Archive for júní, 2006

Sértrúarsöfnuður?

Þeir sem hafa vondan málstað að verja velja oft að ráðast gegn persónum þeirra sem hafa skoðanir sem samrýmast ekki þeirra eigin. Það er jú miklu auðveldara að rakka niður fólk heldur en að hrekja góð rök, sérstaklega þegar maður hefur engin mótrök sjálfur. Dæmi um þessa taktík má sjá hjá ungum Íhaldsmönnum í grein gærdagsins, Sértrúarsöfnuður trúleysingja, þar sem Vantrú og Richard Dawkins, helsti gestur trúleysisráðstefnunnar Jákvæðar Raddir Trúleysis, eru rakkaðir niður.

Nú væri það ágætt ef ungir íhaldsmenn hefðu sýnt einhverja tilburði í að færa rök fyrir máli sínu því þá hefði ég eitthvað til að skrifa um. Hins vegar láta þeir það ógert og draga þess í stað upp einhverja skrípamynd af Vantrú og Dawkins sem stendur í litlum tengslum við raunveruleikann. Okkur eru gerðar upp skoðanir á borð við þessar:

Í viðtali í Kastljósi beitir Dawkins því helst fyrir sér að þeir sem trúa á eitthvað hugsi ekki. Þeir sem á eitthvað trúa hugsi ekki sjálfstætt og jafnvel ekki neitt. Svipaðar röksemdir eru hafðar uppi á vantrúarsíðunni – það eru sem sagt allir hálfvitar nema Richard Dawkins og nokkrir strákar á Íslandi. Allir þeir hundruði milljóna [sic] ef ekki milljarða [sic] af fólki sem trúir á eitthvað æðra því sjálfu og því sem við sjáum í kringum okkur hugsar ekki sjálfstætt. Mikið er nú gott að Dr. Dawkins kom til að upplýsa okkur um það.

Ungir Íhaldsmenn eru heitir hægri menn sem eru hrifnir af W og stjórn hans. Reyndar mætti kalla þá, ásamt Vefþjóðviljanum, fulltrúa repúblikana hér á Íslandi. Svo mjög eru þeir hallir undir þeirra stefnu að þeir hafa meira að segja tekið upp ýmis stefnumál þeirra sem hljóma undarlega í eyrum Íslendinga, eins og að kenna sköpunarhyggju í skólum samhliða þróunarkenningu Darwins. Vefþjóðviljinn er þekktur fyrir að afneita með öllu gróðurhúsaáhrifum, því þau eru jú ekkert nema samsæri vinstri manna um að tefja hagvöxt. Bæði þessi vefrit styðja fjöldamorð vestrænna landa í Mið-Austurlöndum, ásamt mannréttindabrotum um heim allan sem kallast víst „Stríð gegn hryðjuverkum“.

Ég hvet unga íhaldsmenn, fyrst þeir hafa svona sterkar skoðanir á Vantrú, að koma og ræða málin við okkur. Reyndar fór illa fyrir einum þeirra þegar hann reyndi hér um árið að afsanna þróunarkenningu Darwins á spjallborði okkar en hver veit nema þeim gangi betur að ræða önnur málefni.

Vísindi í Háskólanum

Það er hressandi að hafa raunvísindamenntaðan rektor í Háskóla Íslands. Það er ekki ónýtt að hafa sjálfan David Attenborough sem heiðursdoktor.

Á ráðstefnu

Það er gaman hjá mér núna á ráðstefnunni Jákvæðar raddir trúleysis. Búinn að sjá Richard Dawkins og Dan Barker tala. Mikill innblástur og uppörvandi að taka þátt í þessu.

Jón Baldvin hefur tekið hátt stökk á vinsældalistanum hjá mér en hann opnaði ráðstefnuna með góðri ræðu. Kýs hann í hvaðeina sem hann býður sig fram í héðan í frá.

Líffræði Hólmsteinsins

Hannes Hólmsteinn leiðir okkur í allan sannleika um gangverk náttúrunnar í pistli sínum frá því í gær í Fréttablaðinu. Þar segir hann meðal annars:

Á hverjum degi breytist umhverfið, dýra- og plöntutegundir deyja út í frumskógum við Amasón-fljót, um leið og aðrar tegundir verða til þar og annars staðar í tortímandi sköpun náttúrunnar.

Afsakið mig? Eru nýjar tegundir að verða til meðan þær gömlu hverfa? Eitthvað þyrfti dr. Hólmsteinn að hressa upp á líffræðikunnáttuna ef þetta er raunverulega hans mynd af því hvað er að gerast í náttúrunni.

