Archive for febrúar, 2007

Óskarinn

Ég sá nánast ekkert af myndunum sem voru tilnefndar til óskarsverðlauna þetta árið. Reyndar sá ég The Queen í fluginu til Mexíkó og ég rændi Jesus Camp af Netinu. Svo sá ég POTC: Dead Man’s Chest og Súpermann. Mig langaði alltaf að sjá The Departed en hef ekki enn náð því. Svona er maður orðinn slappur í bíóinu eftir að hafa flutt erlendis.

Síðasta próf ævinnar?

Í dag fór ég og tók próf frá Háskólanum í Skövde hér í Mexíkóborg. Þrátt fyrir slakan undirbúning vegna svefnleysis og anna vegna barneigna þá komst ég stórslysalaust frá þessu. Þetta próf var upphaflega sett á 3. janúar en ég hafði ekki nennu í mér til að bíða eftir því í kuldanum og kvenmannsleysinu í Svíþjóð.

Það er mikill léttir að vera búinn með þetta próf. Ég hugsa að þetta verði síðasta prófið sem ég tek það sem eftir er og feginn er ég. Ef djöfullinn væri til þá væru próf ein af uppfinningum hans.

Svo er ég á leiðinni á labbann í UNAM 1. mars. Það verður nú eitthvað.

Fleiri myndir

Skellti fleiri myndum af Ara og Mexíkó á myndasíðuna.

Konan sem kyndir ofninn minn

Núna er konan sem þrífur hjá okkur vikulega frammi að ryksuga og skúra. Mér líður hálfundarlega að hafa svona þjónustulið í kringum mig. Hún tekur hundrað pesóa fyrir að vera hérna meira og minna allan daginn að þrífa, það eru um það bil 600 ISK.

Að þrífa er ráð þeirra fjölmörgu hér sem lifa í fátækt og atvinnuleysi. Reglulega kemur einhver sem býðst til þess að þrífa bílinn fyrir mann og á öllum bílastæðum hjá verslunarmiðstöðum og slíku þá er alltaf lið á staðnum sem býðst til þess að þrífa fyrir mann. Verðið á bílaþvotti hér eru 150 ISK sem er nokkuð gott miðað við prísinn heima. Einnig eru á bílastæðunum aðrir gaurar sem taka kerruna fyrir mann og beina manni með handapati út úr stæðinu, sem að sjálfsögðu kostar 1-2 pesóa.

Einnig eru alltaf einhverjir sem vilja þrífa hjá manni framrúðuna á götuljósunum við fjölfarin stræti. Stundum gera þeir það jafnvel þó að maður segi nei. Sumir þeirra eru svo skakkir og dópaðir að þeir virðast gera þetta í einhvers konar leiðslu en ég hef séð marga hérna á götunum sem eru algjörlega út úr heiminum vegna dópneyslu. Vegna þessarra dópista er ekki óhætt að vera mikið á ferli hérna, sérstaklega eftir að skyggja tekur.

Óöryggið hérna er líklega það versta við þessa borg. Það er ekki óhætt að taka almenningssamgöngur seint að kvöldi til og best er að halda sig inni á næturnar. Fátæktin knýr fólk til að bjarga sér með öllum ráðum, t.d. var Anel rænt fyrir nokkrum árum ásamt frænku hennar. Þær komust reyndar undan áður en ræningjarnir gátu heimtað lausnargjald. Það var ráðist á frænda Anelar fyrir nokkrum vikum og hann rændur. Líklega er ég í áhættuhópi hér því það er svipaður hugsunarháttur hér og í Afríku, þeir hvítu eru ríkir. Svo einfalt er það.

Skatturinn

Þetta fannst mér skondið.

Steingrímur J. komst meðal annars svo að orði, að hann væri í „sjálfu sér“ ekki „að boða skattahækkanir í heild, heldur tilfærslur, enda ekki þörf á slíku miðað við afkomu ríkissjóðs eins og hún er í dag.“ Steingrímur er þrátt fyrir þessi orð sín að boða hækkanir á sköttum þeirra greiðenda, sem líklegastir eru til að flytja af landi brott, verði gripið til úrræðanna, sem Steingrímur J. hefur í huga.

Á þá bara að hækka skatta hjá þeim sem geta ekki flutt af landi brott?

Ferðablogg

Ég fékk ábendingu í pósti um þetta ferðablogg hér. Þarna eru Rósa, Guðrún Lísbet og Steinþór í heimsreisu og eru núna á Indlandi. Verst að þetta æsir upp í manni ferðahuginn, ég á núna slatta af vinum á Indlandi sem ég gæti heimsótt t.d. Allavega þá hafði ég ekki hugmynd um þetta blogg en það er gaman að geta fylgst með þessari ferð.

Völvan

Ég ætla að spá því að ný ríkisstjórn verði mynduð á Íslandi eftir kosningarnar í vor. Það verða Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin sem mynda þá stjórn. Margir innan Samfylkingarinnar eru mjög spenntir fyrir þessum möguleika og margir innan þess flokks eru í raun til hægri við íhaldið. Samfó verður góð hækja fyrir íhaldið í staðinn fyrir Framsókn en kjósendur þess flokks munu yfirgefa hann enda stendur sá flokkur ekki fyrir neitt í pólitík nema valdagræðgi. Líklega mun Samfó ná inn um fjórðungs fylgi og ný ríkisstjórn verður í kringum 60% fylgi.

Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki ná meirihluta með Framsókn en fær umboð til stjórnarmyndunar fyrstur flokka í krafti stærðar sinnar. Samfylkingin verður fyrsti flokkurinn sem þeir leita til og Samfó liðið mun ekki geta staðist gylliboð íhaldsins um ráðherrastóla eftir langa og stranga setu í stjórnarandstöðu. Þeim hrýs einnig hugur við því að mynda stjórn með VG sem þeir líta á sem keppinauta sína um vinstra fylgið.

Enginn vill svo mynda stjórn með Ófrjálslyndum vegna þess að þeir eru durtar.

Litið á nýja skólann

Fór í dag með Anel og Ara til að líta á nýja skólann minn, rannsóknardeild tannlækninga við UNAM, einn stærsta háskóla í heimi. Háskólinn sjálfur er bæjarfélag út af fyrir sig og umhverfið þar er mjög notalegt. Allt í kringum háskólann er skógi vaxið, það er eins og maður sé kominn út úr borginni þegar komið er inn í háskólabæinn. Allt er rólegra, húsin líta mun betur út en gerist og gengur í borginni og loftið er frískara. Ólympíuleikvangurinn er einnig á þessu svæði.

Hitti prófessorinn og tvo aðstoðarmenn hans, þeir reyndust vera eiturhressir og ætla að redda öllu fyrir mig að eigin sögn. Þarf að taka eitt próf frá Skövde í næstu viku og svo byrjar ballið. Meistaraverkefnið mun ekki taka svo langan tíma, ég á að vera búinn að skila af mér ritgerðinni í byrjun júlí. Það er eins gott að það klúðrist ekki margt á labbanum, annars fell ég á tíma.

Annars er ég í engu stuði til að læra fyrir síðasta prófið, vona að það reddist einhvern veginn.

Frjálshyggjan

Það er alltaf gaman að góðu gríni.

Frjálslyndi flokkurinn

Þegar ég les um hrakninga Frjálslynda flokksins á netmiðlunum dettur mér af einhverjum ástæðum í hug leikrit Shakespeares, Ys og þys út af engu.