Archive for maí, 2007

Skítug skrifstofa

Mér fannst brandari dagsins hjá Sigmund ekkert sérstaklega fyndinn en það er hinsvegar skoplegt að sjá útganginn á skrifstofunni hjá Jóni Sig. Álver út um allt og olíuhreinsistöð í þokkabót. Reyndar er það líka grátlegt í senn.

ossur.JPG

Birtist í Morgunblaðinu 31.05.07.

Besta vefritið hætt

Nú er Múrinn allur ef marka má nýjustu og líklega síðustu færsluna. Mér þykja þetta sorgartíðindi, þetta var uppáhalds vefritið mitt til margra ára (Kommúnan er meira svona spariblogg). Líklega hefur Múrinn haft nokkur áhrif á minn pólitíska þankagang, aðallega með því að segja frá því sem ekki var að finna í stóru fjölmiðlunum.

Ég man meira að segja eftir því þegar ég sá Múrinn fyrst. Það var í FVA þegar við vorum að æfa fyrir Gettu Betur vorið 2000. Geir Guðjóns þjálfari vor var að sýna okkur eitthvað klám á Netinu auk þess sem hann benti okkur á Múrinn. Hef lesið hann síðan.

Ég óska Múrverjum til hamingju með frábært vefrit síðastliðin 7 ár. Vona að róttæka umræðan haldi áfram á öðrum stöðum.

Ég og Þorsteinn

Svona í framhaldi af síðustu færslu þá sé ég í dag að Þorsteinn Pálsson er sammála mér að mörgu leiti.

Skammt er nú til þess að Kárahnjúkavirkjun verði að fullu lokið. Löngu er búið að semja til langs tíma um sölu á raforku þaðan fyrir ákveðið verð. Ríkisvaldið hefur hins vegar ekki enn náð samningum við þá sem eiga hluta vatnsréttindanna. Ólíklegt er að einkafyrirtæki hefði hafið framkvæmdir án samninga um vatnsréttindi. Fullvíst er að einkafyrirtæki hefði ekki gengið frá langtíma orkusölusamningi án vitundar um verð vatnsréttindanna. Þennan vanda leysir ríkið með sjálfvirku eignarnámi sér til handa. Það er aðstaða sem engir aðrir njóta í samningum á frjálsum markaði. Úrskurðarnefnd á síðan að meta vatnsréttindin eftir að orkuframleiðslan er hafin og löngu eftir að verð á framleiðslunni hefur verið samningsbundið áratugi fram í tímann. Við slíkar nauðungaraðstæður er lítil von til þess að eðlilegt markaðsverð finnist.

72. grein stjórnarskrárinnar

Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

Fellur eignaupptaka ríkisins á hálendinu undir þetta ákvæði? Er þetta brambolt ekki bara afnám eignaréttarins að sovéskum hætti til að hægt sé að búa í haginn fyrir meiri stóriðju a la Sovétríkin? Spyr sá sem ekki veit.

Rúv.is: Ríkið á vatnsréttindi Kárahnjúkavirkjunar.

Allt er náttúrufræðingum fært

Það er ánægjulegt að sjá menn með mastersgráðu í náttúruvísindum verða bankastjóra. Kannski maður ætti að stefna að þessu eftir útskrift.

Annars er missagt að maðurinn sé með M.A. í náttúruvísindum, hann hlýtur að vera M.Sc. nema hann hafi kannski lagt stund á eitthvað húmbúkk eins og lífsiðfræði.

Fórnarlömb óbeinna reykinga

Það er athyglisvert blogg hjá Ómari Ragnarssyni hér um vini hans sem hafa líklegast dáið vegna óbeinna reykinga. Hann nefnir m.a. Hauk Morthens, Ingimar Eydal og Ellý Vilhjálms.

