Án titils

Stundum sér maður einhverja tölfræði á síðum anti-ESB sinna þar sem dregin er upp sú mynd að BNA sé betra á öllum sviðum heldur en hið hræðilega bákn Evrópusambandið. Ég veit ekki, ætli nýjustu aðildarlönd ESB dragi tölfræðina ekki dálítið niður? ESB er mjög fjölbreytt ríkjasamband, þarna eru forrík lönd eins og Danmörk og Lúxemburg ásamt fyrrverandi komma-löndum sem eru sorglega nálægt þriðja heiminum eins og Lettland og Búlgaría.

Hvað um það.

Ég er þessa dagana að gera viðeigandi úrbætur á lokaritgerðinni. Það er reyndar skemmtilegt því ég veit að þetta eru síðustu dagarnir sem ég eyði í meistarastykkið.

Mig langar að sjá Simpsons bíómyndina en við höfum ekki haft tíma til að fara í bíó nýlega.

Kominn með flugmiða í hendurnar héðan til New York. Af því að Ari er svo smár þá þurftum við gamaldags pappírsmiða í flugið, ég man ekki hvenær ég fékk svoleiðis síðast.

Maður veit að Ísland hljóti að vera gott land miðað við allt röflið sem ég les í fjölmiðlum þaðan um að fólk sé drukkið um helgar í miðbæ Reykjavíkur. Land þar sem að fólk fer í minningarathöfn um dauðan hund og ég las einnig frétt um daginn þar sem maður var kærður fyrir að ræna ánamöðkum úr garði nágrannans. Ef þetta eru stærstu vandamálin á klakanum þá geta Íslendingar verið sáttir með sitt.

Hér í Mexíkó er oft á forsíðum blaðanna fólk sem hefur verið myrt í skotárásum. Smáræði eins og umferðarslys, mannrán og þjófnaðir fara ekki í fjölmiðla, það er bara daglegt brauð.

Lokað er fyrir andsvör.