Archive for september, 2006

Hátæknistörf

Horfði á Hálslónið fyllast í fréttunum að heiman í gegnum netið. Mér líður hálfilla yfir því að horfa upp á þetta. Forsætisráðherran skilur ekkert í fólki sem er á móti þessu og öllum þeim „hátæknistörfum“ sem verða til í álverinu á Reyðarfirði við þessar framkvæmdir. Orðið hátæknistarf hefur verið all-svaklega gengisfellt ef verkamannastörf við framleiðslu áls falla nú í þann flokk.

Fyrsti kvenkyns geimferðalangurinn

Afhverju kallar Netmogginn þessa konu fyrsta kvenkyns geimferðalanginn?? Fjölmargar konur hafa farið út í geiminn, farið í geimgöngu, stjórnað geimskutlum eins og sjá má á þessum lista. Hvað var svona sérstakt við þessa ferð?

Hálslón fæðist

Búið er að loka stíflunni við Kárahnjúka og Hálslón hefur tilvist sína. Ég vona að þetta verði síðasta vatnsaflsvirkjunin sem reist verður á Íslandi. Held reyndar að þetta verði úrelt tækni til raforkuöflunar innan áratugs.

Niður með stóriðjuríkisstjórnina!

Ummæli dagsins

Reyndar nokkurra daga gömul. Stefán Einar um nýkjörinn formann Heimdallar.

Það er líka rétt að halda því til haga að sumu fólki virðist fyrirmunað að geta tekið sigri sínum á mannsæmandi hátt, ég skammaðist mín fyrir að vera heimdellingur þegar nýkjörinn formaður missti stjórn á sér svo að aldrei mun gleymast þeim sem horfðu á, nánast eins og um sirkusatriði einhverskonar primata væri að ræða.

Verkefnið mitt

Fékk í gær lýsingu á lokaverkefninu mínu sem ég held að gæti verið nokkuð spennandi. Það er hluti af stærri rannsókn sem miðar að því að finna út hvaða ferlar liggja að baki myndun stoðvefjar í tönnum manna. Mitt verkefni snýst um nýlega uppgötvað prótein, CEMP1, en ég á að ákvarða hlutverk þess í myndun steinungs (cementum) sem er ysta lag rótarinnar í tönnum. Ég mun þar notast við hina nýlegu siRNA tækni til að bæla tjáningu þess í frumuræktum.

Þetta mun allt fara fram á rannsóknarstofu í frumulíffræði við tannlæknadeild UNAM sem mun vera stærsti háskólinn í Mexíkóborg. Hann var stofnaður 1551 og mun því vera næst elsti háskóli Rómönsku Ameríku. Samkvæmt Wikipedia voru núna í ágúst skráðir 290.000 nemendur í honum sem gerir hann að tíunda stærsta háskóla í heimi. Tímaritið The Times segir að þetta sé besti háskóli Rómönsku Ameríku þannig að gæðin á náminu ættu að vera í fínu lagi.

Herlegheitin hefjast opinberlega 1. febrúar á næsta ári og ég reikna með 6-8 mánuðum í þetta verkefni. Þetta verður án efa stuð.

Samruninn hafinn?

Hvaða listi er þessi BD og hverjir kusu hann?

Velferðarkerfinu hafnað

Vefþjóðviljinn túlkar kosningaúrslitin í Svíþjóð þannig að velferðarkerfinu hafi verið hafnað! Einhvern veginn held ég að fáir Svíar tæku undir þá söguskýringu.

Held að vel rekin kosningabarátta Moderaterna ásamt því að hamra stöðugt á hræðsluáróðri a la Framsókn að „það verður að fjölga störfum í landinu því annars erum við öll skrúfd“ hafi haft sitt að segja.

Móðuharðindin nálgast

Þetta fannst mér nokkuð skondið bréf hjá Ögmundi.

Geislavirkni

Það er alltaf gaman að lesa öryggisbæklinga varðandi vinnu á tilraunastofum. Ég hef undir höndum einn bækling sem leggur manni lífsreglurnar ef svo kynni að fara að maður ætti eftir að gleypa geislavirk efni af slysni. Undir hvaða kringumstæðum gleypir maður geislavirkt efni af misgáningi?

Annars er ég orðinn sannfærður um af öllum þessum öryggisbæklingalestri að starfsaldur sameindalíffræðinga er líklega að meðaltali ca. 12 ár. Eftir það eru þeir allir snúnir aftur til móður náttúru vegna allra þeirra eitraðra-ætandi-ofnæmisvaldandi-ertandi-krabbameinsvaldandi efna sem þeir eru í snertingu við daglega, að ógleymdum þeim efnum sem geta sprungið í höndunum á manni. Ekki má heldur gleyma veirunum, sveppunum, sníkjudýrunum og bakteríunum sem menn vaða í alla daga.

Þetta valdi ég mér af fúsum og frjálsum vilja. Maður er náttúrulega klikk.

Nýir félagar

Haukur og Silja hafa verið innlimuð í Kommúnuna og vil ég bjóða þau velkomin. Þau hafa hingað til verið feimin við að tjá sig á nýja staðnum, vona að úr rætist bráðlega.