Við lifum nú á tímum fjöldaútrýminga í lífríkinu, en þetta útrýmingarskeið skrifast að langmestu leiti á áhrif mannsins á hina villtu náttúru. Það sem Hannes kallar tortímandi sköpun er í þessu tilfelli einungis tortímandi því nýjar lífverur þróast ekki einn, tveir og þrír heldur er það afar hægfara ferli sem tekur hundruði þúsunda ára. Útrýmingin er hins vegar svo hröð að útlit er fyrir að allt að helmingur allra tegunda á jörðinni hverfi á næstu öld. Það kemur ekkert í staðinn fyrir þær tegundir á næstunni.

Áfram heldur prófessorinn:

…Elliðavatn er að miklu leyti uppistöðulón, sem myndaðist við virkjun Elliðaánna. En fallegt er í kringum Elliðavatn. Þetta eru umhverfisbætur, ekki umhverfisvernd. Vötn prýða landið, líka uppistöðulón.

Það er nú smekksatriði hvort að uppistöðulón séu alltaf prýði á landinu, sérstaklega þar sem fallegt landsvæði hverfa undir þau.

Reyndar er sumt í pistlinum sem ég gæti tekið undir að einhverju leyti en ég er dálítið neikvæður í kvöld þannig að ég sleppi því jákvæða núna.

Góðviðri

Það er alltaf jafn súrt að búa í landi þar sem gott veður þykir fréttnæmt.

Önugir menn

Lenti í því í gær að fá hreytt í mig hálfgerðum ónotum yfir sakleysislegri spurningu að mínu mati. Kannski rétt að taka það fram að þetta tengdist vinnunni ekki neitt, var á öðrum stað. Er eiginlega ennþá fúll út í karlugluna sem hegðaði sér svona og kallaði mig dreng í þokkabót. Sumt fólk þyrfti að taka námskeið í almennum samskiptum.

Sjálfstæðismenn sitja heima

Í ljós hefur komið að þeir borgarar sem nýta ekki atkvæðisrétt sinn eru í raun að kjósa með Sjálfstæðisflokknum. Allavega virðist það gilda á Álftanesi eins og kom fram í bókun sjálfstæðismanna á fyrsta bæjarstjórnarfundinum.

Sjálfstæðisflokkurinn lét bóka eftirfarandi: „Ljóst er í okkar huga að framboð Á lista með 596 atkvæði, getur siðferðislega ekki umsnúið samningum, sem þegar eru gerðir með lögmætum hætti. Í kosningunum höfnuðu 913 kjósendur Á lista eða 60.5% kjörgengra, með því að kjósa D lista, skila auðu, eða sitja heima.“

Hafið þetta í huga næst þegar þið ákveðið að kjósa ekki.

Síminn tengdur

Aðdáendur mínir geta tekið gleði sína á ný þar sem ég hef fengið gamla góða íslenska símanúmerið mitt aftur. Áttasexfjórirþrírtveirtveirfimm er sem sagt virkt enn á ný.

Annars óska ég öllum góðs þjóðhátíðardags.

Utanbæjar

Verð í sveitinni í dag og á morgun. Hef lítið farið út úr húsi síðan ég kom heim, ætla að bæta úr því þegar ég kem aftur. Kíkti þó í bjór með Ella og Sverri á fimmtudaginn, það var nú ósköp skemmtilegt að gera það aftur eftir langt hlé.

Kominn heim

Lentur á Íslandi aftur, mjög skrítið að vera hér eftir nánast 10 mánaða fjarveru. Búinn að fá mér skyr og flatkökur með hangiketi. Stefni á að fá mér plokkfisk innan tíðar.

Það sést að sumt hefur breyst meðan ég var í burtu. Komin ný sjónvarpsfréttastöð og svo virðist sem að sjónvarpsstöðvarnar hafi samið um leikmannaskipti, því að 365 og RÚV hafa bíttað fréttaþulum í stórum stíl. Allt var á rúi og stúi við Hringbrautina þegar ég fór en það er komin einhver mynd á þetta núna. Hef annars ekki hætt mér út úr húsi ennþá þannig að ég hef ekki mikla yfirsýn yfir það hvað hefur gerst síðan síðast.

Svo er forsætisráðherrann búinn að segja af sér og Framsókn klofin í herðar niður í valdabaráttu innri flokksarmanna. Mikið eru það nú góðar fréttir.

Ég hef líka séð nýtt myndband með Nylon þar sem þær söngla um einhvern vinarmissi. Mér sýnist að meik-notkun þeirra hafi aukist um ca. 34% síðan frá því ég sá þær síðast, fylgir líklega frægðinni í útlöndum.

Það er annars gott að vera kominn heim.