Archive for september, 2007

Á Íslandi

Er á Íslandi, hef haft það náðugt undanfarið. Verð í bænum eitthvað í næstu viku og þarnæstu helgi. Þeir sem vilja ná í mig geta hringt í gemsann hennar mömmu, ég fékk hann lánaðan meðan ég er á landinu. Númerið er 8495625.

Lítið að frétta af okkur, New York var stór og það er kalt á Íslandi. Er að klára síðasta atriðið í mastersvörninni þessa dagana sem er að gagnrýna lokaritgerð hjá samstúdent. Þá verður þessu námi víst endanlega lokið.

Mikið er annars allt dýrt á Íslandi, ég svitna þegar ég sé verðlagið og Anel heldur að ég sé að gera grín þegar ég umreikna krónurnar yfir í pesóa. Ef það væri eitthvað gert í því máli þá væri Ísland mun betri staður til að lifa á.

Farinn í fríið

Eftir um tvo tíma leggjum við af stað út á flugvöllinn hér í Mexíkóborg. Stefnan er tekin á New York og á laugardaginn förum við svo til Íslands. Verð líklega í stopulu netsambandi næsta mánuðinn eða svo. Hringið í mig ef þið viljið bjóða mér í kaffi á klakanum. Sæl að sinni.

Árás á Íran yfirvofandi?

Ljótt er ef satt er. Það verður fagnað á mínu heimili þegar W fer úr forsetastóli. Sama þótt að kartöflupoki yrði settur í staðinn, það væri strax skárra.

Ný grein á vald.org

Ég minntist á það um daginn að Jóhannes Björn sem heldur úti síðunni Vald.org hafði á réttu að standa um hrun bandaríska fasteignamarkaðsins, spáði fyrir um það fyrir löngu síðan. Komin er ný grein frá kallinum og hann er ekki bjartsýnn á framhaldið.

„Það er frekar auðvelt að sjá að bandaríski fasteignamarkaðurinn á eftir að halda áfram að lækka í langan tíma. Skoðað í sögulegu samhengi þá er verðið víðast enn allt of hátt. Hlutfall á milli húsnæðisverðs og leigu er rangt. Skuldir einstaklinga eru allt of háar og kaupið þokast ekkert upp hjá þorra fólks. Orkukostnaður hefur hækkað verulega og heilsutryggingar æða fram úr eðlilegum verðbólgukostnaði. Vegna veðurfars er orðið fáránlega dýrt að tryggja hús á svo til allri suður- og suðausturströndinni. Mikið magn ruslalána er á leið í vanskil á næstu 18 mánuðum og nauðungaruppoðum [sic] fjölgar mikið. Það setur pressu á allt húsnæðisverð á markaðinum. Við allt þetta bætist að bankakerfið lánar ekki nema pottþéttu fólki á næstunni og úthýsir þannig fjölda einstaklinga sem annars hefðu viljað kaupa sér þak yfir höfuðið.“

Það er nefnilega það. Bráðum fara blankir Kanar að streyma til Mexíkó í leit að atvinnu. Það verður áhugavert að sjá hvort að Vald.org hafi rétt fyrir sér á ný.

Múhameð teiknaður á ný

Þeir sem teikna myndir af Múhameð spámanni eru líkt og litlir sveitadrengir sem gera sér það að leik að pissa á rafmagnsgirðingu. Viðbrögð strangtrúaðra múslima eru jafn fyrirsjáanleg eins og kynfæra raflostið sem rafmagnsgirðingin býður skinnsokks-skvetturum uppá. Þau eru líka álíka ánægjuleg, geri ég ráð fyrir. Ég prófaði þetta aldrei í sveitinni og geri ekki ráð fyrir því að gera það héðan í frá.

Nú er það ótrúlega heimskulegt að gera veður út af því að einhver sé teiknaður, hvað þá einhver sem legið hefur í gröf sinni frá því á sjöundu öld e.o.t. En það er líka ekki sérstakt greindarmerki að gera sér það að leik að æsa upp fólk, einungis til að gera það æst. Það á ekki eftir að hjálpa til við að bæta samskiptin við heim múslima, sem hafa farið hríðversnandi undanfarin ár.

Samt er þetta mál svo undarlegt að öllu leiti, t.d. afhverju eru múslimar á Norðurlöndunum alltaf svona æstir yfir þessum myndbirtingum. Afhverju heyrðist ekkert þegar Múhameð birtist í South Park t.d?

Allt þetta mál er kjánalegt hvernig sem á það er litið. Ég nenni ekki að blogga um þessa vitleysu meir. Það eru alvöru vandamál í heiminum sem þarf að takast á við. Óþarfi að búa til fleiri úr engu.