Archive for janúar, 2007

Nettengdur á ný

Í gær fórum við Anel í Wal-Mart (afar amerískt) og fjárfestum í nettengingu fyrir mig. Með þessari tengingu fylgdu 199 sjónvarpsstöðvar og allur pakkinn kostar mun minna en venjuleg nettenging heima á Fróni. Nú bíð ég eftir því að menn frá CableVision komi og tengi mig við umheiminn á ný, það ætti að gerast innan 10 daga. Þá geta lesendur mínir tekið kæti sína á ný. Jafnvel get ég sent einhverjar myndir héðan frá Mexíkó.

Ari Snær

Litli drengurinn braggast ótrúlega fljótt, læknirinn hér sagði að hann væri eins og þriggja mánaða barn nú þegar. Hann hefur fengið nafnið Ari Snær Lárusson Carpio. Að hætti föðursins lætur Ari hverjum degi nægja sína þjáningu. Hann kvartar sjaldan yfir nokkru en mótmælir kröftuglega ranglæti heimsins þegar það á við. Sem stendur beinast mótmælin helst að baðferðum en vonandi eiga þau eftir að þróast pólitískt þegar fram í sækir.

Ég vona að ég sé ekki að breytast í mömmubloggara eins og Drífa og Auður.

Eilíf sól

Líklega ræða Mexíkanar um veðrið á annan hátt en Íslendingar. Hér er alltaf sól og u.þ.b. 25°-30°C, tek það fram að hér er hávetur. Breytingar eru fátíðar og því ekkert til að tala um. Ég spurði Anel hvort að það rigndi aldrei hérna í þessu landi. Jú það rignir í júlí var svarið, stundum í febrúar og kannski í mars. Þar sem ég er núna er allt iðjagrænt, pálmatrén svigna í golunni undir bláum himni. Í fjarska rísa tignarleg fjöll, ég saknaði fjallana þegar ég var í flatneskjunni Svíþjóð. Hér er ástandið mun betra.

Frumburðurinn fæddur

Þann 11. janúar fæddist lítill drengur hér í Mexíkó, sonur okkar Anelar. Hann var tekinn með keisaraskurði og allt gekk það eins og í sögu. Fjölskylda Anelar er að tapa sér yfir stráknum, þegar við komum út úr skurðstofunni eftir aðgerðina biðu amman og fimm af systrum hennar ljómandi eftir okkur ásamt tveimur öðrum frænkum, en amman á víst ellefu systkini. Á stundum finnst mér eins og ég sé staddur í einhverri Guðföður myndinni, þar sem allt snýst um fjölskylduna, en þannig er það hér í Mexíkó.

Gjöfunum hefur rignt yfir strákinn, frá því áður en hann fæddist. Anel er tannlæknir og sjúklingar hennar hafa gefið henni mikið af dóti, einn gaf okkur barnabílstól og leikgrind af bestu gerð bara sisvona. Á Íslandi held ég að langsíðasti maðurinn sem ætti eftir að fá gjafir frá manni væri tannlæknirinn. Ættingjarnir hafa svo dælt yfir okkur gjöfunum. Við héldum svokallaða barnasturtu þann 29. des og fórum fullfermuð af pökkum þaðan.

Strákurinn er afar ljós á hörund, allavega miðað við Mexíkana, og svo virðist að hann sé bláeygður (við erum ekki viss). Það er frekar sjaldgæft hér í landi og svo virðist sem slík börn séu drauma barnabörn hjá sérhverri mexíkanskri ömmu. Allavega er amman og fræknurnar að fara yfirum vegna þessa. Sumar frænkurnar komu jafnvel langt að úr öðrum ríkjum Mexíkó til að vera viðstaddar atburðinn.

Í Mexíkó er kommúnismi eins og opinbert heilbrigðiskerfi lítt vinsæll hjá ráðandi stjórnmálamönnum. Það kerfi er svo slæmt að enginn leitar á náðir þess nema að hann eigi engra kosta völ. Við tókum því þann kost að fara á einkaspítala í bæ sem heitir Cuaudla, um tveggja tíma akstur frá Mexíkóborg. Þar vinnur frændi Anelar sem fæðingarlæknir og hann gat gefið okkur góðan prís, en það er ekki ódýrt að fara á einkarekin sjúkrahús eins og alkunna er. Hægri menn á Íslandi myndu væta brækurnar ef þeir sæju dýrðir einkaframtaksins hér.

Við veltum því fyrir okkur í fyrstu að eiga barnið heima á Íslandi en það gat ekki orðið vegna þess að konan þarf að hafa búið sem löglegur innflytjandi í sex mánuði þar heima til að fá fullan aðgang að heilbrigðiskerfinu. Þar sem það tekur þrjá mánuði að fá íslenskt dvalarleyfi, eftir að öllum pappírum hefur verið safnað saman, er það nokkuð augljóst að það hefði ekki gengið upp. Í rauninni er þessi staða fáránleg og brot á jafnrétti kynjanna því þetta gildir að sjálfsögðu ekki ef konan er íslensk en karlinn ekki.

Hér í Cuaudla búum við hjá frændanum og frænkunni en þau eiga heima í kastala með sundlaug og öllu tilheyrandi. Þetta er ekkert grín, húsið er byggt í kastalastíl með varðturnum og öðru kastaladóti. Við komum heim í dag af spítalanum og reiknum með að vera hér í einhvern tíma, þangað til að Anel hefur jafnað sig nægjanlega til að fara aftur í stórborgina. Kastalinn er sæmilega nettengdur þannig að ég reikna með að geta skrifað meira um Mexíkó innan tíðar.