Einkum var það morgunljóst að yfirgnæfandi líkur voru til þess að hálskrabbamein Hauks stafaði af óbeinum reykingum. Bæði hann og Ingimar Eydal, þessi öðlingar, sögðu það við mig að þeir væru afar ósáttur við þau örlög sín að aðdáendur þeirra dræpu þá óbeint.

Sorgleg lesning. Gott til þess að vita að Íslendingar hafa loksins haft rænu á því að banna reykingar á börum og veitingastöðum. Stórt framfaraspor í alla staði.

Ósnotrir menn sem rausa yfir því að verið sé að brjóta á frelsi manna með því að banna reykingar held ég að gangi ekki alveg heilir til skógar.

Litningur 16 loksins fundinn

Umfjöllun íslenskra fjölmiðla um raunvísindi er oft spaugilega vitlaus en þó er aðallega sorglegt að sjá hvernig farið er með þessi fræði. Ég tek sérstaklega eftir þessu þegar fjallað er um lífvísindi, skiljanlega. Rúv.is á setningu dagsins hvað þetta varðar þegar hann rembist við að skýra niðurstöður krabbameinsrannsóknar sem DeCode gerði.

Einn erfðavísir hefði fundist í báðum rannsóknunum, litningur sextán. #

Ég held að allir í þessum bransa gleðjist yfir því að litningur sextán sé loksins kominn í leitirnar eftir langa leit.

Á leið til strandar

Enn hef ég ekkert komist á sólarströnd, þrátt fyrir að búa í svonefndu sólarlandi. Brátt verður gerð bragarbót á því en 10-13. júní eigum við bókað herbergi á fimm stjörnu hóteli í Acapulco. Þar munum við Ari sjá Kyrrahafið í fyrsta skipti og við ætlum aldeilis að hafa það náðugt á ströndinni.

Tilefnið er ráðstefna um rannsóknir í tannlækningum og þar sem ég starfa við slíkt gafst mér færi á að skrá mig. Þannig fáum við herbergið á spottprís auk þess sem fæði er innifalið. Ég býst við því að vera lítið á ráðstefnunni sjálfri heldur taka því rólega við sundlaugina eða skoða mig um.

Þetta verður í annað skiptið sem við förum eitthvað út úr borginni síðan ég kom hingað. Fyrra skiptið var þegar Ari fæddist og skiljanlega var það með öðru sniði. Það er ekki laust við að mig langi til að sjá hafið aftur, líklega tengist það því eitthvað að hafa búið á eyju lengst af.

Sjálfstæðismenn styðja netlögreglu

Nú reynir á frelsisvitund þeirra sem hrópuðu hvað hæst yfir því þegar formaður VG átti að hafa stutt við hugmyndir um netlögreglu. Nýskipaður heilbrigðisráðherra vill banna leik sem er fáanlegur á Netinu vegna þess að sá leikur misbýður honum. Er honum alvara? Viljum við að stjórnmálamenn ráði því hvað sé á Netinu og hvað ekki, eins og í Kína?

Það eru engin lög brotin með þessum tölvuleik, þó að vissulega sé hann eins ósmekklegur og hægt er. Ég reikna með því að varðhundar frelsisins fari nú hamförum yfir þessari yfirlýsingu heilbrigðisráðherra. Skiptir það kannski máli hvaða flokksskírteini er í vasanum þegar að stjórnmálamenn vilja ritskoða Netið?

Áskorun

Ég skora á nýskipaðan utanríkisráðherra að mótmæla því hvernig herforingjastjórnin í Myanmar fer með leiðtoga stjórnarandstöðunnar Aung San Suu Kyi. Vorið 2003 var ég staddur í Tælandi, sem á einmitt landamæri að Myanmar, þegar ráðist var að henni og hennar fylgdarliði og margir stuðningsmenn hennar voru myrtir. Það var að sjálfsögðu með vilja og stuðningi stjórnarinnar þar.

Eitthvað reyndi ég að nefna þetta við ferðafélagana en enginn vissi hver þessi kona var. Mér fannst það hálf dapurlegt.