Archive for júlí, 2007

Meistaraprófsfyrirlestur

Langt orð í fyrirsögn, mjög alvöruþrungið. Líklega mun þessi gjörningur fara fram 21. ágúst næstkomandi. Sá mun vera í beinni útsendingu frá Mexíkóborg til Skövde og ég var að átta mig á því að sökum tímamismunar mun ég hefja mál mitt klukkan þrjú að morgni til. Einhvern veginn efast ég um að ég muni hljóma gáfulega í þessum fyrirlestri.

Gott gengi

Gaman að sjá þegar fólk sem maður þekkir (eða þekkti) gengur vel í lífinu. Doktorsnemi við Oxford, einu sinni var maður í þannig pælingum. Núna lítur út fyrir að ég láti mér nægja meistaragráðuna í mínu námi. Sem er nokkuð gott fyrir mann sem ætlaði aldrei í framhaldsskóla.

Blaðamaður?

Líklega er feitur tékki frá Mogganum á leiðinni til mín í pósti. Ásgeir H hlýtur að redda því eins og öðru. :þ

Þeir sem ekki skilja geta skoðað þetta.

Fullvalda ríki

Skil ekki þá andstæðinga ESB af hægri kantinum sem tuða sífellt um að innganga í það ágæta samband svifti Ísland fullveldi sínu og sjálfstæði. Þeir vita þó að ekki er til neitt sem heitir fullvalda ríki, einungis fullvalda einstaklingar.

Frida Kahlo

Nú minnast menn þess hér í Mexíkó að 100 ár eru liðin frá fæðingu listamannsins Fridu Kahlo. Af því tilefni er haldin í menningarhúsinu Palacio de Bellas Artes mikil sýning á verkum hennar ásamt því að hafðar eru til sýnis ljósmyndir, heimildamyndir, einkabréf o.fl. henni tengt. Við Anel og Ari fórum og skoðuðum þetta í gær og það var mjög áhugavert en líka hálf-niðurdrepandi.

Frida greyið lifði erfiðu lífi og málverk hennar tjá sársauka hennar, jafnt líkamlegan sem andlegan. Hún lenti í bílslysi ung að árum þar sem hún stórslasaðist og jafnaði sig í rauninni aldrei eftir það. Hjónaband hennar við kommúnistann og málarann Diego Rivera var dramatískt og bæði héldu þau framhjá, m.a. átti Frida í sambandi við sjálfan Trotsky eftir að hann flýði til Mexíkó frá ógnarstjórn Stalíns.

Mér fannst frekar erfitt að horfa á sumar myndirnar sem lýsa sársauka hennar yfir fósturmissum og brostnu hjónubandi. En hún var firnagóður málari, það verður ekki annað sagt. Málverkið hér að ofan lýsir sorg hennar yfir skilnaði hennar og Diego. Fullt af táknum þar sem hægt er að lesa um hér.

Eftir að hafa skoðað sýninguna velti ég reyndar mest fyrir mér hvað var málið með samvöxnu augabrúnirnar og yfirvaraskeggið. Segir kannski meira um mig en Fridu.

Framkvæmdir

Núna eru sumir ágætir menn á Íslandi víst að spá í að fara út í risavaxna framkvæmd sem kostar hátt í 100 milljarða, á einungis eftir að gagnast íbúum ákveðins landshluta, er mjög vafasöm út frá jarðfræðilegu sjónarmiði þar sem framkvæmdasvæðið er eldvirkt og lítið rannsakað, arðsemi framkvæmdarinnar er sama og engin og líklegast er einungis um pólitískt keiluspil að ræða fyrir þekkta afbrotamenn og góðkunningja lögreglunnar.

Allt þetta, nema kannski það síðastnefnda, átti við um Kárahnjúkavirkjun. Fyrst að ríkisstjórnin var nógu skyni skroppin til að fara út í þá framkvæmd, hvers vegna ekki að bora göng til Vestmannaeyja? Sama stjórnin situr áfram þó að hækjan heiti annað. Því er nokkur hætta á því að farið verði út í þessa framkvæmdir.

Langstæðstir

Á heimasíðu Ungra Framsóknarmanna í Skagafirði má lesa eftirfarandi lýsingu á félaginu.

Félag ungra Framsóknarmanna í Skagafirði er stæðsta hreyfing ungs fólks á Norðurlandi vestra.

Einhvern veginn fer þessi lýsing vel saman við þá fordómafullu mynd sem ég hef af Framsóknarmönnum.

Nostalgían

Það hafa margir tekið nostalgíukast undanfarið vegna einhvers sem þeir fundu á YouTube. Hér er mitt framlag, upphafsstefið úr Gullborgunum. Það eru tæp tuttugu ár síðan þetta var sýnt á RÚV en ég man nákvæmlega eftir því hvernig stefið hljómaði. Mér finnst það merkilegt í ljósi þess að ég man aldrei neitt sem ég á að muna.

Þessar teiknimyndir voru í algjöru uppáhaldi „in ðe eitís“. Ég held að ég sé ekki einn um það að finnast teiknimyndir í dag, þ.e. fyrir sjónvarp, vera hálfgerður sori. Illa teiknaðar, ófyndnar og óspennandi. Eða er þetta kannski bara aldurinn sem fer svona með mann?

Ég kíkti líka aðeins á byrjunina á fyrsta þættinum og ég man enn eftir nokkrum atriðum eins og þegar þeir notuðu Esteban til að kalla fram sólina. Vá.

Sósíalistar

Það er ákveðin skemmtun fólgin í því að lesa blogg þar sem orðið sósíalisti er notað sem skammaryrði.

Bandaríski herinn

quilt.jpg