Júdas hengdur í götunni

Mexíkó er mjög kaþólskt land að mörgu leiti en hér má t.d. sjá dýrlingamyndir út um allt. Meira að segja eru litlar Jesú- og Maríumyndir inn á rannsóknarstofunni minni, musteri vísindanna. Hin heilaga Guadalupe er hér höfð í hávegum og líkneski af henni má sjá víða.

Um páskana var sett upp athyglisverð sýning í garðinum fyrir utan kaþólsku kirkjuna í götunni minni. Líkneski af persónum páskasögunnar voru sett þar upp. Jesús var þar á krossinum alblóðugur og rómverskur hermaður stóð fyrir neðan hann og stakk spjóti í síðu hans. Þarna voru einnig glæpamennirnir tveir sem voru aflífaðir með honum, einnig blóðugir og angistarfullir í þjáningu sinni. María var þarna grátandi fyrir neðan krossinn og einhverjir lærisveinar horfðu á þetta.

Best var að í horni garðsins var Júdas búinn að hengja sig í einu trénu og Satan stóð glaðhlakkalegur fyrir neðan með þríforkinn sinn.

Þessi líkneski voru um 120 cm á hæðina og nokkuð vel gerð. Ég velti því fyrir mér hvað börnin hugsa þegar foreldrarnir draga þau í kirkju og þau þurfa að horfa upp á þennan smekklausa hrylling. Anel sagði mér einu sinni frá því þegar hún fór með móðir sinni í kirkju og hún vildi endilega að Anel snerti á einhverri Kristlíkneskju, sem átti að vera sérstaklega heilög. Líkneskið var aftur á móti svo hryllilegt ásjónu að Anel, sem var barn að aldri, brast í grát þarna í kirkjunni.

Ég ætlaði alltaf að taka myndir af þessari sýningu en nú er búið að taka hana niður (sem betur fer) þannig að ekkert varð úr því.

Hvað skyldi nágrannarnir hugsa ef ég setti upp mína eigin sýningu af manni sem er að stikna í rafmagnsstól? Skrítið hvernig margt verður leyfilegt og eðlilegt ef það er gert í nafni trúar.

Lokað er fyrir andsvör.