Archive for ágúst, 2006

Einkamál

Sjaldan minnist ég á einkamál á þessari síðu því slíkt finnst mér að eigi ekki heima á Veraldarvefnum. Nú verður brugðið út af þeirri venju af sérstöku tilefni. Ég var nefnilega að gifta mig á laugardaginn yndislegri stúlku. Hún heitir Anel Janneth Carpio Morales og er frá Mexíkó, tannlæknir að mennt. Erum við afar lukkuleg með það eins og gefur að skilja.

Þeir sem vilja ítarlega brúðkaupssögu verða að hafa samband upp á gamla mátann. Ég vil þakka þeim sem héldu kaffisamsæti af þessu tilefni í gær á Baldursgötunni og þeim sem mættu. Á næsta ári stendur til að endurtaka leikinn í Mexíkó og þar verður veisla þar sem öllum sem þekkja mig er boðið.

Þetta er án efa ánægjulegasta blogg sem ég hef fært til bókar.

Plútó lækkuð í sessi

Ég hef haldið því fram alveg síðan að ég lærði stjörnufræði í FVA hjá Finnboga Rögnvaldssyni fyrir sjö árum síðan að Plútó er ekki eiginleg reikistjarna. Mikið gleðst ég yfir því að vísindasamfélagið hafi loksins tekið mark á mínum sjónarmiðum.

Fyrirspurn

Getur einhver lánað mér vídeóvél eða sagt mér hvar hægt er að leigja slíkan grip?

Afmæli

Rétt er að óska Stínu systir til hamingju með stórafmælið þann 20. ágúst, betra seint en aldrei. Svo átti pabbi líka afmæli þann 11. ágúst og ég óska honum til hamingju með það en þar sem að hann kann hvorki á tölvu né internet þá fer þessi kveðja líklega forgörðum.

Jón formaður

Framsóknarmenn draga hvergi af sér í dýrlegu pólitísku sjálfsmorði sínu. Það verður ný ríkisstjórn eftir næstu kosningar, sama þó að íhaldið fái 45% þá ná þeir ekki meirihluta með ExBé. Ekki get ég ímyndað mér að nýji formaðurinn eigi eftir að selja.

Heim á morgun

Fer heim á morgun eftir viðburðasnauða viku hér í Svíþjóð. Svo virðist sem að pappírarnir sem Svíarnir senda manni á sumrin þar sem maður er beðinn um staðfestingu á kúrsaskráningu hafi alls enga merkingu. Allavega var mér sagt að vera ekkert að stressa mig á því þótt ég hafði ekki staðfest mig. Ruglaðir þessir Svíar.

Hasslum er að fyllast af nýju fólki. Hlutfall þýskra karlmanna er einum of hátt að mínu mati en ég hef ekki tölu á þeirri manntegund sem er að hreiðra þarna um sig. Einnig eru þarna fólk frá frumlegum löndum eins og Grikkir og Ungverjar. Þetta verður örugglega sæmilegt misseri.

Prófi lokið

Var að ljúka prófi. Árangur óviss en ég er nokkuð bjartsýnn um að hafa seiglast þetta.

Þetta mun vera fyrsta sumarprófið sem ég hef tekið. Þau verða líklega (vonandi) ekki fleiri og reyndar á ég ekki mörg próf eftir á háskólastigi. Ekki á maður eftir að sakna þeirra, það er nokkuð ljóst.

Nú getur maður snúið sér að þarfari hlutum það sem eftir lifir sumars. Fer aftur á klakann á miðvikudaginn og sný svo aftur 3. september til Svíþjóðar þar sem ég á eitt misseri eftir í kúrsum. Lokaverkefnið verður svo tekið eftir áramót og það eru stigvaxandi líkur á því að það eigi eftir að eiga sér stað í Mexíkóborg, af öllum stöðum. Nánar um það síðar.

Pakk

Mig langar að nota mörg stór ljót orð yfir hyskið sem birti heilsíðuauglýsingu í Mogganum í gær, á gleðidegi samkynhneigðra, þar sem auglýstur er möguleikinn á „frelsi úr viðjum samkynhneigðar“. Hér er að sjálfsögðu kristilegur samstarfshópur á ferðinni en fólk af því sauðahúsi hefur allt að því sjúklegan áhuga á kynhegðun annars fólks. Svo mikill er áhuginn að skrifaðar eru heilu greinarnar um þetta mál á Kaþólska kirkjunetinu og víðar á öðrum vefjum helgaður trúmálum.

Með þessari auglýsingu sýna þeir trúarnöttarar sem að henni stóðu glöggt fram á skaðsemi trúarhugmynda. Vegna þess að í gamalli skræðu, sem trúmenn telja vera bók lífsins, er talað illa um samkynhneigð þá telja þeir sig vera knúnir til að mótmæla samkynhneigð og jafnvel hjálpa samkynheigðum yfir í gagnkynhneigðina (með heilaþvotti). Hræsnin í þessari umræðu er að sjálfsögðu botnlaus því ekki sér maður kristilega samstarfshópa birta heilsíðuauglýsingar sem beint er gegn hjónaskilnuðum og humarsáti, en það er einnig bannað í Biblíunni.

Ég tel að í raun sé ekkert til sem heitir illska eða illmenni, einungis fólk sem er þjakað af ranghugmyndum og gjörðir þeirra markast síðan af þeim ranghugmyndum. Trúarbrögð hafa í gegnum tíðina verið ríkuleg uppspretta ranghugmynda og þjáningarnar sem mannkynið hefur liðið vegna þeirra nánast botnlausar. Fordómar í garð samkynheigðra hafa sem betur verið verið á hröðu undanhaldi víða um heim undanfarna áratugi í kjölfar betri upplýsingar og fordómalausrar umræðu, en þeir fordómar eru einmitt afsprengi trúarbragðanna. Hommafóbían sem sást í Mogganum í gær má líta á sem háværa dauðahryglu þeirra og ég hef trú á því að eftir nokkur ár eða örfáa áratugi eigi þessi heimska eftir að heyra sögunni til.

Það sem mér finnst líka alvarlegt í þessu er dómgreindarleysi Morgunblaðsmanna að birta þessa auglýsingu á þessum degi. Blaðið missir töluverða virðingu út af þessu í mínum augum og líklega margra annarra. Þeir eiga að skammast sín, allir þeir sem að þessu stóðu.

[Sjá einnig umræðu um sama mál á Vantrú og hjá Matta]

Mér fannst þessi alltaf hálfleiðinlegur í bókunum…

Siv formaður

Það er ljóst að stjórnmálaflokkur á ekki marga góða forystumenn þegar að skásti kosturinn til formanns er orðinn Siv Friðleifs. Annars var ég að vona að Jón Sigurðs yrði kjörinn formaður, hann er svo innilega laus við allan kjörþokka að vonlaust yrði fyrir Framsókn að sækja fram með hann við stjórnvölinn.