Archive for október, 2007

Endurútgáfa Tíu Lítilla Negrastráka eðlilegt framhald klámvæðingarinnar?

Það er hreint út sagt dásamlegt á stundum að lesa fréttir af því hvað ber helst til tíðinda á Íslandi. Frónverjar ættu að hafa það í huga hvílík forréttindi það eru að geta haft áhyggjur af því hvort að tveggja ára börn séu í bílstól í umferðinni, sótt minningarathöfn um látna hunda og hvort að barnabækur innihaldi misvísandi siðferðisboðskap. Flestar aðrar þjóðir gæfu mikið fyrir að hafa þessi vandamál.

Mín skoðun á Tíu Litlum Negrastrákum er sú að hér er um eðlilegt framhald klámvæðingarinnar að ræða sem nú tröllríður hinum siðlausa vestræna heimi. Skoðum eftirfarandi vísu.

Fimm litlir negrastrákar héldu að þeir væru stórir einn þeirra fékk á hann en þá voru eftir fjórir.

Ekki gæti ég lesið þetta kvæði fyrir hann Ara minn án þess að hlæja mikið. Kannski er það bara minn innri dóni.

En þegar þetta er sett í eðlilegt samhengi við íslenska alþýðuljóðlist þá er ekki svo fjarstæðukennt að lesa eitthvað klúrt út úr þessari vísu. Íhugum eftirfarandi orð Megasar í laginu „Borðið þér orma frú Norma?“.

Ramses annar hann var alltaf að heiman eiginkonan fékk varla að sjá hann en hann eignaðist á flakkinu áttatíu börn hann fékk allverulega, sem maður segir, á hann það er oft þannig þegar maður á annað borð er kominn af stað

Semsagt, Tíu Litlir Negrastrákar eru því rasískar bókmenntir með klámfengnum undirtón. Ég legg hér með til að kvæðinu verði breytt í Tíu Lítil Grjón svo að kynjasjónarmiðin séu virt og til að hægt sé að gera lítið úr öðrum þjóðfélagshópum en negrum, okkur hinum og börnunum okkar til ánægju og yndisauka.

100 $

Það er spurning um að opna veðbanka og bjóða mönnum að veðja uppá hvenær olíutunnan fer yfir 100 dollara. Hvað ætla fréttaskýrendur annars að hanga lengi í skýringum á borð við „óvissuástand í samskiptum við Íran“ og „vont veður í Nígeríu“ til að útskýra þessar hækkanir? Er ekki einfalda skýringin sú að eftirspurnin er mun meiri en framboðið? Líklega er „peak-oil“ að nálgast mun skjótar en menn ætluðu fyrst.

Nýjar myndir

Ari og Frelsisstyttan

Síðan Stína frænka kenndi Ara að vera stór upplifir hann sig stóran hvar sem er, meira að segja í New York.

Var semsagt að ljúka við að setja inn myndir frá Íslandsferð okkar auk fleiri mynda frá Mexíkó. Hef ekkert sett inn síðan um miðjan júní þannig að tími var til kominn að bæta aðeins við myndasafnið. Myndirnar má sjá með því að smella á „myndir“ hér í hausnum að ofan.

Við störf

Byrjaði í vinnunni í gær. Hef reyndar gert lítið hingað til nema að rifja upp hvurn skremilinn ég var að gera hér áður en ég fór í fríið. Ég hef augljóslega verið duglegur að fylla tölvuna hans stjóra af ýmsum real-time PCR gögnum sem ég botna ekkert í lengur. Þessi mastersgráða mín hefur lítið gert fyrir heilabúið en þó mun meira fyrir egóið.

Fróður leigubílsstjóri frá Frönsku Kongó

Þegar við vorum í New York nýverið hittum við áhugaverðan leigubílsstjóra. Hann keyrði okkur frá JFK flugvellinum upp á hótelið á Manhattan og það kjaftaði á honum hver tuska alla leiðina. Ég spurði hvort hann væri frá NY en honum fannst það fráleit spurning. „Hljóma ég eins og Kani“ spurði hann. Reyndar hafði hann þykkan hreim og svo byrjaði hann að babla eitthvað á spænsku og frönsku. Svo sagði hann okkur að giska hvaðan hann væri. Við stungum upp á nokkrum löndum í Rómönsku Ameríku; Haíti, Franska Gvæjana, Kúba en án árangurs.

Að lokum gaf hann það upp. Hann var frá Frönsku Kongó í Afríku eða Vestur Kongó sem ekki má rugla saman við Belgísku Kongó eða Saír. Verð að viðurkenna að ég þekkti ekki þetta land fyrir.

Leigubílsstjórinn okkar reyndist tala mörg fleiri tungumál, grísku, ítölsku, swahili og einhver fleiri. Sprenglærður var hann að auki með doktorsgráðu í mannfræði og hann var lögfræðingur í þokkabót. Mér fannst það skrítið að svona mikill kappi æki leigubíl í New York en þá kom það á daginn að hann hafði fína stöðu á einhverri mannfræðistofnun. Leigubíllinn var aukavinnan sem hann gripi í þegar hann vildi þar sem hann átti leigubílinn sjálfur. Hann sagði að leigubíllinn væri líka rannsóknartæki fyrir hann þar sem hann hitti mikið af ólíku fólki við störf sín sem væri áhugavert fyrir mannfræðing.

