Archive for mars, 2007

Kosningaupprifjun

Álverið í Straumsvík verður ekki stækkað, því var hafnað af Hafnfirðingum í dag. Spurning hvort að Alcan ætli að pakka niður og loka sjoppunni eins og þeir hótuðu ítrekað í kosningabaráttunni? Farið hefur fé betra.

Urgur í mönnum

Það er leitt þegar að góður félagsskapur ætlar að leysast upp út af einhverjum tittlingaskít.

Kosið á föstudaginn

Á föstudaginn klukkan 11 að mexíkönskum staðartíma ætla ég að aka sem leið liggur til íslenska aðalræðismannsins og kjósa í alþingiskosningunum. Valið að þessu sinni er auðvelt, ég kýs Vinstri-Græna í ár.

Fyrstu kosningarnar sem ég tók þátt í voru alþingiskosningarnar 1999, þá nítján ára. Þá var ég í vafa um hvað kjósa ætti en endaði á því að gefa Samfylkingunni atkvæði mitt, því mér fannst sjálfsagt að gefa sameiningu vinstriflokkanna tækifæri á að sanna sig. Reyndar í minningunni þá þekkti ég lítið til VG á þeim tíma og var nokkuð undrandi á velgengni þeirra á kosningavökunni.

Næstu kosningarnar voru árið 2003. Þá kaus ég utan kjörstaða og hét því þá að gera það aldrei aftur vegna þess að það fór einhvern veginn út um þúfur. Ætlunin var þá að kjósa VG og ég vona að það hafi gengið eftir. Fljótlega eftir kosningarnar 1999 snerist ég sveif með þeirra stefnumálum og hef verið fylgismaður þess flokks síðan þá.

Þrátt fyrir það er ég ósammála VG um marga hluti. T.d. er ég hlynntur aðild Íslands að Evrópusambandinu og margir innan VG eru á móti erfðabreyttum matvælum sem ég styð heilshugar. Stundum finnst mér stjórnlyndið einum of mikið innan flokksins eins og kom fram í einhverjum tillögum á síðasta landsþingi. Þær verstu náðu reyndar ekki fram að ganga þ.e. þær sem snerust um að skikka fyrirtæki til að hafa jafnt kynjahlutfall í stjórnum.

En pólitík í lýðræðisríkjum snýst um endalausar málamiðlanir og þrátt fyrir allt á ég mesta samleið með VG.

Ef hinir flokkarnir eru skoðaðir þá hef ég t.a.m. ekkert álit á Frjálslynda flokknum. Reyndar er upphaf þess flokks mér enn óskiljanlegt. Sverrir Hermannson var gripinn með allt á hælunum sem bankastjóri Landsbankans og ákvað því að fara í þingframboð með nýjan flokk sem stefnt var gegn kvótakerfinu. (!) Nú virðist aðalmálefni hans snúast um innflytjendur og „áhyggjur“ frjálslyndra af þeim. Það verður lítil eftirsjá af þeim ef þeir ná ekki upp fyrir 5% múrinn í vor.

Framsóknarflokkurinn er orðinn plága í íslensku stjórnmálalífi, alltaf kemst hann til valda á einhvern hátt. Klassískt dæmi mátti sjá í Reykjavík síðastliðið vor þegar að Bingi fór í ljós og spreðaði mikið af seðlum í kosningabaráttu sem rétt nægði til að draga hann í borgarstjórn. Enda var það allt sem þurfti, eftirleikurinn var auðveldur og Bingi brosir breitt í feitum embættum. Málefnaleg afstaða þeirra þekkist ekki lengur, eina hugsjónin er að komast að kjötkötlunum og sitja þar sem fastast. Fyrir hvað stendur flokkurinn í pólitík? Hann stendur einfaldlega fyrir það sama og Sjálfstæðisflokkurinn í einu og öllu.

Ekki get ég kosið íhaldið af fjölmörgum ástæðum. Þær helstu eru líklega blindur stuðningur þeirra við Íraksstríðið í þeirri von um að halda í herstöðina á Vellinum. Stefna þeirra í menntamálum er vægast sagt undarleg í ríki sem á að heita þróað. Stundum finnst manni á umræðunni að Kárahnjúkavirkjun hafi verið einkaframtak framsóknar en íhaldið ber sömu ábyrgð, ef ekki meiri, á þeim ósköpum. Davíð Oddsson er líka ágæt ástæða fyrir því að merkja ekki við D-ið. Þrátt fyrir að vera kominn á eftirlaun í Seðlabankanum er þetta enn flokkurinn hans.

Samfylkinguna gæti ég líklega kosið í hallæri en ég skil ekki alveg ennþá fyrir hvað sá flokkur ætlar að standa í pólitík. Einnig hefur þessi hallærislega aðkoma núverandi formanns að Samfylkingunni og allt það mál hvernig hún var kosin formaður hálf pínlegt fyrir mér. Ég held að Samfylkingunni hafi eftir allt saman verið betur borgið með Össur í formannsstólnum, hann skrifar að minnsta kosti gott blogg.

Íslandshreyfinguna væri kannski hægt að kjósa og ég vona reyndar að þeir fái nokkra þingmenn á kostnað íhaldsins og frjálslyndra. Ég sé það fyrir mér að það væri hægt að mynda ágæta ríkisstjórn með þá innanborðs ásamt Samfylkingunni og VG. Annars á ég eftir að sjá nákvæmlega hver stefnumál þeirra eru og hverjir eru í framboði til að gera endanlega upp hug minn varðandi þau.

Semsagt ég ætla að kjósa Vinstrihreyfinguna – Grænt Framboð og vona að þau taki upp þjálla nafn bráðlega.

Auði á þing!

