Archive for desember, 2006

Eitt að lokum

Þá er ég farinn til Arlanda á leið til Ameríku. Ég óska öllum gleðilegra jóla, þótt seint sé og gleðilegs nýs árs. Svo er gaman að segja frá því svona í restina að við Anel eigum von á litlum dreng núna í byrjun febrúar. Það virðist sem að lífið sé á stöðugri uppleið undanfarin misseri, ég vona að uppsveiflan haldi áfram sem lengst.

Flutningar

Yfirleitt eru flutningar eitt það versta sem ég veit um. Það setur lífið algjörlega úr skorðum, pakka þarf hverjum einasta hlut sem maður hefur eignast niður í tösku og dragnast með þá langar vegalengdir. Nú ber hinsvegar við að ég skemmti mér vel yfir því að flytja. Það er ekki á hverjum degi sem maður flytur í nýtt land, hvað þá nýja heimsálfu.

Tók góðan skurk í niðurpökkun áðan, nú þegar ég er víst að yfirgefa Skövde annað kvöld. Eins og góðum neysluglöðum Vesturlandabúa sæmir hef ég fleygt heilmiklu af dóti, aðallega fötum sem sæma ekki lengur hátískumanni eins og mér. Fór einnig með nokkur kíló af námsbókum og lét einn Indverjann hafa þær. Ég veit að indverska samfélagið hér á eftir að nýta þær vel, yfirleitt hafa þeir ekki efni á því að versla sér bækurnar heldur treysta á ljósrit.

Annað kvöld tek ég semsagt lestina til Stokkhólms og þaðan fer ég á Arlanda flugvöllinn. Eldsnemma dags 27. desember flýgur svo British Airways með mig til Lundúna og þaðan fer ég beina leið til Mexíkóborgar. Ég hef einungis einn og hálfan tíma til að skipta um vél á Heathrow, vona að það blessist allt saman. Þarf að skipta um terminal en það ætti ekki að taka svo langan tíma. Síðan þegar klukkan er sex að kveldi í Mexíkó, sem væri þá miðnætti á Íslandi, lendi ég eldhress eftir tólf tíma flug á flugvellinum í Mexíkóborg. Þar ætti hjartkær eiginkona mín að bíða eftir mér. Það er að sjálfsögðu það sem ég bíð hvað spenntastur eftir.

Í aðstæðum eins og þeim sem ég hef búið við undanfarna fjóra mánuði, þá verður manni hugsað til þeirra sem þurfa að dvelja langdvölum fjarri fjölskyldu sinni. Þeir eiga samúð mína alla, þetta er algjört hundalíf að lifa svona. Ekki ætla ég að gera þetta aftur, en það varð í rauninni ekki hjá þessu komist vegna aðstæðna. Það hefði verið sóun ef ég hefði ekki lokið þessu litla í náminu sem ég átti eftir. Einnig gefur verkefnisvinnan manni tækifæri til þess að komast inn í hlutina þarna vestra og hafa eitthvað fyrir stafni næsta hálfa árið, í stað þess að vera eins og áttavilltur vindhani fyrstu mánuðina.

Set inn eina færslu á morgun (sem er eiginlega í dag) sem verður líklega sú síðasta í bili, því nettengingar flokkast undir munað í Mexíkó. Líklega verður blogg, sem og önnur netstarfsemi, í lágmarki þangað til í mars, þegar ég fer í háskólann þar ytra. Eiginlega hlakka ég til þess að vera laus við Netið og sjónvarpið í bili. Ég hef eytt skuggalega miklum tíma á Netinu undanfarið misseri. Sjónvarpsgláp verður líka í miklu lágmarki þar sem ég bannaði konunni að kaupa áskrift að stöðvum sem sýna efni á ensku, en hún hafði áhyggjur af því að spænskt sjónvarp væri ekki nógu gott fyrir mig. Í staðinn ætlum við konan að stunda kvikmyndahús eins og menningarlegu fólki sæmir.

Eins og sjá má þá sé ég fram á bjartari tíma, eins og stjórnmálamennirnir orða það.

