Archive for júní, 2007

Djúp þögn

Bestu ræðurnar fá ekkert klapp eða vúhú að lokum. Einungis djúpa þögn. Held það sama gildi um góð blogg.

Áfangi

Uppkast af meistararitgerðinni er á leiðinni til Svíþjóðar í gegnum Netið. Það er ekki eins langt komið og ég hafði kosið sjálfur. Við höfum lent í þvílíkum vandræðum með real-time PCR sem sér varla fyrir endann á. Annars hefur það gerst hér í þessari rannsókn að ég er virkilega að fá áhugaverðar og jákvæðar niðurstöður, sem gerist nú ekki á hverjum degi. Það sem við ætluðum okkur að gera virðist ætla að ganga fullkomnlega upp.

Verst er að niðurstöðurnar úr real-time PCR (rauntímakjarnsýrumögnun?) áttu að vera aðalatriðið í lokaritgerðinni en ég veit ekki á þessari stundu hvort það ætlar að hafast að ná þeim með. Við ætlum að halda áfram að reyna eins lengi og löglegt er í þessu verkefni.

Allavega þá er um 80% af ritgerðinni tilbúið sem þýðir að ég er kominn langleiðina að meistaragráðunni. Skrítið að sjá fram á námslokin en mjög ánægjulegt á sama tíma.

Hlakka til að senda nöldurgreinar í Moggann og hafa undirskriftina: „Höfundur er M.Sc. í sameindalíffræði og líftækni“. Menn geta vart annað en tekið mark á mínum greinarskrifum með slíkri undirskrift.

Já forsætisráðherra

Það er athyglisvert að velta því fyrir sér hvernig eftirmæli Tony Blair hefði fengið ef hann hefði ekki vaðið út í kviksyndið Írak með vini sínum W. Held að hann hefði skorað nokkuð hátt, efnahagurinn búinn að vera góður megnið af tímabilinu, lítið atvinnuleysi o.s.frv. Blair kom líka alltaf vel fyrir, mjög góður ræðumaður og enskur séntilmaður fram í fingurgóma. Aldrei hefur breski Verkamannaflokkurinn verið lengur samfleytt við völd síðan Tony tók við honum.

Samt sem áður held ég að minning hans verði frekar dapurleg. Maðurinn sem atti Bretum út í illskiljanlegt blóðugt árásarstríð sem enn sér ekki fyrir endann á, rúmum fimm árum eftir að það hófst. Það verður minnisvarði hans.

Egill Helga hefur það eftir Lundúnabúa að Gordon Brown sé breska hliðstæðan við Halldór Ásgrímsson. Mér finnst það alltof grimm líking fyrir grey kallinn Gordon. Hann er nú bara nýbyrjaður í djobbinu.

Oft eru það sömu mennirnir…

…sem tala sífellt um frelsið og dásemdir þess á sama tíma og þeir verja þrælahald í verksmiðjum þriðja heimsins, vændi og annars konar kynlífsþrælkun á strípibúllum.

…sem halda því fram að sjórinn sé fullur af þorski og að hann sé að horast niður vegna innbyrðis fæðusamkeppni í sömu andrá og þeir bölva hvölum í sand og ösku fyrir að éta allan fiskinn okkar utan kvóta.

…sem hafa miklar áhyggjur af launaskriði sem gæti orðið við hækkun lágmarkslauna meðan þeir þiggja margföld slík laun sjálfir.

…sem sjá rautt í hvert sinn sem það berst í tal að Ísland gangi í Evrópusambandið því þeir vilja ekki framselja örðu af fullveldinu en eru hinsvegar fullkomlega sáttir við að Ísland sé aðili að stríðsrekstarbákninu NATO.

…sem eru þess fullvissir um að heimurinn sé skapaður af algóðum, almáttugum og alvitrum guði í sömu andrá og þeir segja heiminn vera gjörspillta skítaholu, uppfull af syndum mannanna og að guð ætli að leggja þessa sköpunarvitleysu í rúst innan skamms.

Já, margt er skrítið í kýrhausnum.

Land hinna frjálsu

Eins og ég hef áður sagt frá þá ætlum við Anel og Ari að fara til Íslands í september. Planið var að byrja á því að millilenda í New York og vera þar í nokkra daga. Vandamálið við þessa áætlun er að Ari Snær þarf að fá vegabréfsáritun fyrir sig til að komast inn í land hinna frjálsu, Bandaríkin. Í flestum löndum væri þó ekkert tiltökumál að fá vegabréfsáritun en við búum í Mexíkó.

