Archive for október, 2005

Tíminn

Skrítið uppátæki að breyta tímanum í útlöndum. Varð til þess að ég var vakinn að hætti Frakka klukkutíma fyrr í morgun en áætlað var. Usch!

Lestur

Prófin nálgast óðfluga en fyrra prófið mitt er á miðvikudaginn og það seinna á þriðjudeginum í næstu viku. Vikan hjá mér byrjar að sjálfsögðu á sunnudegi, ekkert viðskiptavikurugl.

Í dag lærði ég/rifjaði upp m.a. þverstæðu Levinthals, RNA pseudoknots, Chou-Fasman aðferðina, Ramachandran grafið og sitthvað fleira. Á morgun eru það svo proteomics og gömul próf sem bíða yfirferðar. Einnig lítið kver sem heitir Genetic testimony: A guide to forensic DNA profiling. Ég er kominn á kaf í einhver CSI fræði hérna í Svíþjóð, átti reyndar ekki von á því.

Tilvitnun dagsins

Minn þarfasti þjónn er bílinn minn, Eggert Páll ætlar að passa að hann fái að njóta sín. Þess vegna styðjum ég og bílinn minn Eggert Pál til setu í borgarstjórn.
Kjartan Vidó

Tekið af síðu Eggerts Páls.

Meiri sænska

Í dag hófst Sænska II fyrir erlenda stúdenta. Við lærðum að bera fram sérhljóða, æfðum frågeord og fylltum inn í en ramsa eftir upplestri. Uppgötvun dagsins var orðið sambo sem búið var til á sjöunda áratugnum til að lýsa sambúð ógifts fólks. Á svipuðum nótum er orðið delsbo sem notað er til að lýsa óreglulegri sambúð. Orðið särbo er svo notað um fólk í sambandi en er ekki í sambúð og mambo er notað yfir fólk sem býr á hótel mömmu.

Þessi ramsa var notuð við upplestrinn.

Skatan gick på gatan
Ville låna borr
Vad ska du med borr?
Borra liten vagn
Vad ska du med vagn?
Köra lite hö
Vad ska du med hö?
Ge vår lilla ko
Vad ska du med ko?
Mjölka lite mjölk
Vad ska du med mjölk?
Ysta lite ost
Vad ska du med ost?
Ge vår lilla prost
som predikar så vackert i kyrkan

Það er alltaf gaman í sænskutímum, því verður ekki neitað.

Skil samt ekki hvernig maðurinn ætlaði að búa til vagn með bornum…

Jafnrétti

Eg óska íslenskum konum til hamingju með daginn og með góða þátttöku í kröfugöngunni. Þegar að kvennafrídagurinn verður fertugur 2015 vona ég að þessi ganga verði ekki lengur kröfuganga, heldur gleðiganga vegna þess að öllum markmiðum hefur þá verið náð. Svipað og gerðist með Gay Pride gönguna.

Það segir sitt um andlegt ástand vefritsins Andríki að þeir kjósa að hæðast að kvennabaráttunni á þessum merkilega degi. Ég hef aldrei skilið vinsældir þess vefrits. Finnst sjálfum það yfirleitt vera heldur dapurleg lesning.

Tvö atkvæði

Ég sé að Freyr hefur staðið vaktina á landsfundi VG. Þori að veðja að ég þekki a.m.k. tvo flokksfélaga sem ekki hafa nennt á fundinn. Þeir eru vafalaust allir í hikstakasti núna.

Umhverfisvernd er góð fyrir budduna

Ég stakk niður penna (lyklaborði?) og skrifaði smá pistil á Kommúnuna upp úr grein sem ég las í Scientific American. Þetta gæti verið mitt manifesto sem græningja, en ég er á þeirri skoðun að leggja eigi meiri áherslu á það í umhverfisvernd, hversu hagkvæm hún er. Þau rök skilja allir en færri eru móttækilegir fyrir tilfinningarökum eins og t.d. að vernda þurfi náttúrufegurðina eða líffræðilegan fjölbreytileika.

Vil ég sértaklega benda meðlimum í grínsamtökunum Vinum einkabílsins að lesa þessa grein.

Hin hryllilega kristni

Það hafa birst fróðlegir pistlar á Vantrú undanfarna daga, Heilagur hryllingur I, II, III og IV. Mæli með þessum pistlum. Meira er svo væntanlegt um svipað efni.

