Archive for apríl, 2006

Tölvudagur

Byrjaði daginn á því að fara í nokkurs konar kynningartíma í systems biology, sem mér er ókunnugt um hvað kallast upp á íslensku. Sökum gríðarlega sterks bakgrunns úr lífupplýsingafræði kláraði ég fjögurra tíma verkefni á klukkutíma. Fannst ég vera óhemju gáfaður í dag.

Svo gerði ég skýrslu um tilraunir með DNA raðgreiningar. Nú er grill og blak í gangi í garðinum. Þetta var dagurinn í dag.

Í svefnrofunum

Þegar ég var að sofna í gær kviknuðu margar nýjar hugmyndir í kollinum á mér um eðli stjórnmála, hvað aðgreinir Vinstrið frá Hægrinu í grundvallaratriðum og ýmislegt fleira sem áhugavert er að velta fyrir sér. Ég ákvað að þetta yrði ég að skrifa um.

Í morgun þegar ég vaknaði var ég búinn að gleyma öllu þessu. Kannski var mig að dreyma það að ég væri orðinn stjórnmálaspekingur með lausnir á öllu. Mann hefur nú dreymt furðulegri drauma.

Lúðvík II Svanakóngur

I'm Ludvig II, the Swan King of Bavaria!
Which Historical Lunatic Are You?
From the fecund loins of Rum and Monkey.

Líffræðigrín

Þeir líffræðingar sem slysast inn á þessa síðu hafa örugglega gaman af þessu gríni. Hinir geta svosem prófað líka.

Heimkoma 7. júní

Búinn að bóka flug heim frá Gautaborg þann 7. júní. Áður en ég flutti út telst mér til að ég hafi lengst verið þrjár vikur í burtu frá Fróni, daginn sem ég kem heim hef ég verið úti í tæpar 42 vikur. Persónulegt met sem seint verður slegið.

Það verður nú gaman að koma heim og sjá hvaða breytingar hafa orðið á íslensku samfélagi í fjarveru minni. Er búið að klára færsluna á Hringbrautinni? Er HÍ ennþá fjársveltur? Hefur Sverrir farið í klippingu? Verður Reykjavík undir stjórn íhaldsins þegar ég sný þangað aftur?

Spurningar sem spennandi verður að fá svör við.

Blakvöllur

Í dag stikuðu Pólverjarnir hér í Hasslum út, glaðir í bragi, með sögina sem Frakkarnir stálu fyrir nokkrum vikum á fylleríi. Við spurðum þá hvað þeir ætluðu að gera með þessa ágætu sög. Bara, fella tré og smíða blakvöll, önsuðu þeir. Ég ákvað að spyrja ekki frekar út í þessa framkvæmd. Ætla bara að vera ánægður með að geta spilað blak hér í Hasslum, hvernig sem það að fella tré kemur inn í málið.

Slæm helgi

Á örfáum tímum á aðfaranótt sunnudags hvarf þrennt úr lífi mínu, síminn minn, hjólið mitt og Oddur afi minn. Eins og gefur að skilja er ég ekkert sérstaklega hress þessa dagana.

Æskuár Kirks og Spocks

Einhvern veginn leggst það ekki vel í mig að nýja Startrek myndin eigi að fjalla um þegar að Kirk hitti Spock vin sinn í fyrsta skiptið og saman lenda þeir svo í ýmsum ævintýrum í Stjörnuflotaskólanum. Ætli það verði skipt um leikara eða bara hrúgað extra mikið af meiki og tölvugrafík notuð til að yngja Shatner og Nimoy upp?

Prins Póló

Pólsku samleigjendur mínir sneru aftur úr páskaleyfinu í dag frá Póllandi. Þeir færðu mér Prins Póló að gjöf sem ég þáði með þökkum. Mér skilst að Prins Póló sé aðeins fáanlegt í Póllandi og Íslandi, kannski vita cosmopolitan menn meira um það mál.

Allavega á ég fjórar XXL Classic stangir af Prins Póló núna, það er ekki ónýtt.

Tilkynning

Að gefnu tilefni vil ég taka það fram að ég hef aldrei fjárfest í bíl og fer flestra minna ferða hjólandi eða í lest. Hátt heimsmarkaðsverð á olíu er því ekki mér að kenna.