Heathrow

Lundúnaþokan leggst illa í mig, ég á að millilenda þarna eftir fimm daga. Ef ástandið hefur ekki skánað þá er ég í djúpum.

Prósentur

Það er hægt að leika sér með prósentureikning fram og aftur. Nær væri hjá Vefþjóðviljanum að gefa upp tölur, eins og magn og hver aukningin í Bandaríkjunum er í hlutfalli við íbúa sem dæmi. Einhvern veginn grunar mig að þessi samanburður verði óhagstæðari þá.

Annars skil ég ekki hvernig þessar tölur skipta þá máli því þetta vefrit hefur oft haldið því fram að gróðurhúsaáhrifin séu ekki til, eða í besta falli þá eru þau bara gott mál.

Upplausn

Enn einu sinni liðast samfélagið mitt í sundur hér á stúdentaheimilinu, þegar að skiptinemarnir fara aftur til síns heima. Þetta er reyndar ekki svo slæmt núna því ég hef verið afar andfélagslegur allt þetta misseri og hef því ekki svo náin tengsl við fólkið. Samt sem áður eru þarna nokkrir góðir kunningjar sem eftirsjá er að. Sérstaklega fyndni Hollendingurinn og hressi Þjóðverjinn.

En það þýðir líka að það styttist í brottför mína til Mexíkó. Ég er orðinn þreyttur á því að segja fólki hvenær ég fer burt svo ég set það hér. Brottför er áætluð 26. desember frá Skövde og eldsnemma að morgni dags 27. desember fer ég frá Svíþjóð. Þar hafið þið það.

Pakki í pósti

Í dag fékk ég pakka í póstinum, ekki böggul. Gladdist ég mjög yfir innihaldi hans en Nóa-konfekt og harðfiskur eru sjaldséð hlunnindi hér í Svíþjóð. Svo fékk ég jólagjafir og konan líka, við þökkum fyrir okkur.

Enn einni tegundinni útrýmt

Svo virðist vera sem að kínverska vatnahöfrunginum hafi verið með öllu útrýmt á þessu ári, samkvæmt þessari frétt frá BBC. Þessi tegund var undir miklu álagi síðastliðna áratugi vegna aukinnar rányrkju mannsins, skjótri iðnvæðingu Kína auk mengunar. Líklega hafa framkvæmdir við Þriggja Gljúfra Stífluna flýtt fyrir útrýmingu hans en Yangtze fljótið var eina búsvæði hans.

Það er afar sorglegt að heyra þessi tíðindi. Ferskvatnshöfrungar eru sjaldgæfir en þessi tegund var ein af fjórum, hinar finnast í Indlandi og Amazon fljótinu. Líffræðilegur fjölbreytileiki jarðar minnkar með hverju árinu sem líður. Að lokum verður ekkert eftir nema menn, húsdýr þeirra, rottur og kakkalakkar. Mikið verður það dásamlegur heimur.

Milton

Það er mikið talað um látinn hagfræðing þessa dagana. Ég velti því fyrir mér hvort margir af gagnrýnendum Freidmans hafi lesið eitthvað eftir kallinn, þá meira en Wikipedia síðuna um hann.

Góður efnahagur

Ég hef lært það að undanförnu að pyntingar og morð skipta ekki svo miklu máli, meðan að efnahagurinn er góður hjá þeim sem stóð fyrir þessu.

Lýðræðishalli

Hvað skyldu þeir segja sem kvarta hvað mest yfir lýðræðishallanum í Evrópusambandinu yfir ástandinu í Bandaríkjunum? Þingmeirihluti demókrata í öldungardeildinni veltur á heilsufari þeirra, ef einn veikist svo að hann geti ekki gegnt störfum sínum þá getur það gerst að repúblikani taki sæti hans í staðinn! Býður þetta ástand ekki líka hættunni heim? Það verður afskaplega freistandi fyrir stjórnvöld á hverjum tíma, sérstaklega fyrir jafn siðlausa og spillta stjórn og nú situr í BNA, að láta eitthvað óhapp henda þingmenn svo að hægt sé að skipta þeim út fyrir einhverja sem eru þeim þóknanlegri.