Archive for nóvember, 2006

Minnimáttarkennd forsætisráðherrans

Ég sá svo furðulega klausu á mbl.is í dag að ég verð að skella henni inn í heild sinni. Fréttin fjallaði um ræðu formanns Framsóknar um ummæli hans um að stuðningur Íslands við þjóðarmorðið í Írak hafi verið feilspor.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði sérkennilegt þegar talað væri eins og Ísland hafi verið beinn aðili að innrásinni í Írak. Geir sagði, að ákvarðanir stjórnvalda á sínum tíma hefðu verið, að leyfða lendingar og flug í íslenskri lofthelgi í tengslum við hernaðaraðgerðirnar eins og oft hefur verið gert áður við svipaðar aðstæður. Þá hefði verið ákveðið að veita 300 milljónum króna til mannúðaraðstoðar og enduruppbyggingar í Írak og þá fjárveitingu hefði Alþingi veitt. Síðan hefði ríkisstjórnin tekið ákvörðun um, að amast ekki við því, að Ísland væri á lista yfir hinar svokölluðu staðföstu þjóðir. Sagði Geir það vera furðulegt stærilæti í fólki, að halda að Íslendingar skipti einhverju máli í alþjóðasamhengi; að afstaða þeirra hafi skipt einhverju máli í tengslum við Íraksmálið.

Ég skil varla hvernig Geir nennir að mæta í vinnuna á morgnanna, stýrandi jafn ómerkilegu landi og litla Íslandi. Það er líka hægt að snúa orðum hans við, ef Ísland er svona lítilmótlegt í augum alþjóðasamfélagsins, afhverju bitu stjórnvöld þá í skjaldarrendur til að byrja með? Var ekki hægt að láta lítið fyrir sér fara, þar sem Ísland er nánast ósýnilegt í alþjóðasamfélaginu?

Þetta er nánast jafn aum afsökun eins og hjá Sjálfstæðiskellingunni sem sagði að ekki væri hægt að hugsa til framtíðar þegar ákvarðanir væru teknar. Kannski er rétt að koma þessari djúpu heimspeki á framfæri víðar svo að fólk hætti þeirri firru að hugsa sífellt til framtíðar við áætlanagerðir sínar.

Sami aumi kattarþvotturinn og vesaldómurinn kemur fram í skrifum Björns Bjarnasonar þar sem hans afsökun er sú að Íraksstríðið hafði átt sér stað, sama hvað Íslendingar hefðu gert. Það kemur mér eiginlega á óvart hvað sjálfsálit og sjálfsvirðing þessara stjórnmálamanna er á lágu stigi. Auðvitað skiptir það máli hvað sjálfstæð þjóð sem er aðili að NATO og Sameinuðu Þjóðunum hefur að segja um ákvarðanir á borð við skipulögð þjóðarmorð í þriðja heiminum. Látið engann segja ykkur annað.

Innrásin í Írak var mannanna verk, skipulögð og framkvæmd af mönnum. Hún var ekki einhver óhjákvæmilegur atburður, eins og sólarupprásin, né heldur fyrirfram ákveðin af örlögunum eða goðunum. Hún var verk veruleikafirrtra manna sem telja að vopnavald geti leyst öll vandamál heimsins. Það er okkar ábyrgð að koma í veg fyrir að þeir haldi áfram uppteknum hætti við myrkraverk sín.

Pakki frá Indónesíu

Ég fékk í gær pakka frá Indónesíu, ekki á hverjum degi sem það gerist. Pakkinn var frá félaga mínum Erwin, sem bjó hér í Hasslum á síðasta misseri. Hann innihélt kort frá honum og hans ektakvinnu, auk lítillar myndar af Prabu Kresna. Nú gæti einhver spurt sig hver það sé, allavega vissi ég það ekki áður en ég eignaðist mynd af honum.

Prabu Kresna er ein af hetjum Mahabharata, sem er forn-indverskt söguljóð. Ég hef verið að lesa mér til um þetta en sagan er talsvert flókin auk þess sem hinir fjölmörgu guðir hindúa blandast inn í málið. Þessi saga er þó þekkt víða í SA-Asíu, t.d. á Java þar sem myndin góða er upprunnin. Hún lítur nokkurn veginn svona út, tekin af Wikipedia á indónesísku.

Annars er Erwin orðinn kennari við háskólann í Jakarta. Það er eitt af langtímamarkmiðum mínum að heimsækja kallinn þangað við tækifæri.

Mario og Luigi villast af leið

Fyrirlesarinn veikur

Reif mig á fætur áðan til að mæta í fyrirlestur en nú brá svo við að kennarinn var veikur. Kannski er það góðu heilbrigðiskerfi að þakka en ég man ekki eftir því að þetta hafi komið fyrir mig áður í þessum skóla hér í Svíþjóð.

Núna er of snemmt til að fara að læra eða snæða hádegismat og ég bý of langt frá skólanum til að ég geti farið aftur heim og lagt mig. Ætli maður dundi sér ekki á Netinu þangað til að ég get fengið einhvern mat hérna á svæðinu.

Breytt útlit

Nú hef ég tekið upp nýtt og bætt útlit, hannað af engum öðrum en Elíasi Jóni. Einu sinni var síðan mín svona, síðan svona og nú er hún eins og hún er í dag. Líklega hefur hún aldrei verið skárri útlitslega.

Það er eitt og hálft ár síðan að ég breytti útlitinu síðast og kominn tími til. Orðrómur á spjallvefjum dæmdi gömlu síðuna sem „hrikalega ljóta“. Ég vona að þetta útlit falli í betri jarðveg. Á reyndar eftir að snurfusa eitt og annað ásamt því að fela koppí-peist slóðina.

Flokkur Liebermans

Frelsi og Franskar er skemmtilegt blogg um stjórnmálin vestur í Kanalandi. Það er stórfyndin grein hér um þegar Joe Lieberman stofnaði stjórnmálaflokk um sjálfan sig til að koma sér á þing, en láðist að skrá nokkurn mann í hann, þannig að flokknum var rænt af illum háskólaprófessor. Hann skráði sig í flokkinn, hélt aðalfund með sjálfum sér og kaus sjálfan sig sem formann í flokki Liebersmans!

Svona hugmyndaríkt fólk er til fyrirmyndar.

Karl

Ég er að hugsa um að skipta út orðinu maður fyrir karl í mínu daglega málfari. Hvað getur karl sagt? Karl er orðinn þreyttur á ástandinu. Hvað segir þú karl, ertu sammála því?

Heildrænt heilbrigðiskerfi

Að gefnu tilefni vil ég vara fólk við því að kjósa þá í prófkjöri sem upphefja gamlar og nýjar skottulækningar á kostnað læknavísindanna og framtíðarsýn þeirra í heilbrigðismálum felst í einhverjum ósköpnuði sem kallast heildrænt heilbrigðiskerfi.

Sóun

Þar sem í ljós hefur komið að lesendur þessa bloggs eru ómenntaðir almúgamenn upp til hópa og myndu ekki þekkja prótein frá peptíði þótt þeir ættu lífið að leysa, þá verð ég sjálfur að finna mér ritgerðarverkefni.

Kannski les enginn þessa síðu lengur eftir að Mikkivefur hætti að virka. Hvílík sóun á texta.

Hvaða prótein?

Nú liggur fyrir verkefni í lífefnafræði próteina þar sem ég á að taka fyrir prótein og skrifa margar margar blaðsíður um það. Tillögur óskast um hvaða prótein ég á að taka fyrir.