Archive for apríl, 2007

Heimsókn

Ég er að fá mína fyrstu heimsókn hér í Mexíkó en Rósa og Steinþór eru væntanleg í fyrramálið. Það verður skrítið og ánægjulegt að sjá Íslendinga aftur. Við höfum þegar sett saman metnaðarfulla áætlun um það hvað við ætlum að gera hér en þau fljúga á brott næsta fimmtudag. Tíminn er því naumur því það er hægt að gera nánast allt sem manni dettur í hug hér í Mexíkóborg. Við völdum nokkra staði sem við ætlum að heimsækja; pýramídana, gamla miðbæinn, Xochimilco ásamt fleiru.

Einnig ætlum við í skemmtigarðinn Six Flags þar sem Keiko átti heima áður en hann var fluttur til Vestmannaeyja. Það verður nokkurs konar pílagrímsferð, býst ég við.

Suðurkjördæmi

Það var mikill skaði þegar að gosið í Vestmannaeyjum kæfði allar áætlanir um að aðskilja eyjarnar frá Íslandi. Við súpum af því seyðið í dag, helmingurinn af lundaætunum ætlar að kjósa íhaldið til að tryggja glæpamanninum Árna Johnsen öruggt þingsæti. Plús hellingur af öðru lítt þenkjandi fólki í þessu ágæta kjördæmi.

Stundum held ég að fólki sé varla sjálfrátt fyrir vitleysisgangi. Legg til að fólk verði að standast einhvers konar próf til að fá kosningarétt, t.d. í Íslandssögu. Held að það ætti eftir að fækka kjósendum ríkisstjórnarinnar umtalsvert.

Júdas hengdur í götunni

Mexíkó er mjög kaþólskt land að mörgu leiti en hér má t.d. sjá dýrlingamyndir út um allt. Meira að segja eru litlar Jesú- og Maríumyndir inn á rannsóknarstofunni minni, musteri vísindanna. Hin heilaga Guadalupe er hér höfð í hávegum og líkneski af henni má sjá víða.

Um páskana var sett upp athyglisverð sýning í garðinum fyrir utan kaþólsku kirkjuna í götunni minni. Líkneski af persónum páskasögunnar voru sett þar upp. Jesús var þar á krossinum alblóðugur og rómverskur hermaður stóð fyrir neðan hann og stakk spjóti í síðu hans. Þarna voru einnig glæpamennirnir tveir sem voru aflífaðir með honum, einnig blóðugir og angistarfullir í þjáningu sinni. María var þarna grátandi fyrir neðan krossinn og einhverjir lærisveinar horfðu á þetta.

Best var að í horni garðsins var Júdas búinn að hengja sig í einu trénu og Satan stóð glaðhlakkalegur fyrir neðan með þríforkinn sinn.

Þessi líkneski voru um 120 cm á hæðina og nokkuð vel gerð. Ég velti því fyrir mér hvað börnin hugsa þegar foreldrarnir draga þau í kirkju og þau þurfa að horfa upp á þennan smekklausa hrylling. Anel sagði mér einu sinni frá því þegar hún fór með móðir sinni í kirkju og hún vildi endilega að Anel snerti á einhverri Kristlíkneskju, sem átti að vera sérstaklega heilög. Líkneskið var aftur á móti svo hryllilegt ásjónu að Anel, sem var barn að aldri, brast í grát þarna í kirkjunni.

Ég ætlaði alltaf að taka myndir af þessari sýningu en nú er búið að taka hana niður (sem betur fer) þannig að ekkert varð úr því.

Hvað skyldi nágrannarnir hugsa ef ég setti upp mína eigin sýningu af manni sem er að stikna í rafmagnsstól? Skrítið hvernig margt verður leyfilegt og eðlilegt ef það er gert í nafni trúar.

Ríkisborgari

Í síðustu viku fékk Ari Snær kennitölu og íslenskan ríkisborgararétt. Það gekk ekki þrautalaust fyrir sig að fá útgefið fæðingarvottorð fyrir drenginn en það hafðist að lokum. Skrifræðið hérna í Mexíkó er engu líkt. Við fórum nokkrum sinnum með drenginn, því það þarf að sýna hann embættismönnunum lifandi (ekki grín). Alltaf strandaði þetta á einhverjum stimplum sem þeir vildu fá en Anel sá við kerfinu og fór á aðra skráningarstofu þar sem þeir fóru fram á minna af pappírum. Síðan fékkst hann skráður, þá þurftum við að koma aftur tíu dögum síðar til að borga fyrir vottorðið og svo nokkrum dögum síðar til að fá vottorðið í hendurnar. Algjör sirkus.

Síðan þurfti að þýða vottorðið yfir á ensku, en það er nægjanlegt fyrir kerfið heima. Íslenska skrifræðið er lítið og nett í samanburði við það mexíkanska. Ég þurfti aðeins að faxa vottorðin til Þjóðskrár og Ari var skráður daginn eftir. Þumlar á loft fyrir íslenska kerfinu.

Pólitískt skítkast

Ég reyni að fylgjast með kosningaumræðunni heima en hún er ekki upp á marga fiska. Sérstaklega tek ég eftir því hvernig skítakögglarnir fljúga frá stjórnarflokkunum og stuðningsmönnum þeirra yfir á grænar lendur vinstrimanna. Mér finnst vanta allt skítkast í hina áttina.

Hvernig væri umræðan heima á Íslandi ef Ögmundur Jónasson hefði verið uppvís af því fyrir nokkrum árum að draga að sér fé sem alþingismaður, en væri nú í framboði á ný fyrir VG? Hvað ef upp kæmist að Ingibjörg Sólrún væri með doktorsgráðu frá einhverjum gervi-háskóla í Bandaríkjunum þar sem einungis þarf dollara til að fá gráðurnar? Ég held að umræðan ætti varla eftir að snúast um annað.

