Archive for ágúst, 2007

Hommar á salernum

Finnst engum öðrum en mér undarlegt að lögreglan í Bandaríkjunum virðist stunda það að sitja fyrir hommum á almenningssalernum þarna vestra? Er þetta virkilega vandamál sem kallar á íhlutun lögreglunnar? Kannski ekki við öðru að búast í landi þar sem samkynhneigð var bönnuð með lögum fram á seinni helming 20. aldarinnar og í mörgum ríkjum var þessu ekki breytt fyrr en með hæstaréttarúrskurði 2003.

Mér finnst ég hafa heyrt svo oft fréttir að vestan um einhvern skápahommann sem var gómaður á almenningssalerni að ég sá mig knúinn til að tjá mig um þetta.

Án titils

Stundum sér maður einhverja tölfræði á síðum anti-ESB sinna þar sem dregin er upp sú mynd að BNA sé betra á öllum sviðum heldur en hið hræðilega bákn Evrópusambandið. Ég veit ekki, ætli nýjustu aðildarlönd ESB dragi tölfræðina ekki dálítið niður? ESB er mjög fjölbreytt ríkjasamband, þarna eru forrík lönd eins og Danmörk og Lúxemburg ásamt fyrrverandi komma-löndum sem eru sorglega nálægt þriðja heiminum eins og Lettland og Búlgaría.

Hvað um það.

Ég er þessa dagana að gera viðeigandi úrbætur á lokaritgerðinni. Það er reyndar skemmtilegt því ég veit að þetta eru síðustu dagarnir sem ég eyði í meistarastykkið.

Mig langar að sjá Simpsons bíómyndina en við höfum ekki haft tíma til að fara í bíó nýlega.

Kominn með flugmiða í hendurnar héðan til New York. Af því að Ari er svo smár þá þurftum við gamaldags pappírsmiða í flugið, ég man ekki hvenær ég fékk svoleiðis síðast.

Maður veit að Ísland hljóti að vera gott land miðað við allt röflið sem ég les í fjölmiðlum þaðan um að fólk sé drukkið um helgar í miðbæ Reykjavíkur. Land þar sem að fólk fer í minningarathöfn um dauðan hund og ég las einnig frétt um daginn þar sem maður var kærður fyrir að ræna ánamöðkum úr garði nágrannans. Ef þetta eru stærstu vandamálin á klakanum þá geta Íslendingar verið sáttir með sitt.

Hér í Mexíkó er oft á forsíðum blaðanna fólk sem hefur verið myrt í skotárásum. Smáræði eins og umferðarslys, mannrán og þjófnaðir fara ekki í fjölmiðla, það er bara daglegt brauð.

Björn.is

Mér finnst þessi vefur nokkuð skondinn. Ég gæti trúað því að þetta gæti haft áhrif á reglur um lén með séríslenskum stöfum. Það er jú verið að snuða sjálfan dómsmálaráðherrann!

Hagsmunasamtök reykingamanna

Sorglegustu samtök dagins hljóta að vera hin bresku hagsmunasamtök reykingamanna.

Meistaraprófsfyrirlestur búinn

Búið og gert. Gekk glimrandi vel og ég gat svarað flestum þeim spurningum sem prófdómarinn lagði fyrir mig varðandi áhrif þess að bæla tjáningu CEMP1 í steinungsfrumum úr mönnum. Þetta stefnir víst í väl godkändt samkvæmt Svíunum, ekki er það amalegt.

Mér líður eins og ég sé 20 kílóum léttari. Mikið er gott að vera búinn með þetta, eða gott sem. Þarf eitthvað að snurfusa lokaritgerðina en það eru einungis nokkur smáatriði víst.

Til hamingju ég!

Meistaraprófsfyrirlestur nálgast

Eftir um hálftíma mun ég halda fyrirlestur um lokaverkefnið mitt fyrir prófessora í Skövde. Að gera það klukkan þrjú að nóttu til er ekki það sem ég hefði óskað mér en það verður gott að vera búinn að þessu loksins. Stefni að því að blogga um árangurinn.

Uppfært: ég sé að klukkan á blogginu er vitlaus, hún á að vera um hálf þrjú.

Dean

Ég hef verið spurður hvort að fellibylurinn Dean sé að angra okkur. Í Mexíkóborg eru fellibylir lítið til vandræða þar sem að við erum svo langt frá ströndinni og lengst upp á fjöllum í ofanálag. Þó hefur verið rigning hér í allan dag sem kannski er hægt að rekja til áhrifa frá Dean, ég veit það ekki.

Allt að gerast

Við fengum loks í hendurnar vegabréfsáritun til Bandaríkjanna fyrir Ara Snæ í dag. Ég tek allt aftur sem ég hef sagt um BNA, þetta er örugglega langbesta land í geimi. Í gær pantaði ég miða til Íslands frá New York þann 8. september og flug til baka þann 5. október. Nú er bara að bóka flug héðan til Nýju Jórvíkur sem við stefnum á að gera í kvöld.

Ég er nokkurn veginn búinn að setja saman kynningu á verkefninu með hjálp PowerPoint. Hinsvegar er svo mikið að gera í Svíþjóð að ég komst ekki að á morgun né hinn eins og stefnt var að. Fyrirlesturinn verður þó ekki síðar en 28. ágúst, vonandi fyrr. Annars er ég nokkuð rólegur yfir þessu, stærsti hjallinn var að skila af sér ritgerðinni. Ég held að fyrirlesturinn verði bara nettur.

Svo óska ég Stínu systir til hamingju með afmælið. Ja visst ska hon leva, ja visst ska hon leva, ja visst ska hon leva uti hundrade år!

Göng til Grímseyjar

Legg til að Árni Johnsen verði settur í nefnd um samgöngur við Grímsey. Hann kemst örugglega að þeirri niðurstöðu að best sé að bora jarðgöng til eyjarinnar sem á eftir að kosta sama og ekkert.

Framsókn skolað út

Eitthvað hafa menn fett fingur út í pólitískar ráðningar Samfylkingarinnar eftir að hún komst að kjötkötlunum. Einkum kemur þessi gagnrýni frá framsókn og íhaldinu, talandi um að sjá flísina í auga náungans en ekki barrtréð í sínum augum (báðum).

Mér finnst þetta reyndar mjög skiljanlegt. Það er þjóðþrifaverk að skola burt framsóknarmykjunni úr landsflórnum. Á þeim tólf árum sem helmingaskiptastjórnin sat við völd hafa þeir verið duglegir að koma sínum mönnum í opinber embætti, sem og íhaldið gerði einnig. Nú þegar vinnumiðlunin Framsókn hefur verið sett af, að minnsta kosti tímabundið, er rétt að koma þessum mönnum frá sem hafa ekkert gert til að verðskulda stöðurnar nema að vera með rétt flokksskírteini í rassvasanum.

Pólitísk völd snúast ekki bara um kosningar heldur líka ráðningar í embættismannakerfinu. Jafnvel þótt að flokkur fari úr stjórn geta gæðingarnir setið áfram í feitum djobbum og haft sín áhrif þaðan. Því er rétt að taka allar vegtyllur og embætti af Framsóknarmönnum, meðan tækifæri gefst.