Fleira sagði hann markvert, sonur hans var í doktorsnámi í Kænugarði í Úkraínu í eðlisfræði. Hann sagði að yfirvöld í Vestur-Kongó sendi bestu námsmenn sína til Evrópu eða N-Ameríku í nám þeim að kostnaðarlausu. Svo var konan hans í doktorsnámi í örverufræði og var við rannsóknir á smitsjúkdómum í V-Afríku.

Mér fannst þessi leigubílsstjóri einhver sá athyglisverðasti maður sem ég hef rekist á lengi.

Gamall vinnufélagi handtekinn

Þegar ég renndi yfir þennan lista sá ég að einn þeirra sem var handtekinn í tengslum við stóra smyglmálið á Fáskrúðsfirði er gamall vinnufélagi minn. Sá drengur var ofvirkur og mjög tæpur karakter, ég lenti oft í útistöðum við hann á sínum tíma. Einhvern veginn vissi ég þá að hann ætti að fara beina leið í ræsið. Sumum er ekki einfaldlega viðbjargandi.

Aðeins í Ameríku

Ooh hoo! I got the job. I got the job. Only in America can I get a job. Homer Simpson

Svo virðist sem að ég hafi fengið vinnu hér í Mexíkó á sama stað og ég vann lokaverkefnið mitt. Launin væru frekar léttvæg heima á Íslandi en hér eru þau líklega um tíföld verkamannalaun eða meira. Ég er mjög sáttur við þau, duga allavega fyrir salti í grautinn og til að borga niður skuldirnar.

Starfið felst í hávísindalegum rannsóknum í sameindaerfðafræði tanna, enda er rannsóknarstofan staðsett í tannlæknadeild UNAM. Svo er allavega ein grein í deiglunni út frá niðurstöðum meistaraverkefnisins. Mér líst bara vel á þetta.

Uppgangur Samfylkingarinnar

Gaman var að frétta af borgarstjórnarskiptunum í Reykjavík og léttir fyrir borgarbúa að Volgi Spillti Villi sé kominn út í kuldann. Vona að þetta blessist allt hjá nýjum meirihluta en hann verður óneitanlega tæpur samsettur úr fjórum flokkum eða flokksbrotum.

Mér finnst athyglisverðast í hinu stóra samhengi hlutanna hvernig kratarnir hafa sótt í sig veðrið undanfarin misseri. Fyrir um ári síðan var búið að rústa R-listanum og Sjálfsókn tekin við í borginni á sama tíma og hún réði lögum og lofum á landinu. Kannanir bentu til þess að Samfylkingin ætti eftir að renna á afturendann í þingkosningum og margir vildu að Solla viki úr formannsstólnum.

Núna hinsvegar eru kratarnir komnir aftur með borgarstjórastólinn og sitja sællegir í ríkisstjórn. Mér finnst þetta góður árangur hjá ekki merkilegri flokki.

Heima

Við komum heim til Mexíkó þann 9. okt. Sváfum svo öll í u.þ.b. 14 klst eftir kvöldskattinn, gjörsamlega úrvinda. Síðan þá höfum við verið að erindast vegna nýju tannlæknastofunnar sem Anel er að fara að opna á mánudaginn. Í gær komu tveir tæknimenn og settu upp tannlæknastólinn þannig að þetta er allt að smella saman. Ég hafði aldrei getað ímyndað mér hversu mikið mál það var, tók um 8 klst enda kom gripurinn í ótal mörgum kössum.

Hvað um það, þetta frí var mjög gott og gaman að sjá fólkið heima á ný. Bloggið hefur legið að mestu niðri undanfarinn mánuð og ég hef líklega ekki bloggað minna síðan ég byrjaði á þessum óskunda. Það stendur allt til bóta.

Myndasafnið hefur ekki verið uppfært lengi en ég vonast til að ég geti sett inn myndir úr fríinu á næstu dögum auk annarra mynda héðan frá Mexíkó.

Annars erum við öll hress og það var gott að koma heim. Næstu dagana verðum við líklega í því að flytja tannlæknastofuna hennar Anelar upp í World Trade Center hér í Mexíkóborg. Þar verður hún með stofu á 36 hæð, reyndar gluggalausa en hægt er að gægjast út um gluggann á næstu stofum og útsýnið er vægast sagt frábært. Það verður því nóg að gera næstu daga.

Við viljum þakka öllum þeim heima fyrir sem tóku vel á móti okkur. Vonandi sjáumst við aftur sem fyrst.

Farvel

Á morgun förum við aftur heim til Mexíkó, reyndar með fjögurra daga stoppi í New York. Þetta frí okkar hefur liðið ótrúlega hratt því mér finnst ég ekki hafa verið hér í tæpan mánuð. Ég hefði viljað hitta fleiri vini og ættingja en tíminn hljóp einfaldlega frá okkur. Sjáum ykkur vonandi næst þegar við komum eða þá að við hittumst í Mexíkóborg.

Segi nánar frá þessu fríi okkar síðar en núna er mál að halla sér. Góðar stundir.