Áfangi

Uppkast af meistararitgerðinni er á leiðinni til Svíþjóðar í gegnum Netið. Það er ekki eins langt komið og ég hafði kosið sjálfur. Við höfum lent í þvílíkum vandræðum með real-time PCR sem sér varla fyrir endann á. Annars hefur það gerst hér í þessari rannsókn að ég er virkilega að fá áhugaverðar og jákvæðar niðurstöður, sem gerist nú ekki á hverjum degi. Það sem við ætluðum okkur að gera virðist ætla að ganga fullkomnlega upp.

Verst er að niðurstöðurnar úr real-time PCR (rauntímakjarnsýrumögnun?) áttu að vera aðalatriðið í lokaritgerðinni en ég veit ekki á þessari stundu hvort það ætlar að hafast að ná þeim með. Við ætlum að halda áfram að reyna eins lengi og löglegt er í þessu verkefni.

Allavega þá er um 80% af ritgerðinni tilbúið sem þýðir að ég er kominn langleiðina að meistaragráðunni. Skrítið að sjá fram á námslokin en mjög ánægjulegt á sama tíma.

Hlakka til að senda nöldurgreinar í Moggann og hafa undirskriftina: „Höfundur er M.Sc. í sameindalíffræði og líftækni“. Menn geta vart annað en tekið mark á mínum greinarskrifum með slíkri undirskrift.

Lokað er fyrir andsvör.