Mér fannst nógu mikið vesen að útvega vegabréf fyrir drenginn en til þess þá þarf að framvísa skilríki með mynd. Þegar þú ert fimm mánaða þá hefur þú að sjálfsögðu engin slík skilríki og þarft því að fá barnalækninn þinn til að gefa út sérstakt skilríki þar sem kemur fram að foreldrar barnsins séu í raun foreldrar þess, ásamt því að líma mynd á pappírinn. Svo þarf einhver vottorð að fylgja, fæðingarvottorð, ljósrit af vegabréfum okkur, ljósrit af dvalarleyfi mínu, ljósrit af skilríkjum læknisins o.s.frv. o.s.frv.

Síðan fengum við frænku Anelar til að mæta í röðina fyrir utan skrifstofuna sem gefur út vegabréfin klukkan hálf sex um morguninn til að við gætum komist að með umsóknina. Þrátt fyrir að vera þar svo snemma fékk hún númerið 159 í röðinni, það voru semsagt 158 manns þegar mættir á þessum tíma. Þeir sem mæta eftir að skrifstofan opnar komast varla að þann daginn.

Þrátt fyrir þetta þá hefur Ari Snær þó fengið útgefið sitt fyrsta vegabréf. Vandræðin við að fá það eru þó hjóm eitt miðað við að fá útgefna vegabréfsáritun til Kanalands.

Til að halda mexíkönum frá Bandaríkjunum er nokkrum brögðum beitt. Fyrst þegar þú hringir til að panta viðtalstíma til að fá vegabréfsáritun þá kostar símtalið 12 pesóa á mínútuna eða um 70 krónur. Þetta er gert til að halda fátæku fólki frá, ekki veit ég að minnsta kosti um aðrar ástæður því á mexíkanskan mælikvarða er þetta símtal rándýrt. Ekki er hægt að hringja úr farsíma í þetta númer. Síðan þarftu að svara mörgum mörgum spurningum um hvað þú ætlar að gera í BNA og svo er þér lesinn pistillinn yfir það sem þú verður að hafa meðferðis þegar þú mætir í viðtalið.

Venjulega kostar vegabréfsáritunin 100 dollara en við getum fengið sérstaka áritun fyrir Ara sem á að kosta 13 dollara.

Ég hringdi á föstudaginn var því við fengum vegabréfið hans Ara útgefið þá. Ekkert mál, við fengum viðtalstíma í bandaríska sendiráðinu þann 11. september næstkomandi! Eftir viðtalið, ef þú hefur hlotið náð í augum þeirra sem útdeila vegabréfsáritunum, þá tekur um fjórar vikur að fá áritunina en þá verður þá í október.

Við förum líklega ekki í gegnum Bandaríkin á leið okkar til Íslands. Þvílík endemis hringavitleysa.

Reyndi svo að athuga hvort að Ari gæti fengið íslenskt vegabréf en það er ekki hægt í minni aðstöðu nema að fá neyðarvegabréf. Þau eru ekki tekin gild í Kanalandi.

New York er líka örugglega ömurlegt skítapleis, mig langar ekkert að fara þangað.

Í dag

Í dag mun ég framkvæma risavaxið real-time PCR með fullt af sýnum. Ef niðurstöðurnar verða jákvæðar er kominn ágætis grunnur fyrir birtingarhæfa grein í ritrýndu vísindariti. Ef ekki þá verður meistaraprófsfyrirlestur minn frekar bragðdaufur.

Annars er farið að sjá fyrir endann á þessu meistaranámi. Ég á að skila af mér einni ritgerð á fimmtudaginn í næstu viku. Þá er ekkert eftir nema vörn og leiðrétta ritgerðina ef þess gerist þörf.

Ég verð afar feginn þegar að þetta er búið. Ein ábending til þeirra sem hyggjast stunda meistaranám, ekki gera það samhliða því að annast ungbarn. Það er bara ekki sniðugt.

Íslenski fáninn í metró

Á leið minni í skólann í dag sá ég í lestinni stúlku nokkra sem hafði meðferðis græna tösku. Það sem vakti athygli mína við þessa tösku var að á hana var saumaður íslenski fáninn. Ekki gafst mér tækifæri til að ræða við þessa stúlku um orsakir þess að hún sé skrýdd íslenska fánanum, sökum mikillar mannmergðar í metrónum.

Þetta fannst mér þó merkilegt.

Um daginn sá ég pilt í lestinni sem klæddist bol sem á stóð Dimmuborgir, sem mun vera norsk hljómsveit sem spilar melódískt svartagallsrokk. Það fannst mér líka skondið að sjá hér í fjarlægu landi. Alþjóðavæðingin stendur víst fyrir sínu.

Acapulco

Var frá sunnudeginum fram á miðvikudag í Acapulco með Anel og Ara á ráðstefnu. Það var mjög skemmtilegt, svækjuhiti náttúrulega en þó þolanlegt. Hvítar strendur, pálmatré o.s.frv. Setti inn nokkrar myndir þaðan á myndasíðuna.

Á strönd Kyrrahafsins

Þarna má sjá okkur Ara virða fyrir okkur Kyrrahafið.