Biðstaða

Nú er biðstaða í verkefninu mínu, er að bíða eftir niðurstöðum DNA raðgreininga áður en ég get haldið áfram. Ég mæti samt á labbann og reyni að sanka að mér heimildum fyrir meistararitgerðina. Það gengur samt frekar hægt, það er ekki kominn tími til að skrifa. Ég hef því hangið ótæpilega mikið á Netinu undanfarið. Það er ekki hollt fyrir mann, of mikið framboð af misáhugaverðu efni.

Ég hef annars lært það undanfarið að taka því passlega trúanlega þegar framsóknarmaður segist hafa öruggar heimildir fyrir einhverju.

Fyrstu drög af upphafsorðum ritgerðarinnar:

Because of higher life expectancy and better dental care in recent times, resulting in preservation of the dental structures to an older age, periodontal diseases are gradually becoming the most prevalent disease in dental healthcare and constitute a global health problem (Barmes, 2000).

Svanavatnið

Ég fór ásamt Anel, Becky tengdamömmu og unnusta hennar á Svanavatnið síðasta miðvikudag. Þetta var í fyrsta sinn sem ég sé ballett og það var alveg ágætt. Sviðsmyndin var afar vel gerð en uppfærslan var á litlu stöðuvatni og sviðið því í þremur hlutum, tveimur eyjum og höllin var á bakkanum. Það mætti því segja að við höfum haft 180° sjónsvið yfir það sem þarna fór fram.

Á bakkanum til vinstri stóð semsagt höll prinsins, þar voru t.d. burtreiðar í fullum gangi með ekta hestum og kraðak af fólki sem dansaði lipran ballett. Þegar prinsinn fór á veiðar sigldi hann út á vatnið í bátum og lenti á eynni í miðjunni. Þar komu svanirnir og einnig byrjaði vondi karlinn að tjá sig með balletsporum en hann var hafður á hinni eyjunni lengst til hægri frá okkur séð. Reyndar var búningur hans nokkuð hryllilegur, litlir krakkar hafa eflaust orðið skelkaðir. Að auki mátti líka sjá alvöru svani synda á vatninu.

Annars er sagan sjálf mjög bjánaleg, hvernig er hægt að verða ástfanginn af svani nema þú hafir einhverjar afbrigðilegar hneigðir? En hvað um það, Tchaikovsky klikkaði ekki því tónlistin við verkið er mjög falleg.

Blogg er ofmetið

Ég fatta ekki allan þennan rembing hjá pólitískum spunabloggsmeisturum núna rétt fyrir kosningar. Þessi rætnu bloggskrif hafa nákvæmlega engin áhrif á kjósendur, þeir fáu lesendur sem renna yfir þetta eiga ekki eftir að heillast af stílbrögðum eða innihaldi þessara bloggsíðna. Líklega geta bloggskrif haft áhrif á þann hátt ef frambjóðendurnir sjálfir halda úti líflegum og læsilegum síðum, þannig geta kjósendur gert sér gleggri mynd af þeim. En froðusnakks-spunablogg frá einhverjum smámennum út í bæ eiga einungis eftir að skaða þá flokka sem þeir vilja hampa.

Þar sem flest þessi blogg koma frá Framsókn bið ég þá endilega um að skrifa sem mest og lengst.

Kunnátta Mexíkóa

Eitt af því sem Mexíkóar geta er að segja „ríddu mömmu þinni“ með bílflautunni. Oft heyrir maður þetta á götunni þegar einhver ökumaðurinn þarf að tjá gremju sína í garð náungans í næsta bíl. En ekki nóg með það því þeir sem verða fyrir barðinu á þessum frýjuorðum geta svarað fyrir sig. Mér skilst að svarið snúist um móðir þess er flautaði fyrst.

Fleiri myndir

stolmynd.JPG

Aumingjablogg bönnuð

Ég sé að BloggGáttin hefur hent Jakobi, Frey og Kommúnunni út af blogglistanum. Líklega er það vegna þess að þessar síður hafa ekki verið uppfærðar langalengi og þykja því ekki boðlegar á svona fínu kerfi. Þetta ætti að vera hvatning til Jakobs og Freys að blogga auk þess að hvetja Kommúnumeðlimi til að setja einhverja ódauðlega snilld á Kommúnuna svo að hún megi vera með á BloggGáttinni.

Ábending

Eitt af því sem vinstri menn ættu að beita sér fyrir ef þeir komast í ríkisstjórn í vor er að jafna atkvæðavægið á milli kjördæmanna. Það er óþolandi að ExBé og íhaldið fái alltaf auka þingsæti út á landsbyggðarfylgið en Þorvaldur Gylfason vakti máls á þessu síðastliðið sumar í ágætri grein. Í þróuðu lýðræðisríki ætti ekki að vera mikið mál að haga kosningum þannig að hver Íslendingur fái eitt atkvæði til ráðstöfunar í kosningum, hvorki fleiri né færri.

Ég leyfi mér að vitna í Þorvald.

Kjarni málsins er þó sá, að kosningalögin, sem Alþingi setur landinu, hygla stórum flokkum á kostnað minni flokka. Sjálfstæðis­flokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa fengið eitt til tvö þingsæti samtals í forgjöf í hverjum alþingiskosningum síðan 1979 í krafti þeirrar aðferðar, sem þeir leiddu sjálfir í lög til að úthluta þingsætum að loknum kosningum. Þessi bjögun bætist ofan á misvægi atkvæðisréttar eftir búsetu. Ef kosningalögin hér heima væru eins og þau eru í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, hefðu stjórnarflokkarnir fengið 32 þingsæti 2003 gegn 31 þingsæti stjórnarandstöðuflokkanna, og núverandi ríkisstjórn hefði þá varla verið mynduð.