Archive for júlí, 2006

Myrkur

Mér finnst alltaf notalegt að hafa örlítið myrkur aftur á næturnar. Eins og að hitta gamlan kunningja sem maður hefur ekki hitt lengi. Bráðum sjást stjörnurnar á ný, ég hef saknað þeirra.

DHL

Mér fannst DHL menn rokka þegar þeir sendu pakka frá Mexíkó til Íslands á einungis tveimur dögum. Þeir töpuðu þó virðingunni ansi fljótt þegar það tók þá fimm daga að senda pakkann áfram frá Sundahöfn upp í Bústaðahverfi.

Ástarkveðjur frá Ísrael

Vésteinn bendir á myndir frá Ísrael sem sýna börn skrifandi kveðjur á sprengjur sem síðan eru sendar yfir landamærin til Líbanon. Þegar maður sér eitthvað svona fyllist maður grunsemdum um að þetta hljóti að vera sett á svið. Samt sem áður ef hugsað er út í það, ef menn hafa geð í sér til að sprengja fólk í öðrum löndum þá er það lítill glæpur í samanburði að skrifa kveðjur á sprengjurnar.

Viðbjóður allt saman. Niður með Ísrael!

Firn

Eitthvað undarlegt er að gerast í Reykjavík. Það er gott veður úti.

Líbanon

Ég óttast að innrás Ísraela í Líbanon gæti hafa verið hið þekkta korn sem fyllir mælinn. Hef enga trú á því að Sameinuðu Þjóðirnar eigi eftir að geta beitt sér þegar að öflugsta aðildarlandið beitir sér á móti öllum aðgerðum sem gæti styggt heilaga ríkið. Ísraelar fara sínu fram í krafti auðs, herstyrks og stuðnings Bandaríkjanna. Brjálæðingar sitja á valdastóli í Íran, öfgasinnuð samtök vaxa í M-Austurlöndum sem eðlilegt andsvar við árásum Vesturveldanna á þetta svæði. Jafnvel er farið að tala um möguleika á kjarnorkuárásum, bölvað rugl er þetta alltaf hreint.

Letin

Hversu latt getur fólk verið þegar það kaupir niðursoðið spagettí í dós?

Lausnir á vandamálum

Nýi meirihlutinn í borginni virðist ekki hafa áhuga á að beita sér í alvöru vandamálum sem þeir þurfa að taka á heldur búa þeir sér til þægileg vandamál til að leysa. Sem dæmi hafa þeir fundið umferðarteppu í smábænum Reykjavík sem leysa skal með þriggja hæða mislægum gatnamótum sem gætu sómt sér vel í hvaða bandarískri stórborg sem er. Einnig er þeim mjög í nöp við máva og ætla að fækka þeim með einhverjum aðgerðum.

Athafnastjórnmálin blífa sem aldrei fyrr.

Vesalingar

Ég dauðvorkenni mörgum hægrimanninum fyrir að vera uppi á tímum þegar að Sovétríkin eru dauð. Miðað við hvað þeir þreytast seint á því í dag að vitna til þeirra núna, gæti maður varla ímyndað sér hversu öflugir þeir væru í að rakka þau niður, væru þau á annað borð ennþá til á okkar dögum.

Guð á klósettinu

Þegar ég var lítill velti ég því mikið fyrir mér hvort að þessi guð, sem manni var kennt um í kristnifræði í skólanum, fylgdist með því hvað ætti sér stað á salerninu. Nú hafa hámenntaðir guðfræðingar loksins svarað þessari brýnu spurningu og viti menn, svarið er já! Svarið má lesa hér, neðst á síðunni sem svar við fyrirspurn Vésteins.

Salsa í kvöld

Líklega er það salsakvöld á Kaffi Kúltúra í kvöld og kannski verður litið við í Kolaportinu í dag. Annars er ég latur þessa helgi og nýt þess að þurfa ekki að gera neitt.