins fundið sinn sameiningargrundvöll, hommahatur.

Bókmenntafræðingur?

Er þetta ekki örugglega bókmenntafræðingur sem skrifar svona?

Það er von að spurt sé, því enn þann dag í dag eru það raunvísindin sem segjast hafa umboð til að skýra út heiminn og í krafti raunvísindanna eru enn í dag unnin mikil spjöll á umhverfinu og náttúrunni. Við þurfum ekki að horfa lengra en til íslenska hálendisins til þess að fá samsvörun því með því að mæla náttúruna af offorsi leggur maðurinn hana undir sig. #

Kannski er þetta eitthvað grín, ef svo er þá er þetta hreinlega ekkert fyndið.

Hjarðeðli og hópsálir

Það er óhætt að mæla með bloggsíðu Sverris Stormskers, sérstaklega þessu hér.

Íslenskur húsnæðismarkaður

Sá þetta á Eyjunni.

Meðalverð á 130 fermetra íbúð í Reykjavík 2004 var um 17 milljónir, segir í samantekt Morgunblaðsins. Bankarnir buðu þá 4,15% vexti og hægt var að fá 90% lánsupphæðarinnar á þeim vöxtum. Nú, aðeins þremur árum síðar, er sams konar íbúð seld á yfir 33 milljónir. Vextirnir eru komnir upp í 6,4% hjá Kaupþingi og líklegt að aðrir bankar fylgi í kjölfarið. Fólk sem vildi eignast slíka íbúð hefði kannski komist af með 15 milljóna króna lán fyrir þremur árum og hefði þá borgað 51.875 krónur á mánuði í afborganir. Nú þarf fólk að taka 30 milljóna króna lán til að kaupa sömu íbúð og vextirnir eru komnir upp í 6,4%. Mánaðargreiðsla af slíku láni er 173.994 kr. Á þessu tímabili hafa laun hækkað um 28,7%. Hærra verð og hækkandi vextir og þar af leiðandi hærri greiðslubyrði leiða til þess að sífellt erfiðara verður fyrir fólk að standast greiðslumat. Sífellt meira er um að fólk flytji lánin með sér þegar það kaupi nýtt húsnæði. Það þýði að staða þeirra sem kaupa sína fyrstu íbúð hefur versnað enn frekar. Þeir þurfa ekki bara að kaupa dýrari íbúðir á hærri vöxtum heldur geta þeir ekki treyst á að geta yfirtekið gamalt lán á hagstæðari vöxtum.#

Held að við séum ekkert á leiðinni heim til Íslands í bráð. Þetta er bara rugl og verðið er ekki í samræmi við neinn veruleika. Fleiri tugir milljóna fyrir lítinn steinkassa í Reykjavík, frekar kaupi ég mér einbýlishús á ströndinni við Cancun. Sem er að auki ódýrara.