Archive for október, 2006

Leigusamningi sagt upp

Nú er ég búinn að tryggja það að ég verði heimilislaus hér í Svíþjóð frá og með áramótum. Hins vegar býður mín betra heimili í annarri heimsálfu þannig að ég þarf ekki að kvarta.

Gegn hommafóbíu í Færeyjum

Ég vil benda fólki á þennan undirskriftalista sem senda á færeyska lögþinginu til að mótmæla bágri stöðu samkynhneigðra þar í landi. Í nóvember á að greiða atkvæði um lög sem banna það að níðst sé á samkynhneigðum með hótunum og öðru slíku. Það hefur áður verið kosið um þessi lög en þau voru þá felld með miklum meirihluta og sumir þingmennirnir gerðu það með Biblíuna í annarri, en kristin trú hefur því miður enn mikil ítök í Færeyjum. Ágætt dæmi um skaðsemi trúarhugmynda reyndar.

Það er sorglegt að sjá hvernig staðan í þessum málum er hjá frændum okkar í Færeyjum. Íslendingar vita þó af eigin reynslu að það tekur ekki langan tíma að kippa þessu í liðinn ef menn taka höndum saman gegn trúarofstækinu. Skrifið undir og sýnið færeyska lögþinginu í verki að mismunun á grundvelli kynhneigðar er tímaskekkja.

Næsta mál á dagskrá

Í gær tók ég próf í krabbameinsfræðum og er nokkuð öruggur um að það hafi gengið stóráfallalaust fyrir sig. Eftir það einbeitti ég mér að því að gera ekki neitt enda hef ég lítið gert undanfarið en að lesa fyrir það. Næsta mál er svo próf í erfðatækni næstkomandi föstudag. Af því hef ég minni áhyggjur heldur en prófinu í gær, það er þó eitthvað sem ég hef áhuga á og skil sæmilega.

Blaður um fræga fólkið

Skelfilega leiðist mér þetta blaður um Madonnu og krakkann hennar. Ég segi fyrir mig að konan á hrós skilið fyrir að bjarga einu barni frá því að alast upp í fátækt og vesaldómi í Malaví. Nú er ég svo veraldarvanur að ég hef verið í Afríku og ég get vottað það að enginn ætti að þurfa að búa við þær aðstæður sem fólk þarf að sætta sig við þarna. Fólk sem vælir um að ekki hafi verið farið að einhverjum lagabókstaf er alveg úti að aka. Ef taka ætti öll lög bókstaflega þá væri bannað að ferma krypplinga í kirkjum landsins. Kannski er það ennþá bannað, hver veit?

Framþróun Kommúnunnar

Gæluverkefni kommúnumeðlima, sjálf Kommúnan hefur verið á tilraunastiginu talsvert lengi. Núna hefur ný útgáfa litið dagsins ljós og hófleg en skipuleg markmið hafa verið sett fram um hvernig greinaskrifum verði háttað þarna í náinni framtíð. Sjálfur setti ég inn lítið greinarkorn í dag samkvæmt þeirri fimm ára áætlun sem nú liggur fyrir. Sjáum svo til hvernig þetta þróast.

Prófatörn

Enn ein prófatörnin í gangi, próf í sameindalíffræði krabbameina á fimmtudaginn og svo er það erfðatæknin 3. nóvember. Ég er ekki að höndla vel fyrri kúrsinn, hann er mjög þungur og ég hef engan sérstakan áhuga á krabbameinsfræðum. Hinu prófinu hef ég litlar áhyggjur af enda áhugavert efni sem ég kann alveg sæmilega vel. Auk þess hef ég góðan tíma til að lesa fyrir það.

Annars er ég alveg á síðasta snúning í þessu námi mínu, hlakka mikið til í desember þegar þessu kúrsastandi lýkur og ég get farið til Mexíkó til minnar heittelskuðu.

Hvalveiðar

Einn af þeim sem hefur verið í hvalaskoðunarbransanum sendir Ögmundi lesandabréf og segir frá því að eftir að vísindaveiðarnar voru leyfðar aftur 2003 hafi hrefnan orðið styggari og fáséðari. Ég gæti vel trúað þessu. Dýrin eru ekki svo vitlaus, að ég tali ekki um hvalina.