Samt þegar nákvæmlega þetta á við um Árna Johnsen og Jón Sigurðsson þá er þetta varla rætt.

En á hinn bóginn er svona umræða mjög hvimleið og kannski þakkarvert að stjórnarandstaðan er ekki á jafn lágu plani málefnalega eins og stóra-íhaldið og litla-íhaldið.

Labbinn

Klukkan er að verða sex og ég er enn á labbanum. Frumurnar þurfa sína þjónustu víst. Reikna ekki með því að komast heim fyrir klukkan átta í kvöld. Ég er svangur.

Litríkt mannlíf?

Ég held að það sé óhætt að segja að í Mexíkó sé litríkt mannlíf. Það litríkasta sem ég hef séð að minnsta kosti. En hvað er það nákvæmlega þetta litríka mannlíf?

Er það þessi iðustraumur fólks út um allt, fólk sem er að selja dót á markaðinum? Fólkið sem gengur um með hátalara og magnara í bakpoka, spilar tónlistina svo í botni í lestunum til að selja geisladiska með þessari músík? Oft er þetta fólk blint. Einnig reyna margir að selja manni sælgæti, gos, megrunarpillur, margmiðlunardiska, vegakort, bækur o.s.frv. Sumir syngja fyrir peninga, þeir eru oftast drukknir.

Litríka mannlífið, er það fólkið sem dúkkar upp á hverjum ljósum við fjölfarnar götur sem stekkur á bílinn þinn, sprautar sápuvatni á framrúðuna og byrjar að þrífa? Oft jafnvel þótt að þú harðneitir. Þarna birtast einnig eldgleypar sem byrja að spúa eldi fyrir framan þig, meðan beðið er á rauðu. Á spænsku heita þeir drekar. Mér finnst merkilegt að margar gamlar konur virðast hafa sérhæft sig í þessari list.

Einnig við götuljósin sprettur fram fólk í skærgulum samfestingum sem selur símafrelsi, menn sem selja leikföng og helíum-blöðrur, sígarettur, hjólkoppa, blóm….. Sumir betla einfaldlega, verst er að sjá börnin biðja um peninga. Ég gef þeim yfirleitt alltaf eitthvað, sem og konum með smábörn sem eru á götunni.

Stundum förum við og verslum í næsta Wal-Mart. Á horninu þar er oft mikið af götubörnum, mörg þeirra mjög ung, á leikskólaaldri líklega. Þau eru oft í vímu, sniffa lím til að stytta daginn og seðja hungrið. Útgangurinn á þeim er yfirleitt herfilegur. Mér líður alltaf illa þegar ég keyri þarna framhjá.

Ég veit það ekki. Oft þegar menn tala um litríkt mannlíf þá finnst mér stundum eins og átt sé við eitthvað þessu líkt. Einnig heyrist það oft að Norðurlöndin séu einmitt ekki þekkt fyrir litríkt mannlíf, þau séu grá og daufleg. Líklega er það vegna þess að þetta litríka mannlíf sprettur upp af fátækt, fólk reynir að bjarga sér á einhvern hátt þegar enga atvinnu er að fá.

Mætti ég frekar biðja um gráa og dauflega borgarstemningu heldur en litríka.

Ég held að gamli maðurinn sem spilar á fölsku fiðluna sína, án þess að kunna neitt á hana, á lestarstoppinu mínu við háskólann finnist ekkert sérstakt að vera þarna á hverjum einasta degi, ár eftir ár. Líklega hafði hann aðrar hugmyndir um það hvernig hann ætlaði að eyða elliárunum þegar hann var yngri. Síðdegis, þegar það er orðið of heitt til að spila á fiðluna, situr hann í stiganum með hattinn fyrir framan sig og bíður eftir því að fólk gefi honum nægjanlegt fjármagn til að hann geti fjárfest í mat.

Líklega er hann hluti af þessu litríka mannlífi.

Jörðin skelfur

Þegar ég var við það að festa svefn í gær fannst mér skyndilega eins og skilningarvitin væru að bregðast mér. Rúmið byrjaði að færast til og frá og það var eins og sterkar bylgjur riðu yfir húsið. Jarðskjálfti reið yfir borgina hér í nótt, reyndar þrír að mér skilst en ég vaknaði ekki við hina tvo.

Ég hef ekki orðið var við jarðskjálfta síðan í seinni Suðurlandsskjálftanum sumarið 2000. Þessi var sem betur fer aðeins minni enda eru húsin hérna ekki eins traust. Árið 1985 fórust þúsundir í öflugum skjálfta hér í Mexíkóborg.

Sjá BBC news.

Minn innri Dani

Ég stóðst prófið um hvort ég megi verða danskur ríkisborgari, náði 30 réttum. Klúðraði tveimur spurningum algjörlega sem ég átti að vita, spurningunni um Absalon og skyldunámið. Það þarf víst 28 rétt svör til að ná réttinum.

Mér finnst þetta nokkuð ágætur árangur miðað við að ég hef einu sinni komið til Danmerkur og eytt þar einni helgi. Samkvæmt Vísi þá féllu 22% Dana á aldrinum 18-25 á þessu prófi. Það finnst mér athyglisvert.

Páskakanínan grilluð

Í gær snæddi ég kanínu í fyrsta sinn, grillaða. Að sjálfsögðu með salsa og sítrónu í tortilla. Það var herramannsmatur, mæli með því. Var ágætis uppbót fyrir að fá ekkert páskaegg.