Tónleikaferð

Eins og áður hefur komið fram þá fór ég til Stokkhólms á mánudaginn til að hlýða á tónleika með meistara Dylan. Með í för voru Rósa, Guðrún Lísbet og Ingimar. Tónleikarnir voru haldnir í íshokkíhöllinni Globen og fengum við sæti á ágætum stað, nánast beint fyrir framan sviðið en í talsverðri fjarlægð þó frá goðinu.

Fjarlægðin var reyndar það mikil að ég áttaði mig ekki á því hver af köllunum á sviðinu var Bob Dylan fyrr en langt var liðið á fyrsta lagið. Lögin voru flest að ég held af nýju plötunni hans, sem ég hef ekkert hlustað á. Þetta var þó skemmtilegt gamaldags gítarrokk sem var gaman að hlýða á. Hljómsveitin hans var vel spilandi en Bob sjálfur er farinn að stæla Megas helst til mikið í söngnum fyrir minn smekk.

Tónleikarnir liðu mjög fljótt og mér fannst það reyndar skrítið að Bob heilsaði aldrei áheyrendum eða var neitt að kynna sig eða hljómsveit sína. Eftir að prógrammið var búið, þar sem ég þekkti ekki eitt einasta lag, fóru Bob og félagar af sviðinu. Svíarnir vildu þó ekki sleppa af þeim takinu og stóðu og klöppuðu í óratíma að mér fannst. Hendurnar á mér voru orðnar dofnar af öllu klappinu eftir nokkrar mínútur og mér datt aldrei í hug að Dylan léti klappa sig á sviðið aftur. Hefði heyrt sögur um það að væri ekkert fyrir slíkt.

En viti menn, skyndilega kviknuðu ljósin á sviðinu aftur og meistarinn steig á stokk. Enn eitt lagið fór af stað og mér fannst ég kannast við hljómaganginn en trúði því ekki að ég væri að heyra rétt. Svo hóf Bob upp ryðgaða raust sína og söng eftirfarandi laglínur:

Once upon a time you dressed so fine You threw the bums a dime in your prime, didn’t you?

Það var eins og við manninn mælt, gríðarleg fagnaðarlæti brutust út. Like a Rolling Stone er eitt af mínum uppáhalds Dylan lögum og þetta var því mjög ánægjulegt fyrir mig að heyra sjálfan meistarann taka þetta fyrir mig.

Greinilegt var að kallinn var ánægður með viðtökurnar í Stokkhólmi því eftir þetta lag talaði hann í fyrsta skipti við áheyrendur. Kynnti sig og hljómsveitina og lauk svo tónleikunum með því að taka annað gamalt og gott lag, All Along the Watchtower. Það var reyndar mögnuð útgáfa og gott ef ekki að það mátti heyra einhver Hendrix áhrif hjá köllunum.

Eftir það fóru þeir af sviðinu og ljósin voru kveikt fljótlega eftir það. Greinilegt var að ekki átti að spila meira þetta kvöldið.

Í heildina séð er ég nokkuð sáttur við þessa tónleika. Hljómburðurinn í Globen var nokkuð góður, sætin þægileg og meistarinn í ágætu stuði. Hefði verið til í heyra meira af gömlum smellum en nýju lögin voru reyndar nokkuð góð mörg hver. Þannig að ég er ánægður með þetta allt saman.

Bob Dylan tónleikar

dylan.jpegÉg hef tvenn tilhlökkunarefni fyrir morgundaginn. Annars vegar fer ég í lestina en fyrir mann frá lestarlausu landi er það ennþá skemmtilegur ferðamáti. Lestin mun bera mig sem leið liggur til Stokkhólms en þar ætla ég á Bob Dylan tónleika ásamt Rósu, sem er þá hitt tilhlökkunarefni dagsins.

Bob Dylan er í miklu uppáhaldi hjá mér, jafnvel eftir að hann frelsaðist og enn síðar eftir að hann seldi sálu sína til Starbucks. Kallinn er samt ennþá með þeim flottari og ég vona að þessir tónleikar verði ekki eins og þeir síðustu sem hann hélt hér í Svíþjóð, sem voru víst frekar klénir.