Ísland í heimsfréttunum

Oft horfi ég á BBC News þegar ég ryð í mig hádegismatnum hérna á stúdentaheimilinu. Ég man ekki eftir því að hafa heyrt Ísland nefnt á þessari stöð áður en ég horfi nokkuð reglulega á einn og einn fréttatíma. Nú bar svo við í gær að Ísland var í fyrirsögn.

Það var ekki útaf stærstu stíflu Evrópu, njósnastarfemi í Kalda stríðinu eða fyrirhuguðum þingkosningum í vor. Nei, Íslendingar hefja atvinnuhvalveiðar á ný, var fyrirsögnin.

Þetta sem sumir segja um ímynd landsins út á við er nefnilega ekki út í loftið. Fæstir vita nokkuð um Ísland hérna úti, ég er iðulega spurður að því hvaða tungumál er talað þarna, jafnvel af fólki frá nálægum löndum eins og Þýskalandi. En margir vita að Íslendingar veiða hvali og eru því mótfallnir.

Þó að ég hafi persónulega ekkert á móti því að nokkrir hvalir séu skotnir og étnir þá er spurning um hvort að verið sé að taka minni hagsmuni fram yfir meiri.

Dvergaklám

Mig dreymdi að ég væri á Íslandi í sveitinni heima og ég reikaði um holt og haga. Þar varð á vegi mínum andlegur dvergur sem sat á stein og skrifaði bók lífsins. Ég bað um að fá að líta í bókina og hann rétti mér hana fúslega. Af handahófi opnaði ég bókina á blaðsíðu 15. Þar var upphaf kafla um tilfinningar sem hófst á eftirfarandi orðum:

Tilfinningar eru sannar og óumdeilanlegar. Hver sá sem er ekki sammála tilfinningum annarra er ofstopadvergur. Þú getur öðlast sömu hlutdeild og ég í tilfinningunum ef þú fylgir mínu fordæmi.

Aldrei ræða tilfinningar þínar við þá sem eru tilfinningalausir, það hefur ekkert upp á sig því þeir hafa ekki sama skilning og þú. Stofnaðu félag um tilfinningar þínar og krefðu alla dverga um peninga fyrir rekstrinum. Útbreiddu tilfinningar þínar meðal ungdverga, meðan þeir eru nógu ungir til að trúa þér. Láttu táningsdverga taka tilfinningapróf í tilfinningunum og verðlaunaðu þá fyrir vikið. Legðu undir þig drjúgan hluta af dvergablöðunum til að ræða tilfinningar þínar. Sjúkrahælin hafa þörf fyrir tilfinningaríka dverga, farðu þangað og deildu tilfinningunum með veiku dvergunum. Stofnaðu háskóladeildir í tilfinningafræði og kenndu hana sem hún væri drotting allra vísinda.

Ég spurði dverginn afhverju hann væri að skrifa svona þvælu. Hann brosti ljúflega og sagði að það kæmi mér ekki við, þetta væri tilfinningamál og mikill leyndardómur. Svo tók hann af mér bókina, lokaði henni og sagði að það væri bannað að setja sig upp á móti Bókinni. Hver sá sem það gerir á yfir höfði sér reiði Jójójúbba, en hann hefur haft það lengi á tilfinningunni að það sé almáttugur ósýnilegur golsóttur hrútur sem stangar hvern þann harkalega sem gerir dvergum illt.

Ég rankaði við mér í bælinu heima, hálf ringlaður yfir þessu öllu. Mikið var ég feginn að vera í Svíþjóð, í góðri fjarlægð frá íslenskum dvergum og hrútunum þeirra.

Fölsk hamingja?

Ég held að menn sem finna sig knúna til að lýsa því yfir að þeir séu hamingjusamir í hvert einasta skipti sem þeir blogga séu að sannfæra sjálfa sig um eitthvað sem ekki stenst.