Archive for ágúst, 2007

Góð grein á Vísi

Það er fínasta grein á Vísi um ástandið á bandaríska fasteignamarkaðnum. Höfundurinn, Joseph Stiglitz, fékk Nóbelinn í hagfræði 2001 og veit því kannski eitthvað um hvað hann er að tala.

Krónan og Evran

Fréttir að heiman herma það að gengi krónunnar hafi lækkað um 13% á síðustu vikum. Meðan að ég fæ tekjur í erlendri mynt þá er ég sáttur við það. Þetta gæti haft þau áhrif að Íslendingar sjái Evrópusambandið í jákvæðara ljósi en fyrr. Meðan að uppsveiflan var í gangi var lítil ástæða til að ganga í þetta samsærisbandalag kapítalista eða velferðarbákn sósíalista, skilgreiningin fer eftir því af hvaða væng stjórnmálanna ESB andstæðingurinn er.

Núna þegar vægi sjávarútvegs og landbúnaðar minnkar með hverju árinu og krónan hringlar til og frá vegna bágrar efnahagsstjórnunar þá verður Evruland bærilegri tilhugsun fyrir marga.

Það háir annars umræðunni heima að fólk veit almennt ekki mjög mikið um Evrópusambandið og hvernig andstæðingarnir hika ekki við að beita barnalegum sleggjudómum, sem oftar en ekki eru út í loftið. ESB hefur stundum verið líkt við Sovétríkin og Þriðja ríkið af forsprökkum Heimssýnar, bara bæði kommúnismi og nasismi í einum pakka! Samsæriskenningarnar hljóða á þá leið að Evrópusambandið sé risavaxið gerræðislegt alltumlykjandi velferðarkerfi, eins og gamla Sovét, eða þá að Þjóðverjar séu loksins að taka yfir Evrópu og uppfylla þannig draum Hitlers heitins.

Hvernig á að vera hægt að ræða af einhverju viti um Evrópumál við menn sem hanga í þessum skoðunum? Ég tek það fram að Heimssýn hefur einnig stundum bent á alvöru galla við aðild að ESB enda er það ófullkomið eins og öll mannanna verk. Ég er þó kominn á þá skoðun að aðild sé gott mál og helst ættu eftirstandandi EFTA þjóðir að sameinast um aðildarviðræður.

Hér áður fyrr var fólk ekki öruggt um það hvernig ESB ætti eftir að þróast eða hvort að evran ætti eftir að verða stöðugur gjaldmiðill. Nú er það orðið nokkuð ljóst að ESB hefur lukkast vel og evran verður stærsti gjaldmiðill heims innan nokkurra ára, ef óvæntar hörmungar verða ekki. Því ætti vafamálum í sambandi við ESB-aðild að hafa fækkað.

Að minnsta kosti væri hægt að hefja aðildarviðræður og leggja svo samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Enginn getur haft neitt á móti því. Þá væri loksins hægt að sjá nákvæmlega hvað ESB-aðild ætti eftir að hafa í för með sér í stað þess að fólk sé matað á hræðsluáróðri frá mönnum sem sjálfir eru fastir í sínum kreddum á borð við þjóðernishyggju.

Konungur Moggabloggsins

Sagan um það hvernig Bolur Bolsson vann konungsríki Moggabloggins á einni viku er fyndin lesning. Það er einnig skondið að lesa kommentin undir afhjúpuninni, sumir virðast vera reiðir yfir þessu uppátæki. Húmorsleysi er reyndar útbreidd plága.

Vald.org og spádómarnir

Stundum kom það fyrir að ég kíkti á Vald.org og las pistla í spádómsstíl um kreppuna framundan, upptök hennar og ástæður. Sá vefur hefur verið í fríi undanfarna mánuði en á víst að snúa aftur í september.

Mér fannst þessi vefur áhugaverður en ég tók alltaf mátulega mark á þessum spádómum. Kenningin var semsagt sú að eftir að sápukúlan á bandaríska fasteignamarkaðinum ætti eftir að springja eða hjaðna og það ætti eftir að draga fjárfesta og fjármálafyrirtæki niður vegna óhóflegra lánveitinga til aðila sem stæði ekki undir þeim. Allavega var ófullkomin skilningur minn á þessum spádómum þannig. Einnig ætti hátt olíuverð eftir að kynda undir verðbólgu og draga efnahagskerfi heimsins niður.

Undanfarnar vikur hafa því verið áhugaverðar og einnig örlítið hrollvekjandi í ljósi þessara spádóma. Það sem hefur verið haldið fram á vald.org er einmitt að gerast á mörkuðunum í dag. Allir fjármálamarkaðir eru í mikilli niðursveiflu sem rakin er til slæmrar stöðu fjármálastofnanna sem lánað hafa fé til fasteignakaupa í Bandaríkjunum. Einhverjir ónefndir „sérfræðingar“ segja alheimskreppu hugsanlega.

Þótt ég hafi minna en ekkert vit á svona málum þá finnst mér óþarfi að byrja á krepputalinu strax. Alltaf eru einhverjar sveiflur í gangi, núna er ein góð niðursveifla í gangi. Spurning um hversu alvarleg hún verður. En ef Jóhannes Björn sem heldur úti vald.org hefur rétt fyrir sér með framhaldið á þessu þá er eins gott að hefja söfnun á dósamat.

Lenín og Samfylkingin

Ég er þessa dagana að lesa bókina Ten Days That Shook the World eftir John Reed. Þetta er lýsing hans á rússnesku byltingunni 1917 en Reed starfaði sem blaðamaður í Pétursborg á þessum tíma. Hingað til lofar bókin góðu, ég er loksins að ná einhverjum botni í atburðarásina þarna eystra en pólitíkin á þessum árum var býsna flókin í Rússlandi. Ég hef í raun aldrei skilið nákvæmlega hvað gekk þarna á og hverjir voru bolsévíkar og mensévíkar, hvað voru sovétin nákvæmlega o.s.frv.

Fyrr í sumar las ég Rights of Man eftir Thomas Paine, sem fjallar um byltingarnar í Bandaríkjunum og Frakklandi á 18. öld, þannig að nú er ég orðinn byltingarsinnaðri en fyrr.

Þrátt fyrir að ég fylgi ekki hugmyndafræði Leníns og félaga fannst mér ein tilvitnunin í hann í upphafi bókarinnar vera viðeigandi í ljósi nýmyndaðrar ríkisstjórnar heima á Íslandi. Hér er hann að ræða tilhneigingu hófsamra sósíalista til að mynda bandalög við borgaraleg öfl.

The capitalists…seeing that the position of the Government was untenable, resorted to a method which since 1848 has been for decades practised by the capitalists in order to befog, divide, and finally overpower the working class. This method is the so-called „Coalition Ministry“, composed of bourgeois and of renegades from the Socialist camp. In those countries where political freedom and democracy have existed side by side with the revolutionary movement of the workers – for example, in England and France – the capitalists make use of this subterfuge, and very successfully too. The „Socialist“ leaders, upon entering the Ministries, invariably prove mere figure-heads, puppets, simply a shield for the capitalists, a tool with which to defraud the workers.

(Problems of the Revolution)

Samfylkingin kom mér til hugar við þessa lesningu.

Skjaldbaka á salerninu

Á klósettinu heima býr nú skjaldbaka nokkur sem Anel fann úti á götu. Tengdamamma vill eigna sér hana en hún hefur líklega dottið niður af svölunum hjá fyrri eiganda. Hún var eitthvað slösuð greyið en virðist ætla að jafna sig á óförunum.

Í gær spurði Anel mig hvað skjaldbökur borða, ég væri nú líffræðingur og ætti að vita það. Ég svaraði því til að eina fræðsla mín um skjaldbökur kæmi úr kúrsinum Dýrafræði A sem ég sat haustið 2001. Hann fjallaði að mestu um þróunarsögu hryggdýra og skjaldbökur komu þar fyrir í einum fyrirlestri að mig minnir. Það eina sem ég man í svipinn að þær eru eina eftirlifandi ættin úr undirflokki Anapsida og svo var ein áströlsk tegund skjaldbaka (Rheodytes leukops) sem getur notað anusinn til öndunar líkt og nokkurs konar tálkn þegar hún er í kafi. Síðarnefnda atriðið þótti eftirminnilegt á sínum tíma.

Við prófuðum að gefa henni epli, ég veit ekki hvernig hún tók í það. Ætli við förum ekki í gæludýraverslun og kaupum skjaldbökufóður bráðlega.

Eggjahvítuefni

Mér leiðist óskaplega þegar orðið eggjahvítuefni er notað yfir prótein. Þegar ég var krakki hélt ég að þetta væri eitthvað efni úr hænueggjum. Mjög villandi og ógagnsætt orð.

Lokasprettur

Fékk meistararitgerðina til baka í gær frá Svíþjóð eftir fyrstu yfirferð. Kennarinn er sammála mér í því að þetta á eftir að hafast hjá mér. Þarf reyndar að bæta miklu við umræðukaflann enda var ég ekki búinn með hann þegar ég sendi uppkastið. Annars hef ég ekki miklar áhyggjur af þessu, ég er kominn svo langt á veg með stykkið að ég fell ekki úr þessu.

Tvær vikur í fyrirlestur sem ég er varla byrjaður að undirbúa. Ég hlakka mikið til 21. ágúst, þegar þessu verður öllu saman lokið. Það sem af er þessu ári hefur verið mikið puð, bæði með Ara og þetta lokaverkefni. Þegar þessu verður lokið á ég eftir að svífa á rósrauðum skýjum í einhvern tíma, kannski það sem eftir er.

Þekki marga sem hafa staðnað í sínu námi og aldrei lokið því, yfirleitt er ritgerðin eftir. Ég er feginn að hafa haft þetta af hér í Mexíkó, það var ekki svo auðvelt að ganga inn í hlutina hér.

Ekki gera dodo

Af og til er einhver umræða í gangi um fóstureyðingar á blogglandi. Kristilegir íhaldsmenn eru meðal þeirra sem hæst tala gegn þeim. Líklega er gamla kristna viðhorfinu um að kenna, kynlíf er ekki ætlað til annars en að geta börn og uppfylla jörðina. Þeir sem stunda slíkt eiga að taka afleiðingunum.

Á siglingu með brjálæðingum

Hjá Jónasi.is rakst ég á þessa grein frá The Independent sem segir frá breskum blaðamanni sem fer í skemmtisiglingu með íhaldssömum Bandaríkjamönnum. Þessi grein er svo ótrúleg að manni gæti dottið í hug að hún sé uppspuni. Um borð í þessu skipi eru gróðurhúsaáhrifin ekki til, múslimar eru að taka yfir Evrópu, guði er þakkað fyrir Fox News, menn óska sér þess að hús Sameinuðu Þjóðanna í New York verði sprengt í loft upp, Pinochet er titlaður bjargvættur Chile og Íraksstríðinu er lýst sem „an amazing success“.

The panel nods, but it doesn’t want to stray from Iraq. Robert Bork, Ronald Reagan’s one-time nominee to the Supreme Court, mumbles from beneath low-hanging jowls: „The coverage of this war is unbelievable. Even Fox News is unbelievable. You’d think we’re the only ones dying. Enemy casualties aren’t covered. We’re doing an excellent job killing them.“

Þetta er líklega það fólk sem kaus Bush og sér enn ekki eftir því.