Sjálfskipaðir fiskifræðingar

Hún fer alltaf í gang með reglulegu millibili, umræðan um hvað mikið sé nú af fiski í sjónum og hvað ætti að veiða mikið af honum. Alltaf eru fjölmargir sem finna tillögum Hafró flest til foráttu, þeir vilja ekki veiða minna heldur meira. Rökin sem þeir týna til fyrir þessu eru yfirleitt hláleg, þ.e. ef þessir menn koma með einhver rök.

Oft er vísað til „tilfinningu“ sjómanna fyrir miðunum en þeir virðast geta fundið það á sér hvað mikið er af þorski í sjónum. Ekki veit ég um önnur vísindi þar sem notast er við sjötta skilningarvitið nema kannski þá guðfræðina. Ég vil ekki gera lítið úr þekkingu sjómanna á fiskimiðunum en að vísa til tilfinninga í svona umræðum er óneitanlega broslegt.

Andríkismenn fóru á kostum um daginn þar sem þeir bentu (réttilega) á að aflinn hafði verið meiri þegar að veiðarnar voru frjálsar. Einhvern veginn held ég að þeir séu á þeirri skoðun að ef veiðarnar hefðu áfram verið frjálsar þá væri meira af fiski í sjónum. Líklega kann þorskurinn svo vel að meta frelsið að hann fjölgar sér meira þegar hann er veiddur meira.

Margir segja líka að þorskurinn sé horaður og því eigi að veiða meira af honum svo að þeir þorskar sem eftir standa (synda) fái meiri fæðu. Þeir telja semsagt að besta ráðið gegn minnkandi stofni, sem er að auki vannærður, sé að auka veiðarnar til að sjá hvort að þetta reddist nú ekki.

Fiskifræði er ein af undirgreinum líffræðinnar en ég þykist þó ekki hafa neitt vit á henni. Ég skil því ekki hvernig menn hafa náð svo undurgóðu skynbragði á þessi fræði að þeir telja sig fremri sérfræðingum Hafró, sem þó hafa eytt ævinni í að ná tökum á þessum vísindum. Skýringin er þó einföld, þeir hafa ekki hundsvit á fiskifræði. Þeir vilja bara veiða meira til að græða meira.

d’Larus kerfið

Síðustu alþingiskosningar sýndu vel fram á að kosningakerfið er meingallað. Ekki er þó þörf á að örvænta því Lárus kemur alltaf til bjargar. Ég sting upp á því að eftirfarandi kerfi verði notað í næstu kosningum.

1. Landið verður gert að einu kjördæmi í talningunni sjálfri. Atkvæðavægið verður því jafnt meðal landsmanna. 2. Þó landið sé eitt kjördæmi hvað talninguna snertir þá verður kosið í kjördæmi. Persónulega mæli ég með nokkrum kjördæmum, a.m.k. eins mörg og þau voru 1999 ef ekki fleiri. 3. Fyrir kosningar munu flokkarnir reiða fram einn framboðslista fyrir allt landið. Tekið verður fram fyrir hvaða kjördæmi þingmannsefnið er að bjóða fram. Hugsanlegt dæmi væri t.d. fyrir VG, Steingrímur J. fyrir NA-kjördæmi (eða norðurland eystra) í fyrsta sæti, annað sæti Ögmundur fyrir Kópavogskjördæmi (afhverju ekki), þriðja sæti Katrín Jakobs fyrir eitthvað Reykjavíkurkjördæmi og svo koll af kolli. 4. Á kjördag mæta menn prúðbúnir á kjörstað, kjósa sinn flokk og fylgjast svo spenntir með talningunni um kvöldið. Líklega verður kosningavakan þó hundleiðinleg því jafnaðarmanna-hringekjan heyrir sögunni til. 5. Flokkarnir fá úthlutað þingsætum eftir því hversu mörg atkvæði þeir fengu. Til að ná manni á þing þarf að lágmarki atkvæði sem duga fyrir þremur þingmönnum.

Þetta kerfi hefur þá augljósu kosti að hver maður hefur eingöngu eitt atkvæði í kosningunum. Flokkar sem vilja leggja áherslu á landsbyggðina geta boðið fram fleiri þingmannsefni þar og þeir sem halda sig við borgina geta gert hið sama.

Varla er þetta kerfi verra en það sem notast er við í dag. Jafnmörg atkvæði verða á bakvið hvern þingmann í stað þess að allt upp í fjórfaldur munur er á því eins og staðan er í dag.

Vísu er hætta á því að fámenn kjördæmi sitji uppi með fáa eða enga þingmenn en það væri þá hægt að flytja til þingmenn. Það yrði þó ákvörðun flokkanna hverju sinni. Örugglega er hægt að finna fleiri galla en verstu gallarnir á gamla kerfinu yrðu þó ekki til trafala lengur.

Nei ég segi svona.