Archive for desember, 2005

Hej då

Yfirgef Skövde kl. 15.12 á morgun og fer til Gautaborgar. Þar mun hefjast mikið flugreisa sem endar loks í Mombasa í Kenýa. Set inn einhverjar hetjusögur af mér þegar færi gefst. Hafið það gott um áramótin, ég veit að mín áramót verða góð á strönd Indlandshafs.

Segjum það þá í bili.

Listamaður

Þarf maður héðan í frá að titla Jón Óskar sem listamann?

Undirbúningur

Fór í dag og keypti sólarvörn og skordýrafælu í apótekinu. Ég hef látið bólusetja mig og byrjaður að kjamsa á malaríutöflum. Þarf að pakka á morgun, hvað tekur maður með sér til Afríku?

Annars verð ég að viðurkenna að það er ekki sérstaklega uppörvandi að fara til lands þar sem ástandið er svona.

Jingle Bells

Svo virðist sem hægt sé að finna satanísk skilaboð í flestu, sé það bara spilað afturábak. Hér er hægt að finna Jingle Bells spilað áfram og afturábak, nokkuð magnað að heyra þetta.

Náttúrufræðingurinn

Persónulega finnst mér það töff að vera meðlimur í Hinu íslenska náttúrufræðifélagi og fá Náttúrufræðinginn sendan heim tvisvar á ári. Hins vegar eru greinarnar misáhugaverðar, jafnvel fyrir áhugamann um náttúrufræði eins og mig. Mér finnst ég einhvern veginn alltaf vera að lesa um steingervinga af skeldýrum frá síðustu ísöld, einhverja stórhættulega snigla og sjaldséð krabbadýr. Og svo jarðfræðigreinar sem ég botna lítið í. Guðmundur Eggertsson heldur þessu blaði uppi með áhugaverðum greinum um uppruna lífsins.

Hvít jól

whitexmas.jpg

Að flytja inn

Einhvern tímann sagði Jakob mér að þegar flytja á inn í nýtt húsnæði þá eigi það fyrsta sem maður kemur með að vera salt og eitthvað annað. Ég man ómögulega hvað það var. Mér skildist á honum að þetta ætti að leiða til þess að þessa hluti ætti aldrei eftir að skorta á nýja heimilinu.

Ég flutti í dag yfir í nýtt herbergi hér í Hasslum. Þar sem ég mundi engan veginn hvað átti að fara fyrst með saltinu þá tók ég bara pela af íslensku brennivíni og banana með mér í fyrstu ferðina. Vona ég að þetta eigi aldrei eftir að skorta í hinum nýju vistarverum.

Krúttlegt

Það er eitthvað svo krúttlegt við prest sem lýsir því yfir að jólasveinninn sé ekki til. Grátbroslegt er líka orð sem kemur upp í hugann.

Skondin lesning

Þessi pistill á Deiglunni er nokkuð skemmtilegur. Fjallað er um fyrrverandi formann Framfarafélagsins og nýjustu uppátæki hans, hugveituna Veritas.

Klæddur og kominn á ról

Vaknaði bæði í morgun og gærmorgun kl. 7 sem mér finnst nokkuð gott miðað við að ég get sofið eins og mér sýnist þessa dagana. Það var þó góð ástæða fyrir þessu, þurfti að kveðja marga í gær og í morgun kvaddi ég Stephanie. Og þá voru eftir tveir….

Við brotthvarf Stephanie fékk ég lyklana að herbergi hennar sem verður opinberlega mitt einkaherbergi frá og með 1. janúar. Í dag ætla ég að flytja mig yfir sem verður ekki mikið mál þar sem þetta er næsta herbergi við hliðina. Það verður skrítið að vera einn í herbergi aftur. Sumir yrðu fegnir því að fá meira næði en ég er á því að næði sé ofmetið.

Það er mjög tómlegt núna hérna hjá okkur og ég er mjög feginn að Erwin ætlar að vera hérna með mér. Skil ekki hvernig fólk getur búið eitt og einsamalt. Líklega er ég of félagslyndur til að geta gert það. Ég hef aldrei búið einn og stefni að því að gera það aldrei, það er bara of